Valhöll
Valhöll

Mannlíf

Margt af því sem mér þótti svo vænt um í bænum er horfið
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 18. ágúst 2024 kl. 05:49

Margt af því sem mér þótti svo vænt um í bænum er horfið

Fjöllistamaðurinn Pálmar frá Grindavík með verk á sýningunni Átthagamálverkið

Grindvíkingurinn Pálmar Örn Guðmundsson er ekki við eina fjölina felldur, það mætti halda því fram að hann sé fjöllistamaður en hann málar myndir, semur lög, kennir og dansar salsa og fæst líka við kvikmyndalistina svo það helsta sé nefnt. Hann segist fá mesta hrósið fyrir myndlistina en hann varð þess heiðurs aðnjótandi á dögunum að fá að taka þátt í myndlistarsýningu á Kjarvalsstöðum sem ber heitið Átthagamálverkið en sýningin samanstendur af 100 málverkum af stöðum víðs vegar af Íslandi. Auk þess verður hann með sýningu í Ráðhúsinu í Reykjavík á Menningarnótt.

Haft var samband við Pálmar vegna sýningarinnar og þó svo að hann uppfyllti ekki skilyrði um að vera málari af tuttugustu öldinni, gerðu þeir undantekningu og buðu honum að vera með, kannski ekki síst vegna athyglinnar sem Grindavík hefur hlotið að undanförnu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

„Þau höfðu ákveðna mynd eftir mig í huga en það var mynd sem ég málaði eftir pöntun Grindvíkingsins Hallgríms Hjálmarssonar árið 2022. Mér þykir mjög vænt um þetta málverk því ég ólst upp og lék mér á þessu svæði sem Hallgrímur vildi láta mig mála myndina eftir. Í dag er þetta svæði mikið breytt vegna jarðhræringanna, eyjarnar sem sjást eru líklega komnar undir vatn því landið seig mjög mikið þarna og vatnsstæðið því orðið miklu stærra. Eins eru komnir varnargarðar þarna nálægt svo breytingin er mjög mikil og minnstu munaði að þetta svæði færi undir hraun í síðasta eldgosi, varnargarðarnir skiluðu heldur betur sínu þá.

Það var kannski pínulítið skondið að ég á auðvitað ekki myndina lengur heldur Hallgrímur svo ég þurfti að sjálfsögðu að fá hans leyfi fyrir að málverkið mætti vera á sýningunni. Ég sendi á hann og loksins svaraði hann, ekkert mál að fá myndina lánaða svo ég sagði forsvarsfólki Listasafns Reykjavíkur að eigandinn hefði samþykkt og þau sögðust þá setja sig í samband við hann. Þegar sýningin var að bresta á og þau ekki búin að ná á Hallgrím, varð uppi fótur og fit en sem betur fer náði ég í Grétu systur hans og þá loksins komst hreyfing á málið og myndin skilaði sér á sýninguna. Ég mæli eindregið með þessari sýningu, þarna eru 100 verk frá hinum ýmsu stöðum á Íslandi og verður sýningin opin til 6. október 2024.

Ég er ekki með nákvæma tölu yfir fjölda þeirra mynda sem ég hef málað en gæti trúað að þau séu orðin u.þ.b. 100 og líklega er um helmingur myndanna frá Grindavík. Ég hef fengið nokkrar beiðnir um að mála ákveðna staði og reyni að sinna öllum þeim beiðnum sem mér berast. Ég er búinn að vera vinna í verki núna í eitt og hálft ár og viðurkenni fúslega að ég er orðinn pínu þreyttur á því og það verður gott að klára það.“

40 lög á 40 vikum

Pálmar hefur lengi spilað á gítar og sungið og kemur reglulega fram sem trúbador. Snemma var hann farinn að semja lög, átti til að mynda vinsælt jólalag á sínum tíma, Hvenær fáum við jólasnjóinn, og þegar hann varð fertugur fyrir fjórum árum, fékk hann þá brjálæðislegu hugmynd að taka upp lög eftir sig og gefa út 40 lög á 40 vikum.

„Ég fæ oft hugmyndir og reyni að vinna úr þeim og búa eitthvað til út frá þeim. Það má segja að þetta beri allt að sama brunni, sama hvað listgrein á í hlut, maður fær hugmynd og vinnur svo út frá henni. Þetta með að taka upp og gefa út 40 lög á 40 vikum var ein þessara hugmynda og ég er stoltur af því að hafa klárað verkefnið en viðurkenni að í lokin var ég feginn að þetta væri búið.  Þarna inn á milli eru að mínu mati hin fínustu lög. Ef þú spyrð mig í hvaða listgrein ég sé mest á heimavelli, á ég ekki svo auðvelt með að gera upp á milli. Ég fæ líklega mesta hrósið fyrir myndlistina en mér finnst afskaplega gaman að semja lög. Ég er nýbúinn að semja tvö lög, annað þeirra um Grindavík og þennan breytta veruleika okkar, hitt heitir Eitt staup og er svona partýlag, en ég hef fengið frábær viðbrögð við þeim. Lögin eru bæði á Spotify undir Pálmar. Ég er mikið að koma fram sem trúbador og það líður varla sú helgi að ég sé ekki bókaður í eitthvað gigg. Mér þykir ofboðslega gaman að skemmta fólki,“ segir Pálmar.

„Ég hugsaði með mér að ég þyrfti að beina hugsununum í jákvæðan farveg eftir erfiða tíma vegna Grindavíkur og þetta verkefni hefur hjálpað mér með það. Ég mun hafa nóg fyrir stafni en það er oft besta leiðin til að gleyma leiðindum, einfaldlega að sökkva sér í skemmtileg verkefni ...

Salsastöðin og unglingaþjálfun

Pálmar hefur lengi verið áhugamaður um dans og þá aðallega salsadans. Hann þykir góður danskennari og hafði verið að kenna hjá Salsa Iceland. Þegar ákveðið var að hætta með byrjendakennslu paradans sá Pálmar þar tækifæri.

„Ég hef lengi verið að kenna salsa og þá aðallega paradans, þegar Salsa Iceland ákvað að gera breytingar á sínum námskeiðum ákvað ég að taka við keflinu að einhverju leyti og stofna minn eigin dansskóla sem ég nefni Salsastöðin, viðbrögðin hafa verið frábær. Ég mun hefja kennslu í haust ásamt tveimur fyrrum samstarfskonum mínum hjá Salsa Iceland og ætla að vanda vel til verka. Heimasíðan salsastodin.com er komin í loftið en þar eru allar helstu upplýsingar um fyrstu námskeiðin. Kennslan mun fara fram í dansstúdíói í Mjóddinni. Ég hugsaði með mér að ég þyrfti að beina hugsununum í jákvæðan farveg eftir erfiða tíma vegna Grindavíkur og þetta verkefni hefur hjálpað mér með það. Ég mun hafa nóg fyrir stafni en það er oft besta leiðin til að gleyma leiðindum, einfaldlega að sökkva sér í skemmtileg verkefni. Síðastliðin átján ár hef ég verið að þjálfa börn í fótbolta í Grindavík, ég vil meina að það hjálpi í salsakennslunni, þar er maður að kenna hreyfingar m.a. svo þetta tengist allt. Því miður hefur starfið verið lagt niður en ég hitti krakkana í sumar, Grindavík tefldi fram liði á fótboltamótum t.d. í Vestmannaeyjum með sjötta flokk, það var skemmtilegt að hitta strákana. Mér hafa verið boðnar aðrar þjálfarastöður en fann svo að það yrði skrýtið og fannst erfitt að vera með lið á móti börnunum sem ég hef verið að þjálfa undanfarin ár. Hvað verður með unglingastarf íþróttanna í Grindavík verður bara að koma í ljós en mér finnst ekki ólíklegt að ég muni sækjast eftir þjálfarastarfi í haust. Það gefur mér mjög mikið að kenna krökkum fótbolta og eiga þátt í að búa til góða leikmenn. Margar stelpur í meistaraflokki Grindavíkur tóku fyrstu spörkin á æfingum hjá mér og eins eru nokkrir efnilegir strákar farnir að æfa með meistaraflokknum. Ég er auðvitað ekki að eigna mér allan heiðurinn en ég er lítið púsl í öllu púsluspilinu,“ segir Pálmar.

Skógrækt og sjónvarpsþáttagerð

Það má eflaust segja um Pálmar að hann hafi ekki alltaf bundið bagga sína sömu hnútum og samferðafólkið. Þegar sum börn áttu gæludýr þá átti Pálmar tré í potti, hann hefur lengi verið áhugamaður um skógrækt.

„Alveg frá því að ég man eftir mér hef ég haft áhuga á gróðri. Ég var að rækta vínvið þegar ég var yngri, beið alltaf eftir að það kæmu vínber og þessi áhugi hefur alltaf fylgt mér. Ég gekk í Skógræktarfélag Grindavíkur, var kominn í stjórn og er núverandi formaður en því miður þá hefur mikið af því sem við höfum gert að undanförnu horfið undir hraun, t.d. höfðum við nýtekið við Lions-lundinum og gróðursett þar talsvert af trjám en hann er allur horfinn. Árið 2022 kom svo ein hugmyndin, ég vildi mynda og fjalla um skóga á Íslandi. Árið 2023 ákvað ég að taka þetta föstum tökum og setja inn tvö myndbönd í mánuði. Ég hef náð að standa við það og er þetta allt saman aðgengilegt á Youtube-síðunni minni, Skógurinn. Ég hef lengi haft gaman af myndbandagerð og hef fiktað mig áfram eftir leiðbeiningum á netinu.“

Óvissa með Grindavík

Hvað varðar framtíðina þá er ég bara bjartsýnn. Ég er að gera spennandi hluti en hvort Grindavík verði hluti af því eða ekki kemur bara í ljós, stór hluti af mér vill ekkert annað en flytja strax til Grindavíkur en þegar ég leiði hugann að því þá er margt af því sem mér þótti svo vænt um í bænum horfið. Unglingaþjálfun hefur verið stór hluti af mér en búið er að leggja það starf niður í bili, mikið af þeim trjám sem ég var búinn að gróðursetja eru horfin undir hraun, mamma og pabbi eru flutt frá Grindavík og einnig hjálpaði ég æskuvini að flytja allt út úr sínu húsi sem var dæmt ónýtt og er ólíklegt að hann flytji til baka, svona gæti ég lengi haldið áfram. Þetta eru skrýtnir tímar en ég var svo heppinn að vera búinn að kynnast yndislegri konu, Ellen og gat flutt inn á hana í Hafnarfirði þegar hamfarirnar dundu yfir. Eðlilega finnst henni ekki mjög spennandi kostur að flytja til Grindavíkur núna svo við verðum bara að sjá til hvernig málin þróast. Ég er bjartsýnn fyrir framtíðinni,“ sagði Pálmar Örn að lokum.