ÆSA
ÆSA

Mannlíf

Hinn íslenski Presley
Beatniks í Kanasjónvarpinu 1962. Söngkonan er Guðrún Frederiksen, systir pianóleikarans. Myndin er tekin einu og hálfu ári áður en til var hljómsveit sem hét The Beatles – en samt er Þorsteinn komin í svokallaða bítlaskó.
Miðvikudagur 1. mars 2017 kl. 10:17

Hinn íslenski Presley

Söngvaskáld á Suðurnesjum - Þorsteinn Eggertsson

Hann er eitt afkastamesta textaskáld landsins, fyrrverandi rokkari og eitt sinn kallaður hinn íslenski Presley. Eftir hann liggja textar sem löngu eru orðnir þjóðareign og má þar nefna hina harðsnúnu Hönnu, Er ég kem heim í Búðardal, Slappaðu af og Gvend á Eyrinni svo aðeins örfáir séu taldir. Þegar aðrir textahöfundar voru að semja um sjómennsku og bændur samdi Þorsteinn um stelpur og fjör.

Þorsteinn er umfjöllunarefni næstu tónleika í tónleikaröðinni Söngvaskáld á Suðurnesjum þar sem rakinn er tónlistarferill hans og æskuslóðirnar í Garði og Keflavík. Við fengum smá innsýn í þetta spennandi tímabil í íslenskri tónlistarsögu yfir kaffibolla og karamelluköku einn eftirmiðdag þar sem Þorsteinn sagði okkur frá uppvaxtarárunum á Suðurnesjum, síldarævintýrum, rokkinu og rólinu og ekki var verra að heyra sögurnar á bak við suma textana.

Katrín Jakobsdóttir forsetafr
Katrín Jakobsdóttir forsetafr

„Ég er fæddur á Túngötu 10 í Keflavík 1942, nánar tiltekið inn í stofu á grænum dívani,” segir Þorsteinn glettinn en hann er sonur hjónanna Guðrúnar Jónsdóttur húsmóður og matráðskonu frá Garðshorni í Keflavík og Eggerts Jónssonar sjómanns og síðar pípulagningamanns frá Kothúsum í Garði en Þorsteinn ólst upp í Garðinum frá tveggja til fimmtán ára aldurs.

Laugarvatn og Ingimar Eydal

Þorsteinn tók barnaskólapróf í Garðinum en eftir það lá leiðin til Laugarvatns. Þar byrjaði Þorsteinn að syngja og semja texta en herbergisfélagi hans var strákur frá Akureyri, Ingimar Eydal að nafni, en hann var fjórum árum eldri en Þorsteinn. „Ingimar spilaði á orgel og ég söng og vorum við fljótlega farnir að koma fram saman á skemmtunum. Af því að ég kom frá Keflavík, hinum vegin við girðinguna, þótti jafnaldra mínum Maroni Vilhjálmssyni, bróður Vilhjálms söngvara, við hæfi að gefa mér amerískt nafn og var ég því kallaður Stone Edison af skólafélögunum.“

Tónlistaráhugann átti Þorsteinn sameiginlegan með móður sinni en þau sungu oft saman og voru þau náin. „Þegar ég var 12 ára man ég að við heyrðum í útvarpinu eitthvað sem líktist rokki og róli, það var fjörugt lag með Rosemary Clooney: Come on A my house. Lagið heillaði okkur og við héldum að söngkonan væri svört en kom þá í ljós að söngkonan var ljóshærð pía,“ segir Þorsteinn og hlær.
Tíminn á Laugarvatni var ógleymanlegur en í þá daga var ekkert fm útvarp, bara langbylgjan og þá heyrðist ekki alltaf hvað var verið að syngja. Sumir voru óskýrmæltir eins og Elvis og Little Richard og þá fór Þorsteinn að semja eigin texta. „Menn voru að syngja þetta á afbakaðri ensku af því að þeir heyrðu ekki textana of vel en þeir fluttu þá eins og páfagaukar svo útkoman var oft skrautleg.“

Eftir skólavistina á Laugarvatni flutti Þorsteinn til Keflavíkur og fór þar að syngja í Ungó með HJ kvartettinum en þar voru ávallt álíka margir söngvarar og hljóðfæraleikarar. Einar Júlíusson hafði þá sungið þar í nokkur ár og annar strákur, nýfluttur frá Akureyri, Engilbert Jensen.
„Keflavík var merkilegur bær þótt hann væri ekki fjölmennur og þar var strax mikil músík. Ásbergsfjölskyldan rak skemmtistaðinn Bíókjallarann undir Nýja bíói, þá var Krossinn í Njarðvík og oft voru haldnar skemmtanir á loftinu á Aðalstöðinni. Þá opnaði klár ungur maður, Magnús Björnsson, skemmtistað á horni Hafnargötu og Faxabrautar sem nefndist Víkin þar sem hljómsveitir léku en þar var til að mynda fyrsta diskótekið á Norðurlöndunum.“

