Rétturinn
Rétturinn

Pistlar

Grímsnes GK og Maron GK á toppnum – stuð á Nesfisksbátunum
Föstudagur 9. október 2020 kl. 07:02

Grímsnes GK og Maron GK á toppnum – stuð á Nesfisksbátunum


September búinn og október hafin. Undanfarin ár þá hefur október verið nokkuð góður aflamánuður og þá aðallega hjá línubátunum.

Loksins eru línubátar byrjaðir á veiðum frá Suðurnesjum. Reyndar ekki stórir en tveir bátar í Sandgerði hafa hafið veiðar. Annar þeirra heitir Alli GK og er í eigu Sigurðar og Gylfa Sigurðarssonar, hann hefur farið í þrjá róðra og landað um sex tonnum. Hinn báturinn er Gulltoppur GK sem Stakkavík á, hann hefur líka farið í þrjá róðra og landað um átta tonnum. 

Gulltoppur GK fór núna í byrjun október á línuslóðir út af Sandgerði og fékk þar tæp fjögur tonn á 24 bala sem er um 166 kíló á bala. Það telst nú nokkuð gott. Báðir bátarnir róa með bölum og er beitt af bátunum í Sandgerði.

Talandi um Sandgerði þá er Ellert Skúlason nýbúinn að ljúka við að dýpka undir kranana við höfnina. Reyndar hefði nú mátt ganga betur frá undir fyrsta krananum en ennþá er smá malarhrúga utan við legustæðið.

Flestir línubátanna eru á veiðum við Norður- og Austurlandið og fyrirtækið Einhamar ehf. í Grindavík er með alla bátana sína við Austurlandið. Línubáturinn Auður Vésteins SU var á útleið frá Djúpavogi á sunnudaginn og sigldi á sker sem er skammt frá Papey. Höggið var mjög mikið því peran datt af og hliðarskrúfan brotnaði frá. Sjór komst í vistarverur skipverja og báturinn hallaði mikið fram á við enda höfðu dælur ekki undan því mikill sjór var kominn í bátinn.

Áhöfninni var bjargað yfir í Véstein GK sem var þarna skammt frá og ákveðið var að taka bátinn í tog og var báturinn dreginn afturábak til Djúpavogs. Björgunarsveitin Björg á Djúpavogi tók bátinn í tog og þegar komið var til Djúpavogs þá var lekinn svo mikill að dælur höfðu ekki undan og var því ákveðið að hífa bátinn strax á land svo hann myndi ekki sökkva við bryggjuna. Tjónið á bátnum er þó nokkuð, stórt og mikið gat er fremst á bátnum. Hliðarskrúfan er ónýt og mikil sjór komst í vistarverur skipverja. Viðgerðarmenn frá Trefjum í Hafnarfirði, en báturinn er smíðaður þar, fóru strax austur og áætlað er að eftir rúma eina viku verði viðgerð lokið á bátnum. Fjögurra manna áhöfn bátsins bjargaðist og er það gleðiefni.

Mjög mikið er af skerjum á leið til Djúpavogs og þótt mikil mildi að báturinn skyldi hafa siglt beint á skerið en ekki fengið það undir miðjan bátinn því þá hefði líklegast ekki verið hægt að bjarga honum.

Fyrst við erum að tala um þessa báta þá er rétt að líta aðeins á aflatölur um bátana í september. Af bátunum sem eru um 30 tonn af stærð þá var Sævík GK aflahæst með 125 tonn í sautján róðrum, Gísli Súrsson GK var með 120 tonn í fimmtán og Óli á Stað GK 113 var með tonn í 23 róðrum, Vésteinn GK 108 tonn í sextán og Auður Vésteins SU 107,5 tonn í sextán róðrum. 

Endum á dragnóta- og netabátunum. Nesfisksbátarnir áttu feikilega góðan mánuð því þeir lönduðu alls 651 tonni. Siggi Bjarna GK var með 199 tonn í tuttugu, Sigurfari GK 205 tonn í átján og Benni Sæm GK 247 tonn í sextán og má geta þess að báturinn varð þriðji aflahæsti dragnótabáturinn á Íslandi í september.

Hjá netabátunum var ufsabáturinn Grímsnes GK aflahæsti netabáturinn á landinu í september með 222 tonn í ellefu róðrum. Maron GK var hæstur þorskveiðibátanna með 95 tonn í 24 róðrum.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is