Byko 11-13 sept opnunarhátíð
Byko 11-13 sept opnunarhátíð

Pistlar

Geitungar, tá og tunga
Föstudagur 12. september 2025 kl. 06:25

Geitungar, tá og tunga

Sem stoltur hundaeigandi lít ég almennt á sjálfa mig sem dýravin. Er reyndar ekki alveg búin að fyrirgefa hestinum sem henti mér af baki fyrir tæpum 20 árum, en erfi það samt ekki við aðra hesta. En ef það eru einhver dýr sem ég myndi vilja útrýma með öllu þá eru það geitungar af öllu tagi. Þetta eru einfaldlega ógeðsleg kvikindi, gera ekkert gagn í náttúrunni, og eru eingöngu til ama og leiðinda. 

Nú þegar fer að hausta gerast geitungar hér í borg ansi aðgangsharðir. Það sem verra er að það hefur fjölgað í geitungafjölskyldunni með landnámi hins svokallaða Asíugeitungs til Frakklands, en það eru ekki bara ógeðsleg kvikindi heldur líka stórhættuleg og einstaklega árásargjörn. Í fyrra um þetta leyti sátum við hjónin á svölunum okkar eitt síðdegið, nutum sólarinnar og þess að horfa á mjög iðnar býflugur flakka á milli blóma á fallegu tré sem var á svölunum. Þessar elskur gera sannarlega gagn, eru engum til ama, koma aldrei inn og eru bara uppteknar í sínu frjóvgandi hlutverki. Þar sem við sátum þarna birtist allt í einu stærðarinnar Asíugeitungur og réðist á hunangsfluguna og ætlaði að fljúga með hana í burtu, ef ekki hefði verið fyrir snarræði eiginmannsins sem stökk til og rak geitunginn í burtu. Í bili allaveganna, því hann gafst svo sannarlega ekki upp, og kom til baka og gerði aðra atlögu, sem heppnaðist í þetta sinn. Þarna vorum við reyndar búin að átta okkur á því að þetta væri þessa nýja tegund sem við ættum ekkert að vera að reita til reiði, þannig að eiginmaðurinn sat hjá í þessari lotu. Það var með ólíkindum að horfa á þetta, næsti bær við að vera þátttakandi í dýralífsmynd hjá David Attenborough.

Annað sem er óþolandi við helv... geitungana er ásókn þeirra í matinn okkar og drykki. Hversu margar máltíðir hafa eyðilagst þegar þeir ryðjast óboðnir í matarboðið og byrja að hrella allt og alla? Nú er ég reyndar búin að uppgötva trikk að halda þeim frá, með því að setja kaffi í skál, kveikja í því og setja á borðið. Þetta svín virkar og ilmandi kaffikorgur er mun skárri en suðandi geitungar. 

Bílakjarninn
Bílakjarninn

En þetta dugar samt ekki alltaf til. Til dæmis ekki þegar það er mikið um að vera í eldhúsinu við að undirbúa matarboð, gestirnir komnir og verið að skála í hvítvíni, tala og hræra í sósunni á sama tíma. Ég var ekkert endilega að horfa í glasið mitt þegar ég fékk mér sopa og finn mér til hryllings að eitthvað var í glasinu, spýtti því út úr mér og sé að þetta var bústinn geitungur! En ekki nóg með það, honum tókst áður en ég losaði mig við hann að stinga mig í tunguna og skilja broddinn eftir! Sem betur fer er ég greinilega ekki með bráðaofnæmi, en ég viðurkenni að ég var aðeins meira drafandi eftir sem á kvöldið leið heldur en skýra mætti með hvítvínsdrykkju þar sem tungan stokk bólgnaði.

Það mætti svo halda að eiginmaðurinn hafi ætlað að hefna ófara minna þegar hann, nokkrum dögum seinna, steig niður af stól þar sem hann var við gluggaþvott og drap alsaklausan geitung sem var á gólfinu. En auðvitað tókst því kvikindi að láta það verða sitt síðasta verk að stinga hann í tánna, með tilheyrandi óþægindum. Sá hlær best sem síðast hlær og allt það.

Við höfum lært af þessu – að horfa alltaf í glasið áður en sopi er tekinn og vera í inniskóm við gluggaþvott. Hvað verður það næst?