Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Pistlar

Af hverju
Föstudagur 11. október 2019 kl. 07:25

Af hverju

Bensínverð, bakarí og þjónusta á Suðurnesjum í Lokaorðum Ragnheiðar Elínar Árnadóttur

Af hverju er bensínlítrinn 30 krónum dýrari hjá ÓB og Atlantsolíu í Reykjanesbæ en hjá ÓB og Atlantsolíu í Hafnarfirði?

Public deli
Public deli

Af hverju er ekki boðið upp á fulla þjónustu hjá N1 í Keflavík eins og hjá N1 í Hafnarfirði og Reykjavík?

Af hverju virðist grænmetið í Krónunni á Fitjum alltaf vera á síðasta söludegi, en brakandi ferskt í Krónunni í Hafnarfirði?

Af hverju fæst ekki almennilegt súrdeigsbrauð í bakaríunum í Reykjanesbæ?

Og þá er ég að tala um alvörunni súrdeigsbrauð eins og í Brauð og Co., en ekki eitthvað loftbrauð sem er kallað súrdeigsbrauð en á ekkert skylt við það. (Og já, ég veit að það er hægt að kaupa pakkað súrdeigsbrauð í Bónus og stundum líka hjá SoHo). En ég er að tala um bakaríin.

Og talandi um bakaríin, af hverju eru alltaf bara nokkra daga gamlar kökur til sölu um helgar þegar maður þyrfti helst að geta reddað einhverju með kaffinu þegar óvænta gesti ber að garði? Og já – ég veit að vínarbrauðin og snúðarnir eru líka bakaðir um helgar, ég er að tala um kökur. 

Og meira af bakaríum, og þetta er svona almennt nöldur sem á ekki bara við um bakaríin hér á svæðinu. Af hverju fær maður sitthvort svarið þegar maður spyr í bakaríinu: „Er þetta nýbakað?“ (Já!) eða „Er þetta bakað í dag?“ (Uhhh…nei, reyndar ekki). „Kommon“ setjiði nú gömlu kökurnar til hliðar og bjóðið okkur með afslætti. Það er töff og margir sem myndu vilja nýta sér það. Eða, merkið þær með skilti sem segir „Gamlar kökur á venjulegu verði“ og gáið hversu margar þið munið selja.

Markmiðið með þessum nöldurpistli er alls ekki það að taka blásarann á sum fyrirtæki og sleppa öðrum, heldur eru þetta einfaldlega nýjustu dæmin um hluti sem geta gert mig brjálaða. Það særir réttlætiskennd mína að verða vitni að svona rugli, því ég veit ekki til þess að neytendur hér séu eitthvað öðruvísi en hinum megin við Reykjanesbrautina. Ég er of oft búin að blóta spínatinu sem virðist ekki þola bílferðina frá Fitjum að Heiðarbrún, og því að geta ekki keypt mér bensíndæluþjónustu þegar ég er í sparifötunum í brjáluðu veðri. 

Ég vil geta verslað heima og hef það reyndar að markmiði að kaupa allt í heimabyggð sem mig vantar og fæst hér. En ég er búin að fá nóg af þessu rugli. Nú kaupi ég ódýra bensínið hinum megin við brautina, eða rándýra bensínið þegar ég nenni ekki að dæla, líka hinum megin við brautina. Ég sleppi því að ergja mig á ferðum í bakaríið, skelli í vöfflur með sunnudagskaffinu og kippi með mér alvörunni súrdeigsbrauði úr bænum. 

En annars er ég bara nokkuð góð. Góðar stundir!