Mannlíf

Kraftaverk  að hann lifði af
Sigurður Vignir ásamt foreldrum sínum, Ásdísi Elvu Sigurðardóttur og Guðmundi Þór Ármannssyni.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
föstudaginn 25. desember 2020 kl. 07:48

Kraftaverk að hann lifði af

Árið 2014 líður líklega seint úr minni Sigurðar Vignis og fjölskyldu en hann lenti í tveimur vinnuslysum þetta ár og aðeins með nokkurra mánaða millibili. Hið fyrra í byrjun apríl og hið seinna í byrjun nóvember. Víkurfréttir kíktu í spjall einn fallegan morgun í lok nóvember til að ræða við Sigurð Vigni um þetta örlagaríka ár. Þennan morgun var hann nýkominn heim úr skriflegu prófi hjá Flugakademíu Keilis en Sigurður býr í foreldrahúsum.

Public deli
Public deli

Sigurður Vignir Guðmundsson er fæddur rétt fyrir jólin árið 1992, skírður í höfuðið á afa sínum sem margir Keflvíkingar þekkja undir nafninu Siggi tíví. Sigurður Vignir er ósköp glaðlegur ungur maður og ber þess engin merki að hafa lent í erfiðum höfuðmeiðslum fyrir nokkrum árum eða fingurmeiðslum. Hann er frískur og hress og hefur náð sér að fullu, svo vel að læknarnir stóðu agndofa yfir því hversu fljótt drengurinn náði sér eftir fyrra slysið sem var lífshættulegt. Sigurður Vignir var farinn að æfa aftur körfubolta aðeins nokkrum mánuðum eftir fyrra slysið en eftir seinna slysið átti hann erfiðara með að æfa því tveir fingur flæktust í fiskskurðarvél þegar hann var að reyna fyrir sér í körfubolta hjá Þór á Akureyri um haustið.

Alltaf stundað íþróttir

Sigurður Vignir er alinn upp í kringum íþróttir og byrjaði að æfa fótbolta sex ára gamall hjá Keflavík. Honum gekk vel, fékk verðlaun fyrir rakningu og líkaði vel í boltanum. Þegar Sigurður var kominn í 7. bekk þá vildi þjálfarinn hans setja hann í aðra stöðu á vellinum en það líkaði stráknum ekki og ákvað að hætta að æfa fótbolta. Eldri systur hans æfðu körfubolta, þær Guðrún Harpa og sú elsta í systkinahópnum, María Anna.

„Ég var ekki sáttur við það að láta færa mig í aðra stöðu á vellinum og ákvað að hætta. Þá fór ég leika mér á hjólabretti og gerði það í nokkur ár. Ég spilaði samt nokkra leiki á sumrin í fótbolta en byrjaði að æfa körfubolta í 9. bekk þegar bekkjarfélagi minn spurði hvort ég vildi koma á æfingu hjá Keflavík. Ég fór og fannst gaman og ákvað að halda áfram í körfunni. Ég hafði verið í kringum körfuboltann í nokkur ár því báðar systur mínar æfðu körfu en elsta systir mín, María Anna, bæði æfði og þjálfaði yngri flokka hjá Keflavík. Ég fór oft með henni að horfa á en langaði samt ekkert að spila fyrr en þarna í 9. bekk. Eftir fyrstu æfinguna mína elskaði ég að æfa körfubolta, fannst það ótrúlega gaman. Ég endaði í meistaraflokki hjá Keflavík og komst í landsliðsúrtak. Daginn sem ég fékk bílprófið sautján ára keyrði ég á landsliðsæfingu inn í Grafarvog, alveg skíthræddur að keyra aleinn í Reykjavík en það tókst. Samkeppnin var hörð í körfunni og með árunum var erfiðara að komast í lið því mig vantaði hæðina. Það voru fleiri hærri og sterkari í liðinu en ég gafst ekki upp og þegar ég fékk beiðni frá þjálfara um að koma og spila með Breiðabliki í Kópavogi þá stökk ég á það. Þetta gerði ég um tíma en svo þreyttist ég á að keyra inn eftir á æfingu og vildi einnig fá fleiri tækifæri þar inni á vellinum og færði mig til Reynis í Sandgerði. Þar fékk ég að spila fullt og það var rosa skemmtilegur tími. Við vorum fleiri úr Keflavík sem þráðum að spila og þarna fengum við útrás. Þó að liðið væri ekki í úrvalsdeild þá var mjög gaman hjá okkur. Það var aðalatriðið. Á tímabili var körfubolti númer eitt og skólinn númer tvö en ég var á félagsfræðibraut í FS. Ég var alltaf í körfu, í öllum frítíma. Körfuboltinn var nánast fastur við lófann minn. Mér tókst að útskrifast sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja en ég segi tókst því það er allt mömmu að þakka sem hvatti mig áfram og sagði að ég myndi sjá eftir því að klára ekki stúdentinn,“ segir Sigurður Vignir og horfir sposkur á móður sína, Ásdísi Elvu Sigurðardóttur, sem blaðamaður bað um að vera viðstadda spjallið okkar til að fá hennar hlið og föðurins, Guðmundar Þórs Ármannssonar, á slysinu mikla þegar Sigurður Vignir vann hjá IGS í hlaðdeild. Hann man lítið sem ekkert sjálfur frá þessum degi eða eftir vikunni á sjúkrahúsinu.

Örlagaríkur dagur

Þau unnu öll þrjú sömu vaktdaga í Leifsstöð og voru því öll á vakt þennan örlagaríka dag þegar sonurinn slasaðist alvarlega. Ásdís Elva og Sigurður Vignir störfuðu bæði hjá IGS, hún á Saga biðstofunni en hann í hlaðdeild flugvéla, og Guðmundur Þór vann sem flugvirki hjá Icelandair.

„Nei, það er svo skrítið að ég man ekkert of vel atburðina frá hádegi þennan dag sem ég lendi í slysinu og næstu viku á eftir. Það er bara næstum tómt minnið en ég lenti í slysinu eftir kaffipásu klukkan fjögur um daginn. Ég man eitthvað slitrótt eftir því að ég var uppi í farangurslest á flugvél sem var nýlent en þá er oft frost og bleyta inni í lest. Ég er að ná í cargo-trébretti og er að draga það út með mér og ætla að stíga út á færibandið og hlýt að hafa dottið vegna hálkunnar. Ég datt aftur fyrir mig og skall beint niður á jörðina en man ekkert þegar þetta gerðist og þar til ég vakna næsta dag á sjúkrahúsi í Reykjavík. Þar situr mamma við rúmið mitt og hún segir mér þegar ég spyr hana hvað hafi gerst að ég hafi lent í vinnuslysi. Ég svona hálfbrosi til hennar og svo loka ég augunum aftur og steinsofna. Ég fékk svo að vita að ég hafði fengið þriðja stigs heilahristing, einnig heilablæðingu og mar á heilann.“

Kraftaverk að ekki fór verr

Sigurður Vignir var í raun ótrúlega heppinn hversu vel fór því hann hefði jú getað lamast eða orðið heilaskaddaður eftir slysið en strákurinn reif sig á fætur með góðra manna hjálp. Það skal tekið fram að engir hjálmar voru á höfði starfsmanna í hlaðdeild IGS á þessum tíma.

„Já, svona eftir á að hyggja er í rauninni kraftaverk að hann Siggi okkar skuli vera á lífi eftir svona alvarlega áverka en röð atburða þennan örlagaríka dag gerði það að verkum að hann lifði. Samstarfsfélagi hans hjá hlaðdeild IGS kom að honum þar sem hann lá en hann er björgunarsveitarmaður og vissi nákvæmlega hvernig átti að bregðast við. Hann setti Sigga strax í læsta hliðarlegu. Það var nú svo skrítið að sjúkrabíll var einnig staddur innan flugvallarsvæðisins þegar þetta gerðist en hann var að bíða eftir flugvél sem var að koma til lendingar með veikan farþega. Örlögin gripu svo sannarlega í taumana því það mátti ekki tæpara standa með Sigurð Vigni sem fór með þessum sama sjúkrabíl strax undir læknishendur á bráðadeild í Reykjavík. Annar sjúkrabíll kom stuttu seinna og var tilbúinn fyrir farþegann þegar flugvél hans lenti. Að sjúkrabíllinn skyldi vera staddur þarna og hvernig vinnufélagi hans brást við með því að setja hann strax í læsta hliðarlegu var lífsbjörg stráksins okkar,“ segir Ásdís Elva sem jafnframt er lærður Bowen-tæknir en sú meðferð kemur einnig við sögu í uppbyggingarferli Sigurðar Vignis.

Ég hef alltaf viljað hreyfa mig og það kom aldrei til greina að gefast upp. Ég hef alltaf haft jafnaðargeð og slysið breytti því ekki, ég er yfirleitt kátur.
Ef það er til æðri máttur þá vakti hann yfir mér þennan dag ...

Óhefðbundin meðhöndlun hafði einnig áhrif á bata

„Þetta og að mamma hans hafi meðhöndlað Sigga junior nokkrum sinnum á dag í Bowen á meðan hann lá á sjúkrahúsinu og eftir að hann kom heim, gerði gæfumuninn. Við vitum það,“ segir Guðmundur, faðir Sigurðar Vignis, og horfir á konuna sína.

„Já, já. Ég get alveg samþykkt það, ég gafst ekki upp á að meðhöndla strákinn okkar með Bowen og var endalaust að pota í hann til að virkja lækningamátt líkama hans. Fyrstu þrjá dagana kom hjúkrunarfræðingur inn með töflur í glas handa honum og ég spurði hvaða pillur þetta væru. Hún sagði að þetta væru verkjalyf til að minnka höfuðverkinn hans en ég vissi að hann væri ekki með neinn höfuðverk og gaf honum því ekki þessi lyf. Meðferðin sem hann fékk frá mér gerði það að verkum að engin þörf var á verkjalyfjum en ég vildi frekar gefa líkama hans tækifæri til að lækna sig sjálfur og það tókst með undraverðum árangri. Ég var alveg hissa að sjá virknina af Bowen-meðferð hjá honum svona illa slösuðum og læknarnir voru einnig alveg hissa á því hvað hann var fljótur að jafna sig,“ segir Ásdís og bætir við að þetta þurfi ekkert að koma fram í viðtalinu, hógværðin uppmáluð en blaðakonunni finnst þessi partur mjög áhugaverður og vill endilega láta þetta fylgja með. Hugsið ykkur ef hefðbundnar og óhefðbundnar lækningar sameinuðust í þágu sjúklinga.

Fjölskyldan stóð saman sem eitt

„Þetta var langt og strangt endurhæfingarferli með strákinn okkar og við erum mjög þakklát öllum þeim sem komu að því að hann náði sér að fullu. Við fengum stíft endurhæfingarprógramm frá spítalanum sem við fjölskyldan fórum eftir. Það voru allir með í endurhæfingarferlinu, systur hans og bróðir, amma Ella og afi Siggi og við foreldrarnir. Við vorum öll samtaka um að hann skyldi komast til heilsu á ný og það tókst. Siggi Viggi var hvattur til að hreyfa sig strax á sjúkrahúsinu, koma sér á lappir og í fyrstu gat hann ekki gengið nema með göngugrind. Þegar við komum heim eftir viku þá man ég að fyrsta gönguferðin hans úti voru aðeins nokkrir metrar en þá gat hann ekki meir. Hann var í heimaþjálfun á hverjum degi í nokkrar vikur. Þessi strákur sem var búinn að æfa stíft íþróttir í mörg ár fór alveg á núllið, hafði ekkert þrek fyrst eftir slysið. Það var allt farið en að hann skyldi hafa verið í svona góðu líkamlegu formi var stór þáttur í að hann náði sér svona fljótt,“ segir Guðmundur.

„Já við erum mjög þakklát öllum sem hjálpuðu honum að byggja sig upp, að gefast ekki upp. Ég er þannig sjálf, ég vil aldrei gefast upp og það vildi ég kenna stráknum okkar. Það er gott að eiga góða að og finna samheldnina þegar eitthvað svona alvarlegt kemur upp á í fjölskyldunni,“ segir Ásdís.

Þurfti að læra að ganga upp á nýtt

„Ég missti allt jafnvægi og þurfti eiginlega að læra að ganga upp á nýtt. Öll fjölskyldan sameinaðist með mér í þessu, það voru allir að hjálpa mér að verða heill aftur. Ég man vel eftir fyrsta göngutúrnum með pabba sem voru nokkrir metrar en ég hafði ekkert þrek í meira. Ég hafði heldur ekkert skammtímaminni fyrst eftir slysið en það er allt búið að jafna sig og líkaminn komst fljótt í gott form. Ég var vakinn á morgnana klukkan níu og látinn gera eitthvað öðru hvoru til klukkan tíu á kvöldin. Það var stíft prógramm hjá fjölskyldunni minni. Ég hef aldrei reykt og hafði ekki bragðað áfengi heldur á þessum tíma sem hafði einnig góð áhrif sögðu læknarnir, að ég náði mér fljótt. Ég er ekki enn farinn að drekka áfengi, hef smakkað eitthvað smá þrisvar en hef engan áhuga á því. Ég hef alltaf viljað hreyfa mig og það kom aldrei til greina að gefast upp. Ég hef alltaf haft jafnaðargeð og slysið breytti því ekki, ég er yfirleitt kátur. Ef það er til æðri máttur þá vakti hann yfir mér þennan dag í apríl 2014 segja foreldrar mínir en ég spái í raun ekkert í svoleiðis hluti. Ég var rosa glaður að geta byrjað að æfa aftur körfu en þarna um sumarið finnst mér ég vera búinn að ná mér. Ég var frá vinnu í tvo mánuði og fór svo aftur í hlaðdeild hjá IGS í 50% starf. Þá hafði körfuboltaþjálfari samband við mig og bauð mér að spila með Þór á Akureyri um haustið og ég ákvað að skreppa norður og skoða aðstæður,“ segir Sigurður Vignir.

Lendir í öðru slysi sama ár

„Ég hafði ekki góða tilfinningu fyrir þessu og leið ekki vel með að hann færi norður að spila körfu en hann var fullorðinn og réði sér sjálfur. Hann langaði að prófa þetta og fór,“ segir Ásdís og Sigurður Vignir bætir við: „Ég flyt norður, fæ íbúð og vinnu þar í fiski. Það var allt í lagi að vinna við fiskpökkun, aðalatriðið var að fá að spila körfubolta og prófa að búa fyrir norðan. Svo lenti ég í slysi þarna í fiskskurðarvél stuttu eftir að ég var fluttur norður og sker mig illa á vísifingri og löngutöng á vinstri hönd. Ég held ég hafi aldrei öskrað eins hátt og þarna þegar þetta gerðist því þetta var svo sárt en þetta gerði það að verkum að ég gat ekki spilað körfubolta í langan tíma. Þarna lokaðist á körfuboltaævintýrið á Akureyri. Ég átti í þessu allan veturinn og alveg þar til um vorið. Afleiðingarnar voru eiginlega verri af þessu slysi því ég var ekki í eins góðu líkamlegu formi og þegar ég lenti í fyrra slysinu. Ég var búinn að vera að byggja mig upp eftir fyrra slysið þegar þetta gerist. Ég fór eitthvað í sjúkraþjálfun með fingurna og svo kom þetta loksins. Í dag spila ég golf í Leirunni og finnst það skemmtilegt. Ég hef alltaf verið viðloðandi golfið en nú einbeiti ég mér bara að þeirri íþrótt og náði að landa þriðja sæti í meistaramótinu í sumar í fyrsta flokki,“ segir Sigurður Vignir alsæll og segist nú vera kominn þangað sem hann dreymdi um þegar hann var lítill strákur.

Er að læra flugmanninn hjá Keili í dag

„Ég er alveg sáttur við hvernig allt hefur þróast í lífi mínu því ég væri sjálfsagt ekki kominn í draumanámið nema af því að þetta gerðist allt. Mig langaði alltaf í flugmanninn sem er mjög dýrt nám og tryggingabæturnar sem ég fékk eftir slysið léttu undir með mér. Nú stunda ég bóklegt flugnám í Keili en þaðan útskrifast ég í janúar 2021. Þá á ég eftir að fara í flugtímana, er búinn að taka fimmtán flugtíma og fannst það ótrúlega gaman. Næsta skref er að fara alla leið og fer ég þá væntanlega til Florída eða eitthvað til útlanda að taka þá flugtíma sem ég á eftir, því það er ódýrara. Það verður næsta ævintýri mitt, að klára flugmanninn. Ég hef fulla trú á þessu framtíðarstarfi og er alveg spenntur fyrir því að starfa erlendis sem og hér heima. Þetta á allt eftir að koma í ljós,“ segir þessi geðþekki ungi maður að lokum. Það er aðdáunarvert að sjá hversu vel hann hefur staðist lífsins prófin sín hingað til og óskum við honum farsældar í framtíðinni.

Í Keflavíkurbúningnum í Íþróttahúsi Keflavíkur.

Guðrún Harpa önnur systir Sigurðar með honum á góðri stund.

Flugið heillar og kappinn stundar flugnám í Keili.