Stuðlaberg Pósthússtræti

Pistlar

Knús í (leik)hús
Föstudagur 19. febrúar 2021 kl. 12:52

Knús í (leik)hús

Mér finnst gaman að fara í leikhús og fagna því að leiksýningar séu byrjaðar aftur. Fór einmitt á sýningu hjá Leikfélagi Keflavíkur síðastliðinn föstudag á leikritið Beint í æð sem er í sýningu núna. Verð að hrósa Frumleikhúsinu fyrir frábært starf. Ótrúleg gróska í þessu áhugaleikhúsi og metnaðurinn lætur ekki á sér standa. Bý líka svo vel að ein af vinkonum mínum hefur farið með hlutverk í nokkrum af síðustu uppfærslum.

Eftir að verða ár í Kófinu þá sér maður alltaf betur hversu mikið er til í orðunum: Maður er manns gaman. Því það er fátt skemmtilegra en að gera sér dagamun með vinum sínum, hvort sem það er leikhús, tónleikar eða stunda áhugamál saman.

Undanfarið ár hefur augljóslega verið mjög sérstakt fyrir okkur öll og ekki gert okkur kleift að vera mikið innan um hvort annað. Það hefur líka haft áhrif á alla menningarviðburði og tómstundaiðkun – en vonandi sjáum við fyrir endann á þessu stríði við Kófið. Ég er alla vega þakklát fyrir að geta nú stundað mitt yoga í yogastöð en ekki heima í stofu. Líka þakklát fyrir að geta farið í leikhús þrátt fyrir að þurfa að vera vopnuð grímu. Við vinkonur vorum einmitt að ræða þetta eftir leikhúsið síðastliðinn föstudag. Hvað það er skrýtið að geta hist og farið í leikhús saman en geta ekki knúsast.

Það er svo margt sem hefur breyst hjá okkur öllum síðastliðið ár. Nú þegar hillir undir hjarðónæmi þá fer að maður að hugsa til þess hvaða atriði í Kófinu muni hafa langvarandi áhrif og hvað mun leiðréttast þegar við getum aftur farið að lifa eðlilegu lífi. Mun eitthvað hafa varanleg áhrif? Munum við hætta að faðma og knúsa þá sem falla ekki undir „jólakúlu“ skilgreiningu sóttvarnarlæknis? Munum við hætta að líta á annað fólk sem „mögulega smitbera“? Mun sala á handáburði dragast stórlega saman þegar fólk hættir að ofþurrka á sér hendurnar með sífelldri sprittun? Nokkuð ljóst að stóraukin netverslun er komin til að vera.

Stærsta áhyggjuefni mitt varðandi Kófið er þó þessi mikla og langvarandi einangrun fólks. Rannsóknir hafa sýnt að félagsleg einangrun stóreykur líkur á þunglyndi, hefur neikvæð áhrif á gæði svefns, dregur úr framtakssemi, flýtir fyrir hrörnun heilastarfsemi, hefur neikvæð áhrif á hjarta og æðakerfi og dregur úr virkni ónæmiskerfisins. Allt óháð aldri.

Þessu til staðfestingar þá hafði þessi litla leikhúsferð mín og samvera við vini mína þau áhrif að það var eins og ákveðnu fargi hafi verið af mér létt. Í staðinn fyrir að hugsa um hvað væri að koma á Netflix þá fór ég að skipuleggja eitthvað skemmtilegt frí í sumar og koma inn fleiri hittingum og meiri hreyfingu aftur í mitt daglega líf. Maður er sannarlega manns gaman.