Omnis
Omnis

Pistlar

Hvatningin: Þakklæti og bjartsýni!
Laugardagur 22. febrúar 2020 kl. 07:53

Hvatningin: Þakklæti og bjartsýni!

Það er gott að geta litið með þakklæti og jákvæðum augum á lífið og tilveruna. Auðvitað koma erfið tímabil í lífi fólks sem þarf að takast á við. Það eru þó mörg atriði sem leiða til þess að okkur geti almennt liðið vel. Eitt það mikilvægasta í því sambandi er góð heilsa til sálar og líkama. Það er margt sem hefur áhrif á heilsu okkar og líðan og við getum sjálf haft mikil áhrif á það hvernig okkur líður. Margir mundu nefna það að hollt og gott mataræði, reglusemi á tóbak og áfengi, líkamsrækt og þjálfun af ýmsu tagi og fleira væru lykilatriði hvað þetta varðar. Það er þó löngu viðurkennt að stór áhrifavaldur á líðan okkar mannfólksins er hugurinn. Við finnum það öll að jákvæðar hugsanir skapa okkur betri líðan, alveg eins og við finnum að neikvæðar hugsanir skapa með okkur vanlíðan. 

Margir finna styrk í trúnni á Guð, þar sem eingöngu finnast jákvæð áhrif. Það er einmitt jákvæð hugsun sem er líklegri til að auðvelda okkur að finna betri leiðir til lausna á erfiðum tímum. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir hvern og einn að vita hvaða atriði kalla fram jákvæðar hugsanir og viðbrögð. Að hugsa um allt það sem við getum þakkað fyrir hefur góð áhrif á okkur. 

Göngum þakklát og bjartsýn út í daginn og verum jákvæð, þá líður okkur betur!

Kær kveðja,

Jón Norðfjörð.