Syngur með vinsælustu hljómsveit landsins

Þorsteinn tók þátt í samkeppni KK sextettsins sem var vinsælasta hljómsveit landsins á þeim tíma. „Ellý Vilhjálms hafði verið að syngja með þeim en nú átti að skipta út fyrir Óðin Valdimarsson frá Akureyri. Auglýst var eftir fólki og voru 10 söngvarar valdir út til þess að syngja á hljómleikum víðsvegar en þar voru fagnaðarlætin mæld - sá sem fékk mesta klappið og öskrin fékk starfið og það var ég,“ segir Þorsteinn en þá var hann 18 ára en hljómsveitin var sú vinsælasta á Íslandi á þeim tíma.

Þorsteinn söng með hljómsveitinni í hálft ár en tók þá við söngnum af Einari Júlíussyni í hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar sem lék á Siglufirði þegar nóg var að gera í síldinni. „Þar var spilað þrjú til fimm kvöld á viku í Sjálfstæðishúsinu. Það vor var svolítið spilað eftir veðri, það var spilað á hverju kvöldi á landlegum en ef það var mikið sólskin var sleppt úr kvöldi og kvöldi.“ 
Hljómsveitin bjó fyrir ofan samkomustaðinn og það var oft hvítvín í morgunmat, að sögn Þorsteins enda stutt að fara í ríkið.
„Á þessum tíma voru menn að spila það sem var vinsælt en menn voru lítið að semja sjálfir, að undanskildum þekktum tónskáldum eins og Sigfúsi Halldórssyni en litla flugan hans gekk í heilt ár. Á dansleikjum tíðkaðist það að syngja á ensku en það þótti ekki við hæfi að syngja á ensku inn á hljómplötur, aukinheldur fóru menn ekki alltaf rétt með texta ef hann var á ensku. Texti á hljómplötum varð að vera á íslensku og þá fóru allir að semja um sveitina og sjóinn.“ Þegar Þorsteinn fór að semja fannst honum nóg komið af því - svo hann sleppti því alveg.

Hljómsveitin Beatnik stofnuð

Árið 1961 stofnaði Þorsteinn hljómsveitina Beatnik en honum þótti á þeim tíma rokkmúsíkin svo leiðinleg, ekkert nema amerísk væmin lög og sætir strákar. „Við spiluðum aðallega eldgamalt svertingjarokk og þoldum ekki High school rock og Cliff Richard. Sveitin lék aðallega uppi á lofti í Víkinni og vann sér það meðal annars til frægðar að koma tvívegis fram í Kanasjónvarpinu. Þar lékum við lögin á ensku en ég kynnti þau á íslensku því ég vissi að það væru aðallega Íslendingar að horfa“, segir Þorsteinn og hlær.

Þorsteinn fór utan til Kaupmannahafnar þar sem hann lærði myndlist í tvö ár. Þar hitti hann góðkunningja sinn, Hauk Morthens, sem hafði áður skrifað svo fallega um Þorstein og kallað hann hinn íslenska Elvis Presley. Haukur kom honum í samband við færeyskan umboðsmann sem útvegaði Þorsteini starf við að syngja. „Við spiluðum víða um Danmörku og þar á meðal á Hróarskeldu hátíðinni. Hún var ekki eins stór þá og seinna varð, enda ekki orðin að alþjóðlegri rokkhátíð fyrr en nokkrum árum seinna,“ segir Þorsteinn sem kannski var fyrstur Íslendinga til að koma fram á þeirri þekktu hátíð, svona í árdaga hennar í það minnsta.

Gvendur á Eyrinni slær í gegn

Þegar Þorsteinn kom heim frá námi var Bítlaæðið skollið á hér á landi. Hann fór að vinna á auglýsingastofu í Reykjavík og þar varð til hljómsveitin Dátar. „Ég hafði gert tvo texta fyrir Þóri Baldursson og hann bað mig að semja texta fyrir Savana tríóið, Ást í meinum var því fyrsti textinn eftir mig sem kom út á hljómplötu. Svo gerði ég nokkra texta fyrir Dáta en það var bara einn sem var notaður, hinir þóttu of mikið bull og var Ólafur Gaukur fenginn til að semja hina textana. Þegar Dátar gerðu aðra plötu samdi Rúnar Gunnarsson söngvari og gítarleikari öll lögin og ég gerði textana, þar stóð upp úr Gvendur á eyrinni sem varð mjög vinsælt - svo vinsælt að Hljómar voru farnir að skjálfa,“ segir Þorsteinn glettinn.

Dátar léku um allt land og Þorsteinn var sveitinni innan handar, ef þeir skyldu fara að semja músík. „Þá datt Þráni umboðsmanni í hug að kaupa alls konar kúlupenna og pappír og var ég fenginn til þess að skrifa bréf í óskalagaþættina í útvarpinu og biðja um lagið Gvendur á eyrinni. Við vorum þannig svolítið að svindla og ég skrifaði bréf sem sett voru í póst á Blönduósi, Sauðárkróki og svo framvegis. Allir þessir bréfritarar báðu að sjálfsögu um sama lagið.
Textagerðinni fór fram hjá Þorsteini en hann lagði áherslu á að það væri auðvelt að syngja textana. Þá hjálpaði það, að mati Þorsteins, að textarnir voru ekki um sjómenn og bændur - heldur mikið um stelpur og daglegt líf.

Hirðskáld Hljóma

„Þegar ég var búinn að semja á tvær plötur fyrir dáta fannst Gunnari Þórðarsyni ófært annað en að ég færi að semja fyrir Hljóma líka. Það gekk í mörg ár og varð ég nokkurs konar hirðskáld.“
Þorsteinn þekkti vel Gunnar og Rúnar Júlíusson en þeir Rúnar voru báðir úr gamla bænum. „Þegar ég spilaði með Beatniks lékum við á „restrasjónum“ á sunnudagseftirmiðdögum sem voru nokkurs konar miðdegisböll þar sem boðið var upp á kaffi og gos. Aldurstakmark var 16 ár en þar voru oft yngri krakkar að hlusta á tónlist. Þeir komu oft þangað Gunnar og Rúnar og Gunnar fór oft að tala við mig þótt hann væri hægur og svolítið feiminn, en hann var samt töffari. Rúnar talaði minna, hann var svo feiminn á þessum tíma.“
Þorsteinn segir að þótt kanaútvarpið hafi haft mikil áhrif þá hafi ávallt verið mikil tónlist á Suðurnesjum. „Það var öflugt félagslíf í bænum og þar voru sýndar revíur og sketsar og sungið á milli í Verkó og Ungó. Þarna voru Baldur Júlíusson pabbi Þóris og strákur sem ólst upp við Norðfjörðsgötuna og varð seinna þekkt tónskáld, Emil Thoroddsen sonur Þórðar Thoroddsen læknis. Það var ekkert sjónvarp og allar kvikmyndir ótextaðar og fólk var lítið að læra tungumál nema krakkar. Þess vegna komu til revíurnar þar sem verið var að atast út í stjórnmálamenn og þekkt fólk en marga textana átti Kristinn Pétursson eða Kristinn Reyr frá Grindavík.”

En hvernig urðu textarnir til?
„Svavar Gestsson, sem var einráður í plötuútgáfu, var strangur og vildi hafa útgefna texta á íslensku. Hann var meira að segja strangur á textana, þeir áttu að hafa stuðla, höfuðstafi og endarím í takt við íslenska bragfræði. Maður þurfti að hafa það á hreinu og þótt ég hafi ekki gert það í Leyndarmáli, fyrsta textanum fyrir Dáta, þá var ég farinn að nota þetta í Gvendi á eyrinni og áfram þar til ég gerði textann við Slappaðu af en hann þurfti ég að gera hratt. Ég bað þá Jónas R. Jónsson í Flowers að skaffa mér viskíflösku til að geta gert þetta á stuttum tíma. Þegar ég var kominn niður í flöskuna var ég búinn að sleppa bragfræðinni - og fór ég að þróa minn eigin stíl upp frá því.“
Textarnir urðu yfir 400 talsins sem gefnir voru út og samdi Þorsteinn fyrir fjölda tónlistarmanna og hljómsveitir. Má þar nefna Trúbrot, Brimkló, Lúdó og Stefán, Hauka og fleiri.
Flestir kannast við lagið Þrjú tonn af sandi sem Haukar fluttu svo eftirminnilega en textinn er það sem Þorsteinn kallar hljóðlíkingu. Enda erfitt að skilja hvert þessi þrjú tonn af sandi eiga að fara, og hver þessi Andrés sé sem vill heilan skóg af mótatimbri?
„Stundum gerði ég texta sem kallaðir eru hljóðlíkingar eins og í Þrjú tonn af sandi. Mér fannst það skrítið þegar ég var strákur í sveit þegar menn voru farnir að súpa og syngja á hestamannamótum, grafalvarlegir og fóru vitlaust með textann, þeir höfðu þá lært hann svona og sungu gömlu ættjarðarlögin vitlaust, enda höfðu þeir aldrei lært þau rétt. Til dæmis Hamraborgin mín há og þögul, í staðin fyrir Hamraborgin rís há og fögur. Mér fannst skemmtilegt að búa til vitleysu og leyfa fólki að syngja vitlaust og taka sig ekki of alvarlega,“ segir Þorsteinn en þess má geta að Þorsteinn reyndi upphaflega að gera vandaðan texta við lag Presley Return to sender sem hét „Sendist til baka“. Hann var ekki hrifinn af textanum en sendi þá á Hauka. Hann féll ekki í kramið og þá sagði Þorsteinn: „Ég á annan sem mér finnst skemmtilegri“, hann sendi hann á þá og þeir gleyptu að sögn Þorsteins við honum.

Er ég kem heim í Búðardal samið á leið í bíó

Oft var djúpt á textunum og segir Þorsteinn að hann hafi þurft að hafa pressu til þess að klára þá. Gott dæmi um það er textinn við lag Gunnars Þórðarsonar Er ég kem heim í Búðardal. „Ég var að fara í bíó þegar Gunnar hringir í mig. Hann var þá hjá Rúnari á Skólaveginum og spurði hvort ég væri ekki búinn að gera textann. Ég var ekki byrjaður á honum og Gunnar segir: „Þú verður að gera þetta núna, við erum búnir að bíða í margar vikur og við erum að fara að taka lagið upp. Ég þekkti lagið og var oft búinn að hlusta á það á segulbandi og raula það, það var bara spurning um að fá hugmynd. Ég hafði verið í sveit fyrir vestan þar sem sér yfir til Búðardals og ég bjó mér til svolítinn dagdraum, fullt af stelpum að bíða eftir mér. Ég handskrifaði textann áður en ég fór í bíó og kom við á Skólaveginum á leiðinni og rétti Mæju. Svo kemur í ljós þegar platan kemur í dreifingu að það gleymdist að setja þverstrik í t-ið í heitinni og Ingibert söng þá heillinni og þannig hefur það verð síðan.“

Þorsteinn á textann við eitt af þeim lögum sem þekktust eru í flutningi Rúnars Júlíussonar í seinni tíð, en upphaflega lagið er kántríslagari. Textinn er í raun lýsandi fyrir skrif Þorsteins sem segist sjálfur alltaf líta á björtu hliðarnar:

„Ef leiðist þér að hlust' á nöldur um fátækt og púl,
má alltaf graf' upp lukkusöngva sungna af Rúnari Júl.
Og ef þú vilt fá skammt af ánægju, gleði og hamingjuvon,
þá ættirðu að hlust' á texta eftir hann Þorstein Eggertsson.“

Þorsteinn segist ekki sjá eftir neinum textum. „Nei sem betur fer ekki, þá eru þeir svo lélegir að þeir bara gleymast. Eitt árið þurfti ég að semja 70 texta og þá þarf maður alltaf að vera að koma með nýjar og nýjar hugmyndir, ef maður er að endurtaka sig lætur maður lítið á því bera.“
Tónleikarnir um Þorstein verða haldnir í Hljómahöll 2. mars klukkan 20:00.

Þessa mynd tók Jón bróðir Þorsteins af honum þegar þeir voru  nýfluttir aftur til Keflavíkur árið 1959. Myndin er tekin í nýja húsinu áður en mublurnar komu.

Þorsteinn ásamt Hljómum við Penny Lane í Liverpool fyrir nokkrum árum.

Dátar á Austfjörðum 1966 eða 1967 (líklega á Fáskrúðsfirði). Krakkarnir vildu endilega fá mynd af sér með hljómsveitinni. Þorsteinn sést í aftari glugganum en upp við gluggann fyrir aftan krakkana er Rúnar Gunnarsson söngvari.

Túngata 10, Þorsteinn fæddist í betri stofunni – inn af fremri glugganum sem snýr út að götunni.