Sævar með nýja plötu
Píanóleikarinn og tónskáldið Sævar Jóhannsson fagnar útgáfu nýrrar Hljómplötu: ‘Quiet Presence’ – djúpstæð, persónuleg hugleiðing um heimili og að tilheyra. Innblásin af bernsku sem var mótuð af tíðum flutningum sem skildu eftir miklar tilfinningar um rótleysi og spurninguna, hvað er heimili? Hljómplatan miðlar fjölbreyttum, jafnvel andstæðum tilfinningum; sorg og létti, eftirsjá og sátt og kannar hvað það þýðir að finna öryggi í heimi breytinga. En fyrir Sævar var tónlist; það að fá að fara í tónlistarskóla, spila í lúðrasveit með öðrum krökkum, að upplifa sig sem hluta af litlu samfélagi, það sem hjálpaði honum að finna „sitt“ heimili. Við vonum að þessi hljómplata gefi hlustendum frið og rými til að hugleiða hvað heimili sé fyrir þeim.
Strengirnir voru hljóðritaðir í Greenhouse Studios með Valgeiri Sigurðssyni (Björk, Feist) og skartaði einstaklega flottum hljóðfæraleikurum, Una Sveinbjarnardóttir á fiðlu, Agnes Eyja á fiðlu, Ásta Kristín Pjetursdóttir á víólu og Hrafnhildur M. Guðmundsdóttir á selló. Píanóleikur Sævars var tekin upp í Studíó Varða af kvikmyndatónskáldinu Eðvarði Egilssyni. Umslag plötunnar er eftir ljósmyndarann Yael B.C. – mynd af Sævari fljótandi í jökulvatni – fangar tilfinningalegan kjarna plötunnar: að vera á reki milli heimila í leit að kyrrðinni.
Sævar er þekktur fyrir tilfinningarík tónverk en hann hefur m.a. gefið út tvær plötur undir eigin nafni. Fyrsta platan ‘Whenever You’re Ready’ vann ‘You Should Have Heard This’ verðlaunin frá Reykjavík Grapevine Music Awards 2023. Hann hefur einnig samið tónlist fyrir stuttmyndir og leikhús en nýlega starfaði hann sem tónlistarstjóri og flytjandi fyrir fjórar óperu uppfærslur (þ.á.m. Brím, óperu eftir Friðrik Margrétar-Guðmundsson sem vann tónlist ársins á Grímunni 2025) og frumsýnir La Bóheme með Sviðslistahópnum Óði í Borgarleikhúsinu 6. desember næstkomandi.
Hljómplatan kemur út 1. nóvember 2025 á streymisveitum og vínyl. Útgáfutónleikar verða 8. mars 2026 í Tjarnarbíó.








