JS Campers
JS Campers

Pistlar

Lokaorð: Skattpíndir sjálfboðaliðar!
Föstudagur 12. júní 2020 kl. 07:56

Lokaorð: Skattpíndir sjálfboðaliðar!

Lokaorð Margeirs Vilhjálmssonar

Það var stórkosleg skemmtun að vera í Leirunni síðastliðinn mánudag. Golfskálinn var kjaftfullur af fólki. Uppgjafa boltaíþróttamenn sem leika saman á mánudögum undir merkjum Golfklúbbsins Kvíðis og um 60 konur margar hverjar eru að stíga sín fyrstu skref í golfinu. Allt um 100 manns á mánudagskvöldi í mat. Við erum ekki að ferðast til útlanda svo við finnum okkur eitthvað skemmtilegt að gera hér heima. Golfið er náttúrlega alveg frábært og golfiðkun eitthvað mesta lýðheilsumál sem til er á Íslandi.

Golfvöllurinn í Leiru er meðal þeirra fimm bestu á Íslandi. Algerlega frábær. Golfklúbburinn líður hins vegar fyrir það að vera í landi Suðurnesjabæjar, Reykjanesbær notar það sem afsökun fyrir að gera sem minnst og Suðurnesjabær gerir helst ekkert vegna þess að það er líka golfvöllur í Sandgerði. Golfklúbburinn er rekinn af miklum vanefnum og ef ekki væri fyrir frábæra stjórn og sjálfboðaliða væri aðstaðan þarna ekki merkileg. Sá sem síðast tók til hendinni þarna í framkvæmdum, góður tannlæknir í Reykjanesbæ var látinn hætta sem formaður með skömm fyrir framúrkeyrslu í framkvæmdum. Tuttugu árum síðar – tel ég rétt að þakka honum kærlega fyrir framsýnina. Án hans væri þessi klúbbur í dag væntanlega í tómu tjóni því litlar sem engar hafa framkvæmdirnar verið síðan. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það sama á við um mörg önnur íþróttamannvirki á Suðurnesjum. Reykjanesbær greiðir Keflavík skammarlegan styrk fyrir að reka knattspyrnuvöll. Svo skammarlegan að sá sem þetta skrifar, einstaklingur úti í bæ er eigandi sláttuvélanna sem nota þarf til að viðhalda keppnisvelli Keflavíkur í Reykjanesbæ. 

Sorgleg staða á sama tíma og menn hreykja sér af sex milljarða rekstrarhagnaði. Það þarf að gera miklu betur. En bestu þakkir til sjálfboðaliðanna í íþróttahreyfingunni, án ykkar væri þetta ómögulegt. 

Það væri óskandi að kjörnu fulltrúarnir væru jafn öflugir.

Með sumarkveðju,

Margeir Vilhjálmsson