Mannlíf

Kom til Íslands 1987 í kreppu á Írlandi
Frá hægri eru Kristófer Snær(16), Jóhann, Rakel Jóhanna (20) Eva Mjöll (3), Tara Rós (25), Karen, Stefán Karl (29), Hugrún Alda (5). Á myndina vantar tengdasoninn Eyþór Guðjónsson.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 11. mars 2023 kl. 07:10

Kom til Íslands 1987 í kreppu á Írlandi

Karen Halldórsson ílengdist á Íslandi og segist líklega komna til að vera

„Ég hefði hugsanlega vilja flytja aftur til Írlands ef við værum bara tvö, ég og Jóhann en ég myndi ekki vilja ala börnin mín upp þar, það er margfalt öruggara að ala upp börn á Íslandi og frábært hér í Reykjanesbæ,“ segir Karen Halldórsson sem áður hét Karen Ward en breytti nafni sínu til siðs við það sem hún þekkir frá heimahögunum á Írlandi, tók upp eftirnafn mannsins síns en hún er gift Jóhanni Halldórssyni, vélstjóra.

Karen er fædd og uppalin í Dublin. „Ég er fædd árið 1968 í Dublin, bjó stutt frá miðbænum og þurfti alveg að hafa fyrir mínu, maður þurfti að geta varið sig má segja. Þegar ég labbaði til og frá skóla þá horfði ég stundum upp á sprautufíkla svo maður þurfti að passa sig. Pabbi var kolamaður, vann ekki í námunum en vann við uppskipun á kolum, ekki með há laun svo við þurftum að hafa fyrir okkar. Ég var unglingur þegar hljómsveitin U2 var að stíga sín fyrstu spor, þeir spiluðu mjög oft á bar sem er rétt hjá þar sem ég bjó. Það var auðvitað gaman að fylgjast með framgangi þessara sveitunga okkar og ég þekki t.d. allar stelpurnar sem léku í myndbandinu við lagið Gloria, það var tekið rétt hjá þar sem ég bjó. Magnús Þórisson, eigandi Réttarins þar sem ég starfa, var svo rausnarlegur að bjóða öllu starfsfólki og mökum til Dublinar um daginn og notaði ég tækifærið og fór með hópinn í göngu um æskuslóðirnar sem endaði á heimsókn til mömmu. Ég held ađ hópurinn hafi haft gaman af að sjá eitthvað annað en þessa helstu túristastaði og þeim fannst æðislegt að vera boðið í heimsókn til mömmu.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Til Íslands á nokkrum dögum

Karen ákvað að sækja um starf á Íslandi en það lengdist í heimsókninni. „Ég var að læra hárgreiðslu í Írlandi en það var skollin á kreppa árið 1987 og ég komst hvergi á samning, ég svaraði því auglýsingu frá Icejob þar sem óskað var eftir starfsfólki til Íslands. Ég sótti um á mánudegi, mætti í viðtal á fimmtudegi og var komin til Íslands á laugardegi. Ég vissi ekkert í hvernig vinnu ég myndi ráðast og hóf störf á lagernum hjá Hagkaupum í Skeifunni. Okkur var sköffuð gisting, ég gisti á gistiheimilinu Berg í Hafnarfirði og þar kynntist ég Jóhanni og við höfum verið gift síðan 1992. Hann er Njarðvíkingur, var í Vélskólanum og vann með skólanum á þessu gistiheimili. Eigum við ekki að segja að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn en við fluttum fljótlega til Njarðvíkur eins og bærinn hét þá. Ég réði mig í vinnu hjá Nesfiski og vann þar í tvö ár, vann svo hjá Nóa Síríus í Reykjavík en svo kynntist ég Magnúsi Þórissyni en hann var þá með Matarlyst. Ég vann hjá honum í níu ár en svo stofnuðum við Jóhann kránna Paddy´s árið 2003 og rákum staðinn í sjö ár, fluttum þá til Noregs. Jóhann fékk flotta vinnu, var hafnarstjóri hjá Konunglega norska siglingaklúbbnum, sá um höfnina sem rúmaði 700 báta. Við vorum í Noregi í átta ár en fluttum aftur í Reykjanesbæ fyrir sex árum og erum líklega komin til að vera. Ég fékk strax vinnu hjá á Réttinum og svo erum við líka að reka gistiheimili. Elstu börnin tvö eru flutt að heiman en þau yngri tvö eru ennþá hjá okkur, því er tilvalið að nýta herbergin í svona Airbnb, þetta hentar mér vel með vinnunni á Réttinum, sem er frá tíu á morgnana til tvö eftir hádegi,“ segir Karen.

Finnst gaman að syngja í karaoke

Karen á ýmis áhugamál. „Ég hef mjög gaman af gönguferðum og að ganga á fjöll er sérstaklega gaman, við reynum að gera mikið af því. Ég hef gaman af söng og tók lengi þátt í starfi Kvennakórs Suðurnesja. Annars er aðaláhugamálið í raun bara fjölskyldan og fylgjast með börnunum okkar og barnabörnum. Sonur okkar sem býr ennþá hjá okkur er t.d. á fullu í fótboltanum og stefnir hátt. Hann er sextán ára, byrjaður að spila með meistaraflokki Njarðvíkur og var á reynslu hjá liði úti í Noregi. Ætli við munum ekki fylgja honum út ef hann nær að láta þann draum sinn rætast en fyrst verður hann að taka út nauðsynlegan þroska. Strákar eru oft of ungir held ég þegar þeir reyna fyrir sér í atvinnumennskunni. Líf atvinnumannsins getur verið einmanalegt, spennandi í byrjun en svo tekur á að vera einn, þess vegna sé ég alveg fyrir mér að við munum flytjast erlendis ef hann fær tækifæri á atvinnumennsku.“

Margfalt öruggara í Reykjanesbæ

Karen segir mikinn mun á því að ala upp börn á Íslandi eða í Dublin. 

„Ég hefði hugsanlega vilja flytja aftur til Írlands ef við værum bara tvö, ég og Jóhann en ég myndi ekki vilja ala börnin mín upp þar. Það er margfalt öruggara að ala upp börn á Íslandi og frábært í Reykjanesbæ. Allt þetta frelsi, mikið íþróttaúrval og vel staðið að málum, sérstaklega upp að sextán ára aldri. Eftir það er kannski ekki eins mikið við að vera, næstelsta dóttir mín er meira í Reykjavík í dag en hér hjá okkur. En þegar börn eru ung er margfalt betra að ala þau upp á Íslandi en í Dublin t.d. Eins og ég sagði þurfti maður að geta staðið fyrir sínu á yngri árum og auðvitað eymdi af stjórnmálaástandinu milli Írlands og Bretlands en Írar vildu alltaf brjótast undan stjórn Breta. Þess vegna var IRA [Irish Republican army] stofnaður árið 1916. Bretar skiluðu Írum tuttugu og sex af þrjátíu og tveimur sýslum til baka en þessar sex sýslur heyra þá undir Norður Írland í dag sem er hluti af Stóra Bretlandi, Írland er sjálfstæð þjóð. Það vita ekki allir hvernig þessi mál eru, flestir vita af IRA en vita ekki ástæðu þess að samtökin voru stofnuð. Írland þótti gott land að búa í, nægur matur fyrir alla en breska ríkið tók í raun bara landið af okkur og svelti heila þjóð, þetta vita mjög fáir. Ég hvet alla til að kynna sér þessa sögu því hún er mjög fróðleg,“ sagði Karen að lokum.

Frá hægri eru Kristófer Snær (16), Jóhann, Rakel Jóhanna (20), Eva Mjöll (3), Tara Rós (25), Karen, Stefán Karl (29), Hugrún Alda (5). Á myndina vantar tengdasoninn Eyþór Guðjónsson

Karen og Jóhann í Dublin
Karen og Magnús Þórisson á Réttinum