Pistlar

Gaman í jarðarför
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 18. júní 2021 kl. 08:20

Gaman í jarðarför

Já, þetta er sérstök fyrirsögn en þetta var samt setningin sem kom upp í huga mér þegar ég kom úr fyrstu jarðarförinni sem ég sótti í vikunni í rúmt ár, eftir frekari rýmkun á sóttvarnarreglum.

Ég var að kveðja gamla vinkonu okkar og fjölskylduvin. Keflavíkurkirkja fullsetin í fyrsta skipti frá upphafi heimsfaraldurs. Skömmu fyrir síðustu reglugerð heilbrigðisráðherra sátu aðstandendur hinnar látnu sveittir yfir því hvernig ætti að raða hópum inn í kirkjuna og í erfisdrykkju á eftir. Þau mál leystust farsællega og 15. júní var fyrsti dagurinn þar sem 300 manns máttu koma saman – og ... hvað það var notalegt.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er alveg ljóst að þó svo að við höfum lært mikið til gagns á einu kóvídári þar sem fólk hefur ekki getað fylgt ættingjum og vinum síðasta spölinn nema fylgjast með streymi frá útförum, þá er hitt svo miklu betra. Það er sérstök stund að fylgja fólki síðasta spölinn og fara í jarðarför. Við hlustum á orð prestsins sem oftast eru vel valin og hitta mann iðulega í hjartastað. Við hlustum á fallega tónlist og látum hugann reika til þess sem verið er að kveðja. Það er svo allt annað að vera í guðshúsi við svona athöfn. Við hjá Víkurfréttum höfum núna frá því kóvíd byrjaði fyrir rúmu ári streymt frá jarðarförum Suðurnesjamanna í hverri viku að jafnaði. Það var vegna sóttvarnarreglna sem við þekkjum öll. Það kom í hugann að þrátt fyrir að það sé gott að geta farið í útfarir væri gott ef það væri hægt að streyma öllum útförum. Það er alltaf einhver fjöldi fólks sem getur ekki sótt útfarir vegna margvíslegra ástæðna, til dæmis bara sjúklingar á sjúkrahúsum eða annars staðar en gæti fylgst með henni úr streymi, annað hvort „í beinni“ eða sama dag og þannig náð að kveðja viðkomandi. Þetta er eitthvað sem mætti huga að, hvort væri ekki lag að koma búnaði fyrir í kirkjunum til að streyma eða kaupa slíka þjónustu, þó þetta sé ekki skrifað í þeim tilgangi.

Fólk hefur þurft að breyta ýmsu í kófinu en nú heyrist að það hafi aldrei verið meiri spurn eftir þjónustu viðburðaraðila eða fyrirtækja. Það er því ljóst að það bíða allir eftir því að komast út úr kófinu eftir erfiðan heimsfaraldur sem hefur reynt á okkur. Eitt af því sem t.d. hefur verið erfitt er að hafa ekki getað heimsótt ættingja eða vini á sjúkrastofnunum nema mjög takmarkað. Takmarkanir hafa verið margvíslegar og í mörgum tilfellum mjög erfiðar en nú horfir til betri vegar.

Stundin í Keflavíkurkirkju þegar við kvöddum hina látnu var notaleg. Kirkjan var fullsetin, í fyrsta skipti í meira en ár. Kórinn og tónlistin til fyrirmyndar. Jarðarfarir eru að sömu leyti eins og góðir tónleikar, bara með tali á milli. Klassískir sálmar eins og „Hærra, minn Guð, til þín“ og „Drottinn er minn hirðir“ er eitthvað sem manni finnst gott að heyra.

Og þó ég sé ekki aðdáandi enska knattspyrnustórliðsins Liverpool þá fékk ég gæsahúð þegar stórsöngvarinn Gissur Páll Gissurarson söng með kórnum „Aldrei einn á ferð“.

Maður ber höfuðið hátt, hræðist ei skugga á leið ... og þó byrðin sé þung sem þú berð, þá stattu fast og vit fyrir víst, þú ert aldrei einn á ferð.

Það eru orð að sönnu.