Rétturinn
Rétturinn

Mannlíf

Grillað fyrir framlínuna
Föstudagur 22. maí 2020 kl. 11:29

Grillað fyrir framlínuna

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur mætti í portið hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og grillaði hamborgara í vorblíðunni fyrir starfsfólk stofnunarinnar sem og lögreglunnar á Suðurnesjum og Brunavarna Suðurnesja. Um var að ræða þakklætisvott fyrir frammistöðu framlínufólks í COVID-faraldrinum.

„Við í körfuknattleiksdeild Keflavíkur erum afar þakklát í dag. Þakklát fyrir allan þann stuðning og meðbyr sem við höfum fundið fyrir undanfarið og sérstaklega eftir að við fórum af stað með Karolina Fund-verkefnið okkar. Þvílíkar móttökur sem við fengum þar. Til að sýna okkar þakklæti ákváðum við að nýta hamborgarana sem átti að grilla í úrslitakeppninni í að bjóða okkar framlínufólki, eða starfsfólki HSS, Brunavarna Suðurnesja og lögregluembættis Suðurnesja, að koma í portið við sjúkrahúsið okkar og gæða sér á gourmet-borgurum, frönskum og gosi.

Okkur fannst það mjög viðeigandi að fólkið sem hefur staðið vaktina á þessum erfiðu tímum fyrir alla bæjarbúa Keflavíkur njóti góðs af því að við gátum loksins gefið til baka. Ég veit að þið kæru stuðningsmenn eruð okkur hjartanlega sammála,“ segir í pistli frá körfuknattleiksdeildinni á fésbókinni.
Á fésbók Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er skrifað: „Starfsfólk HSS þakkar innilega fyrir bragðgóða borgara, og ekki síður fyrir stuðninginn í samfélaginu hér Suður með sjó.“

Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi í grillveislunni. Fleiri myndir má sjá í Víkurfréttum í þessari viku. Með því að smella hér má nálgast umfjöllun blaðsins.

Grillað fyrir framlínuna