Pistlar

Aflafréttir: Spurning hvenær bátunum fjölgar
Föstudagur 16. október 2020 kl. 07:35

Aflafréttir: Spurning hvenær bátunum fjölgar

Loksins eru komnir bátar frá Suðurnesjum sem eru byrjaðir að róa á línu. Í Sandgerði eru núna þrír bátar sem hafa hafið veiðar á línu. Alli GK sem er á balaveiðum og hefur landað um níu tonnum í fjórum róðrum. Báturinn hefur verið með 24 bala í róðri og aflinn því um 120 til 150 kíló á bala sem er nú nokkuð gott. Gulltoppi GK hefur gengið best, kominn með um sautján tonn í fimm róðrum síðan báturinn byrjaði veiðar í lok september, mest um fimm tonn í einni löndun. Í þeim róðri var báturinn með 36 bala eða 138 kíló á bala. Þriðji báturinn er svo Katrín GK sem hóf veiðar fyrir nokkrum dögum síðan og fór í prufutúr með tuttugu bala og kom í land með 2,6 tonn eða um 131 kíló á bala. Það telst nokkuð gott á þessum tíma hérna fyrir sunnan að ná yfir 100 kíló á bala og þetta lítur bara vel út. Nú er bara spurning hvenær það fjölgar bátunum.

Annars fylgir með myndband sem sýnir þegar að Katrín GK var að koma til Sandgerðis úr sínum fyrsta róðri sínum með þessi 2,6 tonn, nokkuð flott hljóðið í bátnum en það heyrist ansi vel í höfninni þegar að Katrín GK kemur til hafnar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Netabátarnir hafa verið að fiska nokkuð vel núna í byrjun október. Í Sandgerði hafa verið Guðrún GK sem hefur landað 13,3 tonni í tíu og Sunna Líf GK sem er með 13,5 tonn í átta. Hraunsvík GK byrjaði í Reykjavík en færði sig síðan til Grindavíkur og hefur verið að leggja netin við Reykjanesið. Hefur Hraunsvík GK landað 15,3 tonn í fimm róðrum og mest 6,7 tonn, þar af er aflinn í Grindavík 6,2 tonn í þremur.

Í Þorlákshöfn eru ufsabátarnir Langanes GK og Grímsnes GK. Grímsnes GK er kominn með 51 tonn í þremur og mest 24 tonn og Langanes GK með 43 tonn í þremur og mest 27 tonn.

Í Keflavík/Njarðvík eru svo þrír netabátar; Halldór Afi GK sem er með 25 tonn í níu og mest 5,2 tonn, Maron GK 23,2 tonn í sjö og Bergvík GK með 5,5 tonn í þremur.

Enginn af stóru línubátunum er að landa í heimahöfn en þeir eru allir fyrir norðan og austan. Sighvatur GK var með 152 tonn og Hrafn GK 70 tonn á Siglufirði, Fjölnir GK 101 tonn á Sauðárkróki, Jóhanna Gísladóttir GK 76 tonn og Páll Jónsson GK 72 tonn í einum báðir á Djúpavogi – og eins og vanalega þá er þorskinum af þessum bátum, sem og öðrum bátum sem eru að landa á Norður- og Austurlandinu, ekið suður til vinnslu. Eini báturinn sem hefur landað í Grindavík núna í byrjun október er togarinn Bylgja VE sem Vísir ehf. er með á leigu. Togarinn kom til Grindavíkur með tæp 80 tonn en hafði þar á undan landað á Eskifirði og Djúpavogi, hinn togbáturinn í eigu Grindavíkinga, Sturla GK, hefur verið að landa á Djúpavogi og landaði þar 140 tonnum í þremur.

Gísli Reynisson,
aflafrettir.is