Gabríel Aron til Breiðabliks sem lánar hann til ÍR
Keflvíkingurinn Gabríel Aron Sævarsson mun leika með ÍR í Lengjudeildinni í knattspyrnu en nýlega var greint frá því að Breiðablik hafi keypt leikmanninn og að hann myndi klára tímabilið með Keflavík. Uppeldislið Gabríels, Keflavík, óskaði svo eftir því að flýta skiptunum.
Gabríel mun því klæðast ÍR-búningi í viðureign við uppeldisfélagið hans í síðari umferð Lengjudeildar. Þjálfari ÍR er Keflvíkingurinn Jóhann Guðmundsson.
Gabríel Aron hefur verið einn efnilegasti leikmaður Keflavíkur undanfarin ár og honum gekk mjög vel í vorleikjum og í leikjum sínum í fyrri umferðinni. Hann skoraði sex mörk í 16 leikjum og kom að fleiri mörkum.