Heimurinn er lítill
Heimurinn er orðinn minni, en samt ekki. Það eru ekki nema svona sextíu ár síðan að ég hélt að Ameríka væri á Álftanesi og Bessastaðir væru Hvíta Húsið. Þessa vitneskju mína byggði ég á því sem mér hafði verið sagt sem ungum dreng í Kópavogi. Ég hafði spurt „hvar er Ameríka“ og faðir minn svarað skilmerkilega og bent í suðvestur í átt að Bessastöðum „þarna“. Tók það sem gott og gilt svar, og heimsmynd mín var byrjuð að myndast. Heimurinn var lítil.
Ég fór að hugsa um þetta þegar ég hitti vin minn stórskáldið sem ég lék mér við sem ungur drengur í og við Kópavoginn í æsku. Hann býr á Ítalíu í dag, en ég á Skeiðum. Við höfðum enga síma eða spjaldtölvur, heldur þurftum að finna okkur verkefni sem styttu okkur stundir og mótuðu okkur um leið. Vera búandi á Kársnesinu varð Kópavogurinn eðlilega miðja alheims og leikirnir sköpuðust út frá því. Háskalegir sumir, en alltaf gaman. Fórum aldrei heim fyrr en við vorum orðnir verulega svangir.
Við þurftum sjálfir að ganga í skólann. Í hvaða veðri sem var. Það var ekki í boði að vera skutlað í skólann, á íþróttaæfingar, eða hvert það var sem við þurftum að fara. Vildum við gera eitthvað, þurftum við að finna út úr því sjálfir, sem var gott þannig varð frelsið meira. Heimurinn var lítill og Ameríka á Álftanesi. En svo breyttist heimsýnin eftir því sem árin liðu. Heimurinn varð stór, en virðist vera að minnka aftur. Og frelsið er farið.
Spjaldtölvur og símar ráða nú ferðinni. Heimurinn er orðinn miklu minni. Hann er eiginlega bara inn í stofu eða herbergi. Varla hægt að ná sambandi við nokkurn mann nema í gegnum þessi tæki, og öppin. Það líður varla sá dagur sem ekki ekki er gerð krafa um að maður úr vegi sér nýtt app. Svona til þess að tryggja að maður eigi sem allra minnst samskipti við annað fólk.
Víst er tæknin góð til ýmissa hluta, en hún er varhugaverð. Hún gæti svo auðveldlega tekið af okkur völdin með allskonar gervigreind og fylgihlutum. Rænt okkur mennskunni til að upplifa og njóta samskipta hvert við annað. Tíminn líður á netinu og rænir okkur upplifuninni af því að vera.








