Pistlar

Grýla og óvættir jólanna
Föstudagur 29. desember 2023 kl. 06:01

Grýla og óvættir jólanna

Í allri eldgosaumræðunni varð fréttin um Láru óþekku nánast að engu. Hvarf jafn skyndilega og hún birtist og náði sér aldrei á flug því allra hörðustu gagnrýnendur internetsins voru uppteknir við annað. Til að rifja aðeins upp þá gerði Birgitta nefnilega þau leiðinlegu mistök að kalla Láru óþekka og þar af leiðandi myndi hún fá kartöflu í skóinn. Virðingarríku foreldrunum fannst þetta nú aðeins of langt gengið enda eiga allar tilfinningar rétt á sér. Mér varð hins vegar hugsað til æskuáranna og allra þeirra óvætta sem sveimuðu um þá, helst á kvöldin og um jólin.

Þegar ég var lítil var Grýla nefnilega yfirleitt við næsta götuhorn og hennar eina hlutverk var að bíða eftir því að ég yrði óþekk. Og ekki nóg með það, í halarófu á eftir henni voru jólasveinarnir hver með sína kartöfluna. Fékk samt bara eina. Þegar halarófan fór svo aftur upp til fjalla tók Björn nokkur bóndi við keflinu og var iðulega rétt ókominn á traktornum niður af Villingaholti til að sækja óþekktarormana. Hvort hann skilaði þeim aftur var svo annað mál enda var aldrei látið á það reyna. Nema jú kannski í eitt skiptið þegar við systkinin vorum farin að efast um að bóndinn væri yfir höfuð til þá fór faðir minn í gamlan ullarjakka, stígvél og setti upp eina hræðilegustu grímu sem sögur fara af. Svo barði hann að dyrum eitt dimmt kvöld í janúar. Bara svona til að minna villingana sína þrjá á sæmilegu hegðunina. Ég, þá fjögurra ára, hentist yfir stofuna af hræðslu. Virðingarríkt uppeldi eða ekki, þetta svoleiðis svínvirkaði. Ég er ekki frá því að þetta hafi einnig auðgað ímyndunaraflið, sem og myrkfælnina sem fylgdi mér allt upp á fullorðinsár.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Má ekkert í dag?“ segja svo eldri kynslóðirnar. Amma, sem aldrei gerir flugu mein, sagðist hafa snúið börnunum á hvolf yfir klósettinu og hrist þau pínulítið þar til óþekktin var farin úr þeim. Þá sturtaði hún pent niður, sló saman höndum, lagaði svuntuna og hélt áfram að bardúsa við sitt. Nú í seinni tíð hefur hræðsluáróðurinn örlítið breyst og óvættirnar orðnar annars kyns. Hvað gæti svo sem haft áhrif á hátíðarnar? Veðurofsi, flugumferðarstjórar eða móðir náttúra? Vaxtahækkanir og verðbólga? Kannski banka draugar fortíðarinnar upp á hjá Skröggum og minna þá á að njóta augnabliksins?

Sama hverjar þær kunnu að vera skulum við standa keik. Standa saman og hjálpast að. Lítum í kringum okkur hógværum augum. Hefjum nýtt ár full þakklætis fyrir það sem við eigum og full festu til að berjast gegn óréttlæti og óvættum. Ég bíð allavega eftir því að kæri Björn setjist upp í traktorinn sinn og leggi af stað til mín, enda alveg að koma janúar. Ég ætla nefnilega að bjóða honum í kaffi, karlinum.

Gleðilegt nýtt ár!