Heklan
Heklan

Mannlíf

Pálmi fór á kostum „á trúnó“
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 14. nóvember 2025 kl. 10:33

Pálmi fór á kostum „á trúnó“

Tónlistarmaðurinn Pálmi Gunnarsson fór á kostum „á trúnó“ tónleikum í Bergi í Hljómahöll í gærkvöldi. Um hundrað manns nutu flestra af þekktustu lögum sem Pálmi hefur sungið í gegnum tíðina en kappinn fór líka „á trúnó“ og sagði margar skemmtilegar sögur frá löngum tónlistarferli.

Undirtekir í salnum voru mjög góðar og gestir tóku undir og sungu með Pálma í lögum eins og Þitt fyrsta bros, Vegurinn heim og Hvers vegna varstu ekki kyrr? Ég er á leiðinni með Brunaliðinu. Pálmi sem er kominn yfir sjötugt gaf ekkert eftir á tónleikunum í söng og sögum en með honum var Þórir Úlfarsson á píanó en hann hefur líka verið lengi í hópi bestu tónlistarmanna landsins.

Pálmi samdi á ferlinum tvö lög og hann flutti annað þeirra á tónleikunum. Hann hefur átt langt samstarf við Magnús Eiríksson en þeir hafa verið í Mannakornum svo lengi sem menn muna og Maggi hefur verið öflugur lagasmiður en Pálmi séð að mestu leyti um sönginn. Pálmi notaði tækifærið á tónleikunum og sagði að það væri gaman að vera í fyrsta skipti í þessum sal sem tekur um 100 manns í sæti en hljóðgæði og lýsing er eins og gerist best. Hann sagði að tónlistarlífið á Íslandi ætti keflvískum tónlistarmönnum mikið að þakka og sagði framlag þeirra til tónlistar á Íslandi ómetanlegt en Pálmi hefur sungið mörg lög eftir Magnús Kjartansson og Gunnar Þórðarson, svo einhverjir séu nefndir.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Meðal gesta á tónleikunum var söngkonan María Baldursdóttir, ekkja Rúnars Júlíussonar, en hún heilsaði upp á kappann að loknum tónleikunum. 

Í hópi gesta var elsti núlifandi íbúinn á Suðurnesjum, hinn 102 ára Gunnar Jónsson sem sjá má á þessari mynd.

Sigurður Helgi, sonur Pálma var auðvitað mættur með konu sinni, Ragnheiði Möller, Kristjáni Möller og Hófí Karlsdóttur.

Og nokkrir gestir vildu fá selfí með kappanum.