Pistlar

Aflafréttir: Einn á báti með tvær trossur og lenti í mokveiði
Föstudagur 21. febrúar 2020 kl. 10:18

Aflafréttir: Einn á báti með tvær trossur og lenti í mokveiði

Undanfarna pistla hef ég byrjað að ræða um veðrið, um það að loksins komast bátar á sjóinn eða þá að endalausar brælur séu í gangi. Er ekki best að taka smá pásu í þessaða blessaða veðurdæmi? 

Óháð þessu blessaða veðri, sem er búið að vera ansi misjafnt, þá hefur verið mjög góð veiði þá daga sem bátarnir hafa komist á sjóinn. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við skulum byrja á togbátunum. Sóley Sigurjóns GK er með 287 tonn í fjórum löndunum, Berglín GK 200 tonn í þremur. Pálína Þórunn GK, nýjasti báturinn í flota Nesfisk, 83 tonn í þremur róðrum. Ennþá er einhver bið í að báturinn komi til sinnar heimahafnar en báturinn er skráður í Sandgerði. 

Dragnótabátarnir hafa líka fiskað vel þá daga sem þeir hafa komist á sjóinn. Benni Sæm GK með 90 tonn í sex róðrum og mest 23,4 tonn, Sigurfari GK 82 tonn í sjö og mest 33 tonn. Siggi Bjarna GK er loksin kominn á veiðar en eins og hefur verið fjallað um hérna í þessum pistlum þá bilaði gírinn í bátnum snemma í desember 2019. Siggi Bjarna GK hefur landað 37 tonnum í þremur róðrum og mest nítján tonnum í einni löndun, Aðalbjörg RE 40 tonn í fimm róðrum. 

Mokveiði er búin að vera hjá netabátunum og Erling KE er kominn með 203 tonn í átta róðrum, mest 44 tonn í einni löndun. Maron GK 75 tonn í tíu, Hraunsvík GK 30 tonn í sex og mest átta tonn, Halldór Afi GK 21 tonn í sjö, Þorsteinn GK 23 tonn í fjórum og Sunna Líf GK 18 tonn í sex, mest 7,1 tonn. 

Bergvík GK, sem er gamla Daðey GK, fór í einn róður um daginn og vekur sá róður nokkra athygli. Hafþór Örn Þórðarson rær nefnilega einn á bátnum en Hafþór er mjög lunkinn netaskipstjóri. Hann fór á sjóinn með aðeins tvær trossur, eða átján net, og lenti í mokveiði aðeins einn á bátnum því hann kom í land með tæp fimm tonn. Pistlahöfundur var á bryggjunni í Sandgerði þegar að Hafþór kom í land á báti sínum og aðstoði Hafþór við að hífa upp aflann úr bátnum. 

Væri gaman ef einhver myndi henda slatta af kvóta á Bergvíkina og Hafþór fengi mann með sér, sjá hvað strákurinn myndi fiska, ansi vel gert hjá honum að ná í fimm tonn einn á bátnum í aðeins tvær trossur.

Myndin sem fylgir þessum pistli sýnir ofan í Bergvíkina GK, þetta hefur verið ansi mikil vinna hjá Hafþóri GK að lenda í þessu moki. En vel gert hjá honum. 

Annars er ekki alveg góðar fréttir af netabátunum. Því einn merkilegasti netabátur Suðurnesja, og ekki bara Suðurnesja heldur líka Íslands, Grímsnes GK var dreginn til hafnar í Njarðvík fyrir um viku síðan, var það Maron GK sem dró Grímsnes GK í land. Kom í ljós að nokkuð alvarleg vélarbilun varð í Grímsnesi GK og eru t.d. allir knastásar ónýtir. 

Þessi vélarbilun kemur á alveg skelfilega vondum tíma því núna er hávertíð og allt á kafi í fiski utan við Sandgerði, þar sem að netabátarnir hafa verið að veiðum, og því mjög bagalegt að Grímsnes GK sé ekki með, allavega í bili. 

Hólmgrímur sem gerir út Grímsnes GK og Maron GK er reyndar með tromp í erminni því að nýjasti báturinn hans, Langanes GK, er orðin klár úr slipp. Hann var tekinn upp og inn í hús í Njarðvíkurslipp þar sem að græni liturinn sem var á bátnum hvarf og í staðinn er kominn fallegur, rauður litur sem er einkennislitur hjá bátunum hans Hólmgríms.

Og skella svo slatta af kvóta á Bergvíkina GK. 

Gísli Reynisson
aflafrettir.is