Bygg
Bygg

Mannlíf

Maríusystur í vorferðalagi á Suðurnesjum
Laugardagur 10. maí 2025 kl. 06:35

Maríusystur í vorferðalagi á Suðurnesjum

Á fallegum vordegi þann 1. maí síðastliðinn héldu 47 íslenskar og 16 norskar systur í Maríureglunni í vorferð um Reykjanes.

Landslagið á Reykjanesi er eins og allir vita einstakt. Hin mikla eldvirkni síðustu ár gerir hvern mann meira meðvitaðan um að taka eftir því þegar keyrt er af einu hrauni á annað. Sum hraunin eru slétt, önnur úfin og gróðurþekjan segir til um hversu langt er síðan þau runnu.

Leiðin lá fyrst í gegnum Grindavík en þau ósköp sem þar hafa dunið yfir eru ólýsanleg. Það er erfitt að færa í orð þær hugsanir sem vakna við að aka um svæðið ekki síður fyrir íslenskar systur sem norskar.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Maríureglan er norsk regla kvenna með eina starfandi stúku á Íslandi. Markmið Maríureglunnar er mannrækt þar sem lagt er upp úr því að þekkja sjálfa sig og viðbrögð sín, meðal annars þegar eitthvað bjátar á. Í því sambandi er einungis hægt að ímynda sér lífsreynslu Grindvíkinga sem aftur og aftur hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Lífsreynsla þeirra er mikil og mikilvægt að þjóðin standi áfram við bakið á þeim.

Næst lá leiðin kringum nesið að Gunnuhver og loks að Garðskagavita. Þar var að finna margar áhugaverðar perlur jafnt fyrir innlenda sem erlenda gesti. Systur fengu kaffi í nýja vitanum á Garðskaga og skoðuðu þar mjög áhugaverða sýningu um myndun norðurljósa og um hvali.

Byggðasafnið á Garðskaga hefur fengið frábæra yfirhalningu og þrír safnverðir leiddu hópinn um fyrri tíma. Þar minntust systur fortíðarinnar þegar sumar sem börn keyrðu traktorinn um túnin eða þegar svo erfitt var að fá efni á Íslandi að hveitipokar voru nýttir til saumaskapar svo ekki sé minnst á tímann þegar carmenrúllurnar voru upp á sitt besta. Sagan sem myndar grunninn að þjóðarvitundinni og því sem í okkur öllum býr.

Við Maríusystur mælum klárlega með heimsókn á Reykjanesið.

Björg Pétursdóttir,
forseti Maríustúkunnar í Reykjavík

Í ferðinni voru forsetar Maríustúknanna í Notodden og í Skien í Noregi, auk forseta og tveimur fyrrum forsetum Maríustúkunnar í Reykjavík.