Max Norhern Light
Max Norhern Light

Pistlar

Hornsteinn í samfélaginu
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
laugardaginn 16. nóvember 2019 kl. 16:24

Hornsteinn í samfélaginu

Lokaorð Ragnheiðar Elínar

Ef einhverja stofnun í okkar nærsamfélagi mætti kalla hornstein væri það Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Við heyrum miklu oftar neikvæðar fréttir af henni en jákvæðar, umræðan er um skerta þjónustu, langa bið eftir tíma hjá læknum, skorti á heimilislæknum og svo mætti lengi telja.

Ég hef hingað til blessunarlega verið laus við að þurfa almennt að sækja mikla þjónustu til heilbrigðiskerfisins. Eins og aðrir höfum við fjölskyldan þó þurft að leita læknis vegna umgangspesta og annara smákvilla sem upp koma, við förum þá jafnan á vaktina síðdegis og fáum úrlausn okkar mála. Það hefur virkað vel fyrir okkur og ekki reynt á langan biðtíma.

Á þessu ári hef ég hinsvegar haft meira af HSS að segja en áður, einkum þar sem aldraður faðir minn hefur þurft á aðhlynningu að halda. Fyrst í febrúar á þessu ári þegar hann veiktist af inflúensu og lungnabólgu og þurfti að liggja inni í nokkra daga, og svo aftur núna þegar hann þurfti á bráðahvíldarinnlögn að halda vegna veikinda tengdum aldurstengdri heilabilun sem hann er að glíma við. Faðir minn, innfæddur og innmúraður Keflvíkingurinn, hefur verið búsettur í Reykjavík síðustu ár. Það var því algjört lán í óláni í febrúarveikindum hans að Landsspítalinn var yfirfullur og hann var sendur hingað á HSS. Og nú, þegar hann þurfti á hvíldarinnlögn að halda samdægurs var sömu sögu að segja - hann var boðinn innilega velkominn.

Ég segi lán í óláni vegna þess að hér líður honum vel og ég leyfi mér að segja að honum líði betur en honum hefði liðið annars staðar. Umönnunin, kærleikurinn og fagmennskan sem faðir minn og við fjölskyldan höfum fengið að njóta hjá framúrskarandi starfsfólki HSS er algjörlega einstök. Við systkinin höfum dvalið hjá pabba allan sólarhringinn og séð frá fyrstu hendi þá miklu virðingu sem starfsfólkið ber fyrir umbjóðendum sínum og hversu mikinn metnað starfsfólkið leggur í störf sín. Ég vil nota þennan vettvang til þess að hrósa öllu þessu góða fólki og þakka fyrir okkur.

Ég er óendanlega þakklát fyrir hvað vel er hugsað um föður minn og að hann fái að eyða ævikvöldinu hér í Keflavík þar sem hann bjó langstærsta hluta ævi sinnar. Það getur hann vegna þess að hér er til staðar sannkallaður hornsteinn í samfélaginu.