Pistlar

Allir sigurvegarar
Sunnudagur 3. október 2021 kl. 09:57

Allir sigurvegarar

Það var kosið til Alþingis um síðustu helgi og túlkuðu nánast allir forsvarsmenn flokkanna niðurstöðurnar sem sigur. Stórsigur, varnarsigur eða bara sigur. Ekkert nýtt þar. Ríkisstjórn Kötu Jak hélt velli, bætti reyndar við sig tveimur mönnum en það er ekkert öruggt í þessum bransa og hver veit nema einhver önnur stjórn verði mynduð á næstu vikum. Hægri, vinstri eða á ská.

Inga Sæland væri jafnvel flottur heilbrigðisráðherra en hún vildi m.a. loka landinu þar til Covid-faraldrinum væri lokið og ætlaði að senda Íslendinga á heimleið frá Tenerife í sóttkví í Egilshöll. Sú myndi taka þennan faraldur föstum tökum. Annars hafa þessir stjórnmálamenn engar áhyggjur lengur af Covid (nema þegar farið er í klippingu) því djammið á kosningavökum flokkanna var bara eins og fyrir hrun, geggjuð partý langt fram á nótt! Mjöðurinn var flæðandi allt kvöldið enda skv. sóttvarnarlækni er engin hætta á ferð þegar fólk fær hann frítt!

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það hefði samt kannski betur átt að sleppa því að hafa hann við hönd við talningu atkvæða í Borgarnesi. Fimm aðilar vöknuðu morguninn eftir kosningar sem alþingismenn og sáu fram á bjartari tíð í rétt rúmlega níu klukkutíma. Adam var þó ekki lengi í Paradís en þá kom í ljós að talið var vitlaust í Nesinu góða og einhver fáein atkvæði sveifluðust til þannig að einhverjir aðrir fimm aðilar duttu inná þing. Meira að segja erlendir fjölmiðlar fjölluðu  myndarlega um þá staðreynd að konur yrðu í meirihluta á Alþingi okkar Íslendinga en svo varð að draga það allt saman til baka.

Algjör tilfinninga rússíbani og spurning hvort það ætti ekki að einfalda kerfið okkar? Eða ekki, það var a.m.k. fútt í þessu og spenna eins og um leik í úrslitakeppninni í körfubolta væri að ræða. Einhver kærumál eru í gangi og sumir að krefjast þess jafnvel að allt verði endurtalið og jafnvel kosið aftur! Skondið að sama fólk lét Trump kallinn heyra það þegar hann vildi endurtalningu í henni Ameríku enda er hann jú bara asni.

Hún getur nefnilega verið ansi skrautleg þessi pólitík á köflum, menn geta víst skipt um lið á miðju tímabili lendi þeir t.d. í upptökum á öldurhúsum borgarinnar kennd við klaustur. Einn þeirra datt t.d inn á þing eftir að hafa verið allan sunnudaginn að leita sér að vinnu! Ísland er best í heimi.