Pistlar

Aflafréttir: Góð veiði í dragnót á Hafnaleir
Föstudagur 28. febrúar 2020 kl. 15:50

Aflafréttir: Góð veiði í dragnót á Hafnaleir

Síðasti pistill endaði á smá texta um bátinn Langanes GK sem Hólmgrímur á og gerir út. Báturinn hóf veiðar í síðustu viku og byrjaði mjög vel. Fyrsti róður um 20,5 tonn en í þeim næsta varð smá vélarbilun í bátnum þegar að fæðidæla fyrir aðalvélina bilaði og fór björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein frá Sandgerði út á móts við Langanes GK, tók bátinn í tog og dró til Njarðvíkur. Frekar vont veður var og nokkuð þungur sjór en drátturinn gekk vel og strax við komuna til Njarðvíkur var skipt um dæluna.

Annars heilt yfir þá hefur verið mjög góð veiði hjá bátunum og flestallir línubátarnir, í það minnsta þeir minni, eru komnir á veiðar við Grindavík en stóru línubátarnir eru út af Sandgerði, frekar djúpt úti.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sturla GK er kominn með 404 tonn í fjórum róðrum og mest 125 tonn, Sighvatur GK 385 tonn í þremur og mest 140 tonn, Jóhanna Gísladóttir GK 378 tonn í fjórum og mest 162 tonn, Kristín GK 370 tonn í fjórum, Valdimar GK 246  tonn í fjórum og allir að landa í heimahöfn Grindavík.

Margrét GK með 152 tonn í tólf, Óli á Stað GK 138 tonn í sextán, Gísli Súrsson GK 120 tonn í tíu, Sævík GK 116 tonn í tólf, Daðey GK 111 tonn í ellefu, Hrafn GK kominn á veiðar eftir að hafa verið stopp í hátt í einn mánuð. Kom með 104 tonn í einni löndun í sínum fyrsta túr.

Febrúar þýddi líka endalokin fyrir Pál Jónsson GK eins og hefur verið greint frá en það þýddi líka upphafið á nýja Páli Jónssyni GK því að sá nýi hefur hafið veiðar, byrjar reyndar rólega hjá honum, aðeins 66 tonn í tveimur róðrum.

Veiði hjá dragnótabátunum hefur verið góð og hafa þeir svo til allir verið á svipuðum slóðum að veiða, miðunum undir Hafnaberginu, Hafnaleir eins og það er kallað, þar hefur líka Fróði II ÁR frá Þorlákshöfn verið á veiðum en hann er útilegubátur og fiskar í sig og landar svo í Þorlákshöfn. Hefur hann landað 88 tonnum í fimm róðrum og mest 41 tonni.

Af heimabátunum þá er Sigurfari GK með 107 tonn í ellefu, Benni Sæm GK 107 tonn í tíu. Munar þarna á þeim 121 kílói. Siggi Bjarna GK 85 tonn í sjö, Aðalbjörg RE 55 tonn í átta og Ísey EA, sem er gamli Gulltoppur GK, er með 44 tonn í sjö en hann hefur verið að landa bæði í Sandgerði og Grindavík, þó ívið meira í Sandgerði.

Talandi um línubátana, núna eru allir minni línubátarnir komnir suður til veiða en þeir hafa verið við Austurlandið ansi lengi. Kristján HF kom suður og hefur landaði 18,2  tonnum í tveimur róðrum í Grindavík. Vésteinn GK er líka kominn suður og hefur landað 80 tonnum í sex róðrum í Grindavík. Auður Vésteins SU kom líka suður og hefur landað 38 tonnum í þremur róðrum.

Nokkrir togbátar hafa verið rétt utan við Sandgerði á veiðum og eru þetta bátar sem hafa leyfi til þess að veiða upp að þremur sjómílum frá landi, t.d hafa Hringur SH, Runólfur SH og Farsæll SH verið þarna utan við á veiðum. Enginn af þessum bátum landar hérna á Suðurnesjum heldur sigla þeir allir til Grundarfjarðar. Pálína Þórunn GK, nýi báturinn hjá Nesfiski, er þarna líka á veiðum og hefur hann landað 125 tonnum í fjórum róðrum og þar af 28 tonnum í heimahöfn sinni, Sandgerði.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is