Mannlíf

Níræð strandveiðihetja
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 3. júní 2023 kl. 06:09

Níræð strandveiðihetja

Reri árabát á haf út fyrir fermingu

„Ég mun stunda strandveiðina á meðan ég hef heilsu til,“ segir Einar Kristinn Haraldsson sem er nýlega orðinn níutíu ára gamall.

Sjómennska telst væntanlega til erfiðisvinnu og flestir ímynda sér eflaust sjómanninn sem hraustan karlmann á besta aldri. Þetta er hins vegar auðvitað úreld staðalímynd en fullt af konum stunda sjóinn af krafti og eins sigla gamlir menn um höfin blá. Blaðamaður bíður spenntur eftir að frétta af gamalli konu sem vinnur þessa erfiðisvinnu, hún mun pottþétt finnast en það þurfti ekki að leita langt yfir skammt til að vinna gamla sjómanninn, þeir eru nokkrir í Grindavík. Enginn er þó eldri en Einar Haraldsson, kenndan við Hamar austur í hverfi í Grindavík, hann er fæddur níunda apríl árið 1933 og er því orðinn níutíu ára gamall! Einar á Hamri eins og hann er oftast kallaður, hefur stundað sjóinn síðan hann var polli, á ennþá bátinn Hamar og stundar strandveiðina.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sá á unglingsaldri að sjómennska yrði sín atvinna

Einar byrjaði á að fara yfir æskuna. „Ég var ekki gamall þegar ég fór að fara með pabba á sjóinn en ég man eftir mér fyrir fermingu með Sigga Garðars að róa árabát, við fórum frá gömlu vörinni, Buðlungavör. Gömlu karlarnir sem voru að fara sjálfir til sjós, hjálpuðu okkur að setja bátinn niður og við dóluðum okkur allan daginn við Siggi og renndum fyrir fisk. Það yrði eitthvað sagt ef þrettán, fjórtán ára guttar væru að leika þetta eftir í dag. Strax á unglingsárunum sá ég að sjómennska yrði mín atvinna, ég réði mig í fyrsta skipti á vertíð árið 1950, þá orðinn sautján ára gamall, á bát sem hét Ægir. Þetta var 35 tonna bátur og við vorum bæði á línu og netum á honum. Næsti bátur sem ég réði mig á var Maí sem Einar Dagbjartsson átti ásamt öðrum, flutti mig svo með Einari yfir á Merkúr sem leysti Maí af hólmi. Ég man nú ekki alla bátana sem ég var á, þeir voru þónokkrir en ég keypti mér líka trillu árið 1952, gat róið á henni á milli þess sem ég var á vertíðum. Svo fékk ég nóg af sjómennskunni, keypti mér vörubíl og vann á honum í nokkur ár en missti síðan heilsuna þegar ég fékk alvarlegt magasár. Eftir það réði ég mig aldrei aftur til sjós, vann hitt og þetta en reri þó trillunni minni á sumrin. Svo bauðst mér starf við höfnina í Grindavík og vann þar í nokkur ár og sigldi lóðsinum þegar þess þurfti, ég vann þar þangað til ég komst á eftirlaunaaldur. Þá endurnýjaði ég bátinn minn og fékk mér þann sem ég sigli á í dag, Hamar.

Strandveiðin

Sjómaðurinn hefur alltaf blundað í Einari og þegar strandveiðikerfið byrjaði árið 2009, var hann snöggur að stökkva til. „Ég átti alltaf trilluna og fór á henni mér til yndisauka en þegar strandveiðikerfið byrjaði sá ég mér leik á borði. Ég hef nýtt mér þetta kerfi alveg síðan það byrjaði en ég má ekki fiska um of því þá missi ég ellilífeyrinn, það finnst mér alveg fáranlegt. Það er margt athugavert við þetta kerfi, alveg fráleitt að láta sömu reglur gilda hér fyrir sunnan eða norðaustan. Það á að leyfa okkur að byrja strandveiðina strax í apríl, þá er nóg af fiski fyrir utan Grindavík. Af hverju ekki að leyfa veiði á D-svæði á þeim tíma, leyfa svo veiði á C-svæði á öðrum tíma og svo koll af kolli? Nei, í dag byrja allir á sama tíma og loksins þegar kominn er fiskur fyrir norðaustan, er hugsanlega og líklega, búið að klára þau tíu þúsund tonn sem má veiða, þetta er alveg fáranlegt að mínu mati.

Fer ekki langt og nennir ekki brasi

Ég hef náð einum róðri á þessu tímabili, ég fer ekki langt og nenni ekki að vera braska þetta nema bara í góðu veðri. Tíðin í maí hefur verið hörmuleg en það mun birta til og þá mæti ég galvaskur. Mér skilst að einhver frá Víkurfréttum og Suðurnesja magasíni, ætli með mér í róður þegar það verður blíða og ætli sér að gera sjónvarpsinnslag um mig, það verður fróðlegt, ég hlakka mikið til,“ sagði Einar að lokum.