Pistlar

Á hálum ís
Föstudagur 27. nóvember 2020 kl. 08:38

Á hálum ís

Ég vara ykkur við – þetta er nöldur­pistill.  Í stuttu máli er staðan svona: Við megum ekki fara í ræktina, ekki í sund, ekki stunda íþróttir almennt, ekki fara til útlanda og varla upp í sumarbústað. Við megum ekki heimsækjast á, ekki fara jólahlaðborð eða halda heimapartý. Við látum þetta yfir okkur ganga í baráttunni við vondu veiruna, gerum gott úr þessu og skiljum það að til þess að ná tökum á þessu verðum við að færa þessar fórnir ... vonandi bara tímabundið og vonandi fer þessu að linna. Við pössum okkur og förum extra varlega til þess að valda ekki auknu álagi á heilbrigðiskerfið og förum ekki til læknis nema brýna nauðsyn beri til.

En eitt megum við, og erum í raun hvött af Ölmu og félögum til að gera mikið af, og það er að fara út að ganga okkur til heilsubótar. Við Lubbi og Björk vinkona mín vorum reyndar löngu búin að fatta áhrifamátt heilsubótargöngunnar og förum daglega okkar sjö, átta kílómetra hring, allan ársins hring, í öllum veðrum og í öllu færi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við búum á Íslandi þar sem vetrarfærð á ekki að koma neinum á óvart. Veðrið undanfarið hefur verið stórkostlega fallegt og kjörið til útivistar, nema hvað að maður er í stöðugri lífshættu á gangstéttum og götum bæjarins vegna seinnar og slakrar frammistöðu bæjaryfirvalda hvað hálkuvarnir varðar. Það er sandað seint og illa og eftir einhverju mjög undarlegu og handahófskenndu leiðarkerfi þar sem heilu pörtunum af stígum er sleppt – og kannski eru það fyrirmæli frá sóttvarnaryfirvöldum að það eigi að tryggja fjarlægðarmörk með því að sanda bara fyrir einn, a.m.k. er sandröndin víða þannig að það kallar á að ganga í röð.

Ástæða þess að ég er að missa mig úr pirringi yfir þessu er sú að veturinn er rétt að byrja og ég man vel hvernig veturinn var í fyrra og hversu illa þessum hlutum var sinnt þá. Því vil ég beina þeim tilmælum til Reykjanesbæjar að hysja upp um sig og sýna nú metnað hvað þessa grunnþjónustu við okkur íbúa varðar. Þetta er ekki flókið en þetta skiptir miklu máli. Það þarf að sanda, salta og ryðja snjó þegar aðstæður krefjast – alltaf – og sama hvaða dagur er. Það frystir nefnilega og snjóar líka um helgar og á hátíðisdögum. Það þarf jafnvel að sanda, salta og ryðja snjó á sömu stöðunum dag eftir dag eftir dag ef aðstæður krefjast. Þetta er svona eins og þegar maður er nýbúinn að ryksuga allt heima hjá sér og einhver veður um allt á skítugum skónum –þá þarf maður einfaldlega að ryksuga aftur. Ótrúlega þreytandi en einfaldlega óhjákvæmilegt.

Í alvöru – við megum varla gera neitt annað en að fara út að ganga og ekki viljum við fylla heilsugæsluna með fórnarlömbum hálkuslysa. Koma svo Reykjanesbær – sýna smá metnað!

Sjáumst svo ofurhress á göngunni!