Pistlar

Ljósið í myrkrinu
Föstudagur 2. október 2020 kl. 07:57

Ljósið í myrkrinu

Mikið af neikvæðum fréttum dælist yfir okkur þessa dagana, sérstaklega hérna á svæðinu, og er því tilvalið að nefna aðeins sumt af því jákvæða sem er í gangi líka. Fyrir rétt rúmlega viku síðan mætti íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu liði Svía í undankeppni EM 2021. Svíar eru með eitt besta landslið í heimi og lauk leiknum með 1:1 jafntefli sem verður að teljast frábært úrslit fyrir okkar konur.

Hin nítján ára gamla Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður Keflavíkur (sem er í láni hjá Breiðablik og ættuð úr Höfnunum), fór algjörlega á kostum í þessum leik og vakti verðskuldaða athygli hérlendis og erlendis. Atvinnumennskan handan hornsins! Hrein unun var að fylgjast með henni á vellinum og ljóst að þarna er á ferð eitthvað mesta efni sem við Íslendingar eigum í íþróttum. Í sínum öðrum landsleik þá var hún meðal langbestu leikmanna vallarins, óhrædd við að láta finna fyrir sér og sýndi leikmönnum Svía enga miskunn. Strax eftir leik sá maður montna og stolta Suðurnesjamenn á samfélagsmiðlum gleðjast yfir þessum eftirtektarverða árangri Sveindísar og ekki veitir af á þessum síðustu og verstu. Skemmtileg tilbreyting því það flæðir yfir okkur neikvæðnin þessa dagana. Sveindís mætti svo í „skemmti“ þátt Gísla Marteins á RÚV og þar sást greinilega að ekki eru bara miklir hæfileikar á vellinum hjá henni heldur er þarna á ferðinni einstaklega heilsteypt og hógvær ung manneskja. Það var a.m.k. loksins horfandi á þennan þátt hjá Gísla. Sveindísi eru hér með færðar þakkir fyrir að lyfta okkur upp, það var alveg bráðnauðsynlegt.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Annað jákvætt sem mig langar að nefna er frammistaða knattspyrnuliðanna á Suðurnesjunum þetta tímabilið, flest þeirra að gera flotta hluti. Reynir Sandgerði rifu einn leikmann með sér af Nesvöllum sem raðar inn mörkum fyrir þá og leiðin virðist greið upp í aðra deildina. Kvennalið Keflavíkur er búið að tryggja sér sæti á meðal þeirra bestu og þá er ansi líklegt að karlaliðinu takist hið sama. Þá eru Njarðvíkingar og Þróttarar úr Vogum að berjast á toppnum í annarri deildinni og stemmningin í Vogunum er eitthvað annað. Grindavík kvenna er í toppbaráttunni á annarri deildinni og strákarnir hafa rétt úr kútnum eftir erfiða byrjun.

Karfan er svo byrjuð kvennamegin og karlarnir byrja í þessari viku. Það er aðdáunarvert að fylgjast með íþróttafólkinu okkar á þessum skrítnu tímum. Vonandi getum við troðfyllt vellina sem fyrst, það er ljós í enda ganganna.

Örvar Þór Kristjánsson.