Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Pistlar

Góð veiði í októberblíðu á Suðurnesjum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 24. október 2025 kl. 09:43

Góð veiði í októberblíðu á Suðurnesjum

Það fer lítið fyrir því að veturinn sé á leiðinni. Veðrið í október hefur verið með eindæmum gott og síðustu daga hefur hreinlega verið blíða. Svo gott var veðrið að nokkrir færabátar gátu haldið út, alla leið út að Fjalli og Boðanum við Eldey. Þessi veiðisvæði eru í um 45 til 53 sjómílna fjarlægð frá Sandgerði.

Þrátt fyrir langa leið gekk veiðin vel hjá bátunum. Séra Árni GK kom með 4,8 tonn í einni löndun, Hawkerinn GK var með 2,6 tonn í tveimur róðrum og Dóra Sæm HF landaði um 3 tonnum eftir tvo róðra.

Bjössi á Dímon GK hefur róið stíft núna í október, jafnvel einn úti þegar aðrir bátar sátu í höfn. Hann hefur sótt fast í Röstina og farið alls níu róðra þangað á mánuðinum, með 7,3 tonn í afla, mest ufsa. Það merkilega er að Bjössi er, þegar þessi pistill er skrifaður, þriðji aflahæsti handfærabátur landsins og sá sem hefur róið flesta róðra. Það er afrek út af fyrir sig. Nú fer þó að hægjast á því hjá Bjössa því Dímon GK fær nýja vél, sem verður 100 hestöflum öflugri en sú gamla.

Ekki aðeins færabátar hafa gert góða veiði í Röstinni, því að línubátarnir Margrét GK og Særif SH fóru báðir þangað og lentu í mokveiði, einkum af löngu. Margrét GK kom til Sandgerðis með fullfermi, um 17 tonn, og daginn eftir kom Særif SH með 27 tonn eftir aðeins tvær lagnir.

Flestir línubátarnir frá Suðurnesjum eru þessa dagana á veiðum fyrir norðan eða austan. Fjölnir GK er með 118 tonn í fimmtán róðrum, Dúddi Gísla GK með 66 tonn í tíu, Hemmi á Stað GK með 35 tonn í sex á Skagaströnd, Auður Vésteins SU með 144 tonn í fjórtán á Neskaupstað og Óli á Stað GK með 127 tonn í tólf róðrum á Siglufirði.

Erling KE er nýkominn úr slipp í Njarðvík og fer brátt á veiðar. Báturinn á eftir um eitt þúsund tonn í kvóta, mest allt þorsk, og verður því spennandi að fylgjast með þegar hann leggur af stað á ný.

Friðrik Sigurðsson ÁR er á ufsaveiðum austan við Vestmannaeyjar og hefur gengið vel hjá honum. Báturinn er kominn með 126 tonn í fimm róðrum og mest 38 tonn í einni löndun. Friðrik landar í Þorlákshöfn, en ufsi og þorskur úr afla hans er ekið til Keflavíkur þar sem vinnsla Hólmgríms vinnur aflann.

Netabátarnir sem landa í Keflavík hafa einnig veitt vel að undanförnu. Addi Afi GK er með 29 tonn í fjórtán róðrum og mest sex tonn, Halldór Afi KE með 24 tonn í þrettán róðrum og mest 5,2 tonn, Emma Rós KE með 37 tonn í tólf róðrum og mest níu tonn í einni löndun, Svala Dís KE með 21 tonn í tólf róðrum og Sunna Líf KE með níu tonn í átta. Þessir bátar hafa verið á veiðum í Faxaflóa og út við Garðskagavita þar sem aflabrögð hafa verið góð í októberblíðunni.

Dubliner
Dubliner