Pistlar

Hver er samfélagsleg ábyrgð olíufélaganna?
Föstudagur 19. mars 2021 kl. 07:35

Hver er samfélagsleg ábyrgð olíufélaganna?

Við Suðurnesjamenn höfum aðeins látið í okkur heyra varðandi minni framlög til margvíslegra ríkisstofnana á Suðurnesjum, framhaldsskóla, heilbrigðisstofnunar og fleiri. Við höfum sent okkar færasta fólk á fundi í ráðuneytum og þeim hefur verið tekið vel en þrátt fyrir góðar móttökur hefur lítið gerst. Það er einhver stífla í ríkiskerfinu. Um þverbak gekk um daginn þegar bólusetningar virtust ganga eitthvað seinna á Suðurnesjum en annars staðar. Það var reyndar ekki alveg rétt eða var leiðrétt. Sem var gott.

En þá að annarri mismunun. Eldsneytisverði. Já, bensín eða olíu á bílinn fáum við ekki á samkeppnisverði eins og vinir okkar í Hafnarfirði og nágrenni eða á Akureyri. Það þótti ástæða til að bjóða lægra verð fyrir norðan. Ástæðan ekki vituð. Gott fyrir þá og bara sjálfsagt þá það hljóti að kosta eitthvað meira að flytja hana norður. Nokkrir framtakssamir einstaklingar hafa fengið nóg og sett í gang undirskriftalista í tilraun til að þrýsta á breytingar hjá olíufélögunum í þessum efnum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

VF ræddi við tvo af forsprökkunum og sjá má viðtal við þá á Víkurfréttavefnum. Fleiri og fleiri Suðurnesjamenn taka nú eldsneyti í Hafnarfirði og nágrenni þar sem finna má dælur sem bjóða allt að 40 krónum lægra lítraverð. Þeir stoppa gjarnan hjá þessum ódýru dælum. Og skal engan furða. Ferðin á höfuðborgarsvæðið er þá frí og heim líka ef þú dælir þar. Olíufélögin þegja sem gröfin og svara engu. Hér væri tækifæri fyrir t.d. Atlantsolíu að gera betur, fyrirtæki sem er ekki með sömu yfirbyggingu og hin stóru félögin. En nei, það er þægilegt að vera bara á svipuðu verði og hin félögin. Félag sem lofaði lægra verði þegar það var stofnað. Auglýsa „óþolandi ódýrt“ en nei, er það ekki. Bara með óþolandi svipað verði nema í Hafnarfirði þar sem ástæða er að keppa við Costco. Er nú komið í sama hópinn og hin olíufélögin. Lifi samkeppnin. Eða þannig. Hvar er samfélagsleg ábyrgð olíufélaganna? Hefði ekki verið lag að lækka verðið á Suðurnesjum í því alvarlega atvinnuástandi sem nú er?

Það vakti athygli í stuttri könnun okkar hjá Víkur-fréttum á eldneytisverði í Reykjanesbæ að verðið er ekki hæst á þeim dælum sem annars vegar eru staðsettar í Innri-Njarðvík, næst höfuðborgarsvæðinu, og næst flugstöðinni (er þó næst hæst,) heldur á elstu bensínstöðvunum í Reykjanesbæ, Olís og N1, í hjarta Keflavíkur. Gömlu góðu stöðvunum. Það kom óþægilega á óvart. Og ég sem alltaf fer þangað. Ég segi bara eins og góður maður sagði: Hvað er að frétta?

Páll Ketilsson
ritstjóri