Heklan
Heklan

Mannlíf

Tyrkjarránið á leið í heimildarmynd
Óskar Kristinn Vignisson og Hallur Gunnarsson með Adam Nichols.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 28. desember 2025 kl. 04:08

Tyrkjarránið á leið í heimildarmynd

— sem verður sýnd á 400 ára afmælinu

„Við gáfum út fimm bækur á COVID-tímabilinu, m.a. um Tyrkjaránið og svo fæddist hugmynd að gerð heimildarmyndar um efnið,“ segir Adam Nichols, kanadískur prófessor við Maryland-háskólann í Bandaríkjunum. Hann kom á vegum skólans til Íslands árið 1987 og kenndi bandarískum hermönnum á herstöðinni á Keflavíkurflugvelli og tók ástfóstri við Ísland og sögu landsins. Hann kynntist fljótlega Keflvíkingnum Karli Smára Hreinssyni og þeir hafa skrifað nokkrar bækur, m.a. um Tyrkjaránið svokallaða sem gerðist árið 1627. Hluti sögunnar gerðist í Grindavík og þar var Adam staddur síðastliðið haust þar sem gerð heimildarmyndar um Tyrkjaránið var hafin. Tveir Grindvíkingar voru með Adam á þessum söguslóðum í Grindavík, kvikmyndagerðarmaðurinn Óskar Kristinn Vignisson og Hallur Gunnarsson, formaður Minja- og sögufélags Grindavíkur.

Adam fannst hann vera kominn heim þegar hann steig fæti í Keflavík árið 1987.

„Ég get ekki útskýrt þetta, ég fékk þessa tilfinningu með að vera kominn heim um leið og ég lenti í Keflavík. Ég hef alltaf haft áhuga á sögu og Íslendingar eiga heldur betur sína sögu frá örófi alda. Ég kom hingað til að kenna bandarískum hermönnum og fjölskyldum þeirra um Njálusögu, við gátum farið á þær slóðir þar sem sagan gerðist og þá kynntist ég Karli Smára Hreinssyni og við urðum góðir vinir. Hann var leiðsögumaður okkar í þessari ferð á Njáluslóðir, ég fékk hann sem gestafyrirlesara hjá mér og hann kom síðar með þá hugmynd að við ættum að þýða þessar gömlu sögur, m.a. söguna um Tyrkjaránið. Það sem er sérstakt við þá sögu er nákvæm lýsing Ólafs Egilssonar, prests í Vestmannaeyjum þegar hann var tekinn til fanga. Hann skrifaði bók um þessa atburði, Reisubók. Fyrsta bókin sem við Karl þýddum yfir á ensku kom út árið 2008 en þegar COVID skall á þá vorum við mjög afkastamiklir. Sá tími var erfiður fyrir flesta en fyrir okkur Karl reyndist tíminn vera blessun í dulargervi og við gáfum út fimm bækur á COVID-tímabilinu. M.a. kom bók út um Tyrkjaránið og svo fæddist hugmynd að gerð heimildarmyndar um efnið.“

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Ráðist á Grindvíkinga

Það voru tveir hópar sjóræningja sem réðust á þrjá staði á Íslandi fyrir þessum tæpu 400 árum sem liðin eru. Annar hópurinn, frá Alsír, kom við á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum og hinn hópurinn, sem var frá Marokkó, tók land við Grindavík, á Bessastöðum og á Snæfellsnesi. Adam lýsti hvernig ræningjarnir fóru að í Grindavík.

„Danskt kaupskip var fyrir utan Grindavík í júní 1627 og voru viðskipti í gangi á milli Grindvíkinga og þessara Dana. Allt í einu birtist skip sem rifaði seglin og kastaði ankeri. Auðvitað hafði enginn hugmynd um hverjir þetta voru og þvert á það sem er haldið varðandi ofbeldið sem þessir sjóræningjar áttu að hafa sýnt, þá var ekkert slíkt í gangi. Þeir voru skynsamir og í stað þess að ráðast inn með látum sendu þeir nokkra menn á léttabát til að kanna aðstæður, þeir töluðu við skipstjórann á danska skipinu og þóttust vera hvalveiðimenn. Þeir fengu upplýsingar og fóru til baka í sitt skip. Danski kaupmaðurinn ákvað að kanna hvað væri í gangi svo hann sendi átta menn út í ókunnuga skipið og það voru fyrstu fangarnir. Sjóræningjarnir komu svo í tugatali á land en þá var danska kaupmanninn farinn að gruna að eitthvað dularfullt væri í gangi fyrst þeir átta sem hann sendi út í skipið skiluðu sér ekki til baka. Hann náði að flýja með sitt fólk og varninginn út í hraunið og slapp en ræningjarnir réðust á þrjá bæi í Grindavík, m.a. Járngerðarstaði og náðu nokkrum tugum fanga. Stuttu síðar kom annað danskt kaupskip og ræningjunum tókst að plata þá til sín og tóku alla skipverjana til fanga og tóku líka það skip. Skipið sem var komið var hins vegar skilið eftir og ræningjarnir héldu til Bessastaða en náðu ekki miklu þar og réðust svo á nokkra staði á Snæfellsnesi. Þeir náðu nokkrum breskum fiskveiðiskipum en fréttu af þeim af tveimur breskum herskipum sem voru fyrir vestan til að verja um 150 önnur fiskveiðiskip og sjóræningjarnir voru skynsamir, vildu ekki lenda í slag við herskip og héldu heim á leið,“ sagði Adam að lokum.

Adam og Karl Smára vantaði einhvern til að sýna sér söguslóðir í Grindavík og Hallur Gunnarsson, formaður Minja- og sögufélags Grindavíkur, komst í kynni við þá.

„Það er mjög gaman að taka þátt í þessu en ég hef mikinn áhuga á sögu okkar Grindvíkinga. Ég vissi lítillega um þessa atburði sem gerðust fyrir hartnær 400 árum og hef svo fræðst enn meira í gegnum verk þeirra Adams og Karls. Ég hafði aðeins lesið mér til um atburðina í bók sem var skrifuð um atburðina í Vestmannaeyjum, þar var minnst á það sem gekk á í Grindavík í nokkrum köflum og ég bað þá félaga um að þýða bókina svo fólk gæti lesið um hvað gekk hér. Eftir þrjá mánuði höfðu þeir samband og vildu bæta um betur, þeir vildu skrifa nýja bók um það sem gerðist hér í Grindavík og það varð úr. Síðan þá er búið að þýða bækurnar á nokkur tungumál og mjög spennandi að verið sé að gera þessa heimildarmynd um Tyrkjaránið núna. Hún verður frumsýnd á 400 ára afmæli atburðarins árið 2027 og samhliða því stefnum við á að halda ráðstefnu um Tyrkjaránið. Við Óskar kvikmyndagerðarmaður erum síðan með ýmsar aðrar hugmyndir í kollinum, t.d. um sögu Grindavíkur,“ sagði Hallur.

Óskar Kristinn Vignisson er ungur og upprennandi kvikmyndagerðarmaður frá Grindavík, hvernig kom til að hann var að mynda þennan hluta heimildarmyndarinnar í Grindavík?

„Ég var búinn að kynnast Halli sem sagði mér frá þessu verkefni Adams og Karls Smára. Mér fannst þetta áhugavert og vildi glaður kvikmynda þennan hluta viðtalsins við Adam. Hann er ótrúlega flottur, veit ofboðslega mikið um þessa atburði og er frábær sögumaður, svo þetta hefur verið mjög skemmtilegt og fræðandi fyrir mig. Það voru þrjú gengi sem tóku upp það sem gerðist hér á Íslandi, eitt tökulið á Austfjörðum og annað í Vestmannaeyjum. Ég er síðan búinn að mynda það sem gerðist hér og á Bessastöðum en ráðgert er að frumsýna myndina eftir tvö ár þegar stórafmælið ber upp. Það er því nægur tími til stefnu og án þess að vita nákvæmlega hvað höfundar myndarinnar ætla að gera þá skilst mér að þeir vilji kanna hvort íslenskt DNA sé að finna í þeim löndum þaðan sem ræningjarnir voru og í löndum þar sem vitað er að fólk fór, t.d. á Spáni. Það er mjög gaman að taka þátt í þessu og verður spennandi að sjá hvernig lokaútkoman verður.

Annars er ég mest að vinna sem „freelance“, ræð mig í tímabundin verkefni en aðalvinnan mín þessa dagana er að skrifa handrit að bíómyndum sem ég mun gera í Danmörku, ég fékk styrk þaðan og hugmyndin er að gera þrjár bíómyndir út frá þessari hugmynd sem ég er að vinna að ásamt dönskum kvikmyndaframleiðanda. Ég er með fullt af öðrum hugmyndum í kollinum og m.a. erum við byrjaðir að mynda út frá hamförunum í Grindavík, ekki beint um atburðinn sem slíkan heldur vil ég fjalla um hann persónulega þar sem ég er frá Grindavík. Mig langar að ná utan um þessa grindvísku sál sem er löskuð eftir það sem hefur gengið á og okkur langar til að fylgja þessum atburðum eftir til lengri tíma svo það verður langtímaverkefni,“ sagði Óskar að lokum.