bygg 1170
bygg 1170

Mannlíf

Góðar minningar tengdar útiveru
Töfraborg heitir útisvæði leikskólans. Myndin var tekin á vinnudegi foreldra, barna og starfsfólks.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
þriðjudaginn 5. maí 2020 kl. 07:16

Góðar minningar tengdar útiveru

Töfraborg er útisvæði leikskólans í Garði

Margir af eldri kynslóðinni eiga æskuminningar tengdar útivist, óskipulagðri og sjálfsprottinni þar sem farið var út að leika í götunni eða í móanum. Þá fundu krakkar upp á að fara í brennó, kíló, feluleik og miklu fleiri leiki úti undir berum himni en þá voru jafnvel engar skipulagðar íþróttaæfingar heldur þurftu börn að skemmta sér sjálf utandyra. Það kom fyrir að mæður ráku börn sín út að leika vetur, sumar, vor og haust. Það skipti engu máli hvernig viðraði, ef það var vont veður þá myndi rokið herða krakkaskottin og gefa þeim rauðar kinnar. Ekkert væl.

Leikskólinn Gefnarborg í Garði bauð upp á námskeið fyrir foreldra eftir áramót, þar sem útivist barna var til umfjöllunar. Fyrirlesari á námskeiðinu var Pálína Ósk Hraundal, annar höfundur Útilífsbókar fjölskyldunnar. Á námskeiðinu var lögð áhersla á fræðslu um kosti útiveru og kynntar aðferðir sem veita fjölskyldum aukinn innblástur og hugmyndir að útivist.

Víkurfréttir fengu boð um að koma og hlusta á Pálínu fræða foreldra, erindið var mjög fróðlegt og ekki annað að heyra en að foreldrar væru áhugasamir og hrifnir.

– Áttu þér uppáhaldsstað í náttúrunni?

„Æskuminningar foreldra eru oft tengdar útiveru, þegar þau voru sjálf að leika í snú snú eða brennó en nútímabörn eru meira í skipulagðri hreyfingu hjá íþróttafélagi. Eigið’i uppáhaldsstaði í nærumhverfi ykkar? Hvenær fórstu þangað síðast?,“ spyr Pálína foreldra sem mættir eru á fundinn og svara; Móinn í kringum Garðinn eða fjaran á Garðskaga.

„Í dag þegar tölvan tekur meir og meir af frjálsum leiktíma barna þá þurfa foreldrar að bregðast við. Áður fundu börn sjálf upp á leikjum, bæði úti og innandyra. Foreldrar ráku jafnvel börnin út að leika. Börn eru svo hugmyndarík og þurfa ekki mikið til að dunda sér við utandyra. Vatnspollur eða að drullumalla heldur börnum hugföngnum lengi. Það eru helst foreldrarnir sem vilja ekki að þau skíti sig út en þá er að klæða þau rétt. Veðrið er engin hindrun heldur fatnaðurinn. Útivist hjálpar börnum að vera hraust og útisundlaugar eru flottir útivistarstaðir,“ segir Pálína Ósk sem brennur greinilega fyrir málefninu.

– Förum út saman eftir leikskóla

„Foreldrar þekkja vel svokallaðan úlfatíma barna, þegar þau koma heim af leikskólanum og eru dauðþreytt og vælin. Þá er mjög sniðugt að fara með þeim út að leika til að hressa þau við, þó ekki væri nema í fimmtán mínútur, í staðinn fyrir að vera með þeim inni. Útivistin hressir ekki aðeins börnin heldur einnig foreldrana sem koma einnig þreyttir heim úr vinnu. Ef það er erfitt heima fyrir þá getur verið léttara að fara út með barnið í útiloftið,“ segir Pálína.

Manni dettur í hug að líklega eru margir foreldrar í dag sem láta barnið fá spjaldtölvu þegar þau eru þreytt eða stilla þeim fyrir framan sjónvarp, í stað þess að leyfa þeim að detta inn í leik með leikföngum sínum? En börn eru snillingar í núvitund, gleyma stað og stund, þegar leikur er annars vegar. 

– Verum miklu meira úti

„Ég hef verið búsett í Noregi undanfarin tólf ár, við eigum þrjú börn en þar var elsta dóttir mín á útileikskóla, sem þýddi það að hún var úti í sjö og hálfan tíma á dag. Hún varð aldrei lasin en sonur minn sem er á innileikskóla í dag er alltaf lasin. Útiloftið styrkir börnin okkar. Það er svo margt hægt að gera úti, börn eru fljót að finna upp á einhverju. Aðalatriðið er að við, fullorðna fólkið, séum jákvæðar fyrirmyndir og hvetjum börnin okkar áfram. