Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Pistlar

Færri sem róa frá Suðurnesjum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 13. janúar 2023 kl. 06:21

Færri sem róa frá Suðurnesjum

Þá er vertíðin árið 2023 hafin og það verður að segjast eins og er að það er þó nokkur fækkun á bátum sem munu róa frá Suðurnesjum á þessari vertíð. Helst er fækkuninn hjá línubátunum.

Ef við skoðum fyrstu tíu dagana í janúar 2023 og 2022, þá sést að t.d. Addi Afi GK var á línu árið 2022 en er núna á gildruveiðum að veiða grjótkrabba frá Akranesi. Ragnar Alfreðs GK var á línu árið 2022 en hefur ekkert róið síðan í september 2022.

Public deli
Public deli

Stóri línubáturinn Hrafn GK var á veiðum þessa fyrstu daga í janúar 2022 en honum var lagt og endaði í brotajárni um sumarið 2022. Dóri GK var á línu þessa fyrstu daga í janúar 2022 en er núna í slippnum í Njarðvík og hefur verið þar síðan í maí árið 2022.

Á móti kemur, og það vekur ansi mikla athygli, að færabátar náðu að róa þessa fyrstu daga í janúar árið 2023 en enginn var á þeim veiðum fyrir ári síðan. Verður að segjast að veiðin byrji vel. Dímon GK með 1,9 tonn, Sigfús B ÍS 1,7 tonn, Teista SH 1,1 tonn, Grindjáni GK 571 kg., Guðrún GK 2,1 tonn og Von GK 546 kg., allir bátar í tveimur róðrum. Arnar ÁR 1,4 tonn í einum og Hafdalur GK 1,4 tonn í þremur róðrum. Þessir bátar skiptast svo til jafnt á milli Grindavíkur og Sandgerðis.

Frekar rólegt er yfir netaveiðunum en nýi Erling KE er ekki kominn á veiðar, Maron GK er með 16 tonn í fjórum róðrum og Grímsnes GK 15 tonn í einum en hann er á ufsanum og landar í Þorlákshöfn.

Hjá dragnótabátunum er Siggi Bjarna GK með 35 tonn í fjórum, Sigurfari GK 25 tonn í fjórum og Benni Sæm GK 8,1 tonn í þremur.

Mjög góð veiði hefur verið hjá línubátunum og þeir voru flestir við Grindavík en færðu sig síðan nokkrir yfir til Sandgerðis, eftir að fréttist um mjög góða veiði hjá Katrínu GK og Margréti GK, en báðir bátarnir voru með línuna í Faxaflóanum.

Dúddi Gísla GK er með 18 tonn í þremur löndunum, Sævík GK 41 tonn í fimm, Margrét GK 33 tonn í þremur og þar af 13,3 tonn í einni löndun. Hulda GK 31 tonn í fjórum, Katrín GK 27 tonn í þremur og þar af 12,5 tonn í einum, Daðey GK 28 tonn í fjórum, Hópsnes GK 17 tonn í þremur og þar af 9,3 tonn í einum, í Sandgerði. Gulltoppur GK er eini báturinn sem eftir er fyrir norðan og var með 8,6 tonn í tveimur, landað á Skagaströnd.

Geirfugl GK kom suður núna í vikunni en hann hafði verið á Siglufirði og landað þar 6,1 tonnum í einni  löndun.

Gamli Sigurfari GK er núna í Sandgerði og heitir Jóhanna ÁR og hefur verið á sæbjúgnaveiðum í Faxaflóanum og landað 6,6 tonn í tveimur róðrum.

Í Grindavík hafa nokkrir 29 metra togbátar landað afla, t.d. Vörður ÞH 81,5 tonn í einum róðri, Sturla GK 32 tonn í einum og síðan kom Pálína Þórunn GK þangað með afla, en aflatölur um þann togara voru ekki komnar þegar að þessi pistill var skrifaður.