Bilakjarninn
Bilakjarninn

Mannlíf

Sífelld aukning á Fish house í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 27. júlí 2025 kl. 11:56

Sífelld aukning á Fish house í Grindavík

„Sumarið hefur gengið vel, það er stöðugur straumur ferðafólks til Grindavíkur. Ég gæti trúað að hlutfall erlendra gesta á Fish house sé vel yfir 90%, ég vil sjá landa mína og Grindvíkinga auðvitað, koma í meira mæli,“ segir eigandi Fish house í Grindavík, Kári Guðmundsson. Kári eins og aðrir atvinnurekendur í Grindavík, lenti í kröppum dansi eftir að rýma þurfti Grindavík og hefur barist hatrammri baráttu við yfirvöld ásamt öðrum atvinnurekendum í Grindavík. Öllum stuðningi lauk snemma á þessu ári og var ekki annað í boði fyrir Kára en opna í Grindavík og hefur verið stöðug aukning þá rúmu tvo mánuði sem Fish house hefur verið opið.

Kári vill að yfirvöld fari að vinna hlutina meira með Grindvíkingum en hann mætti á mótmælin við Grindavíkurveg á dögunum, Grindvíkingar mótmæltu að ekki væri opið fyrir ferðafólk inn til Grindavíkur en á sama tíma gátu sömu aðilar gengið að eldgosinu og baðað sig í Bláa lóninu á eftir en báðir staðir voru eins merktir í áhættumatinu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Yfirvöld verða að fara vakna af þessum þyrnirósarsvefni sínum. Það vantaði ekki loforðin fyrir síðustu kosningar, það átti heldur betur að hjálpa fyrirtækjunum í Grindavík en ekkert hefur heyrst síðan ný ríkisstjórn tók við og sá stuðningur sem þó var fyrir hendi, var tekinn í burtu. Ekki nóg með það, þegar við svo loksins getum opnað, þá þurfum við að búa við takmarkanir sem aðrir aðilar á svæðinu þurfa ekki að búa við. Ég vil meina að þetta sé brot á réttindum okkar Grindvíkinga. Áhættumatskortið leit nákvæmlega eins út sunnan og norðan við Þorbjörn og þess vegna áttu sömu reglur að gilda. Við verðum bara að trúa að nýjum lögreglustjóra hafi orðið á í messunni, allir geta gert mistök. Vonandi lærir fólk af þessu og það fari að kveða við nýjan tón. Fræðingarnir töldu að þetta yrði síðasta eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni, ef það er satt má hefja uppbyggingu í Grindavík strax svo ég ætla að vera bjartsýnn á framtíðina.“

Blaðamaður kíkti við rétt fyrir lokun...

Reksturinn á Fish house hefur gengið vel í sumar, ég opna kl. 11 og hafa nánast allir dagar verið pakkaðir frá morgni til kvölds. Grindavík virkar sem segull á erlent ferðafólk og við eigum að nýta þetta tækifæri. Það væri gaman að sjá fleiri Íslendinga, mér skilst að það séu nánast eingöngu erlendir ferðamenn sem tjaldi á frábæra tjaldstæðinu okkar, ég hvet Íslendinga til að staldra við í Grindavík. Hér er margt að sjá, frábær sundlaug og einn fallegasti golfvöllur landsins. Margir frábærir veitingastaðir og það er einfaldlega gott að vera í Grindavík. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn á framtíð Grindavíkur,“ sagði Kári að lokum.

... skömmu áður var setið á öllum borðum.