bygg 1170
bygg 1170

Pistlar

Lífið er það sem við gerum úr því
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 26. október 2019 kl. 07:42

Lífið er það sem við gerum úr því

Framan af höldum við að lífið sé endalaust. Æsku- og útlitsdýrkun þar sem allir eiga að vera ungir, hamingjusamir, ríkir og helst frægir er það sem við höldum að sé málið.

Áttum okkur svo á  því flest öll, svona smátt og smátt, að svo er ekki. Sum okkar fá jafnvel að finna fyrir áföllum snemma á lífsleiðinni, að lífið er ekki alltaf dans á rósum. Partur af lífinu er mótlætið, andstreymið í hvaða formi sem það kann nú að birtast hverju sinni.

Mér hefði nú sennilega fallist hendur hefði ég vitað á unglingsaldri hvernig líf mitt yrði, hélt þá að hamingjan kæmi á silfurfati. Ekki hefði hvarflað að mér að mótlæti og veikindi gætu í raun verið einskonar dulbúin gjöf sem mætti umbreyta í þakklæti og gleði sem er forsenda hamingjunnar

Nú þegar ég orðin miðaldra, 56 ára og vel það, og horfi yfir farinn veg þá finnst mér þessi tími hafa verið ótrúlega fljótur að líða. Ef ég geri ráð fyrir að ég fái að lifa næstu 25–30 ár þá finnst mér það líka mjög stuttur tími. Ef til vill er það vegna þess að það er fyrst núna sem mér finnst ég virkilega hamingjusöm í eigin skinni. Grátbroslegt að það þurfi mótbyr, veikindi  og áföll til að komast á þann stað í lífinu að vera hamingjusamur. Svoleiðis er það að minnsta kosti með mig. Ég þurfti að greinast með Parkinsons-veiki til að læra að elska mig sjálfa og koma fram við líkama minn af virðingu. Miklar mótsagnir í lífinu því í dag get ég virkilega sagt að ég sé sátt með líf mitt. Ég er að gera mitt besta og ég er nóg. Við erum reyndar alltaf að gera eins vel og við getum hverju sinni. Það merkilega við lífið er að lykilinn að hamingju okkar er algjörlega á okkar ábyrgð, við höfum alltaf val. Hamingjan er innra með okkur hverju og einu en þú þarft að finna lykilinn.

Ég kveiki á kerti hvern morgun og á kyrrðarstund í um það bil 15–30 mín þar sem ég les og hugsa með friði og þakklæti til heimsins, þeirrar orku sem við flest köllum Guð.

Verum þakklát hvern dag, tökum ákvörðun um að standa með okkur sama hvað.

Lífið er hér og nú.

Með kveðju,
Kolfinna Snæbjörg Magnúsdóttir,
móðir, amma, eiginkona, systir og fyrrum grunnskólakennari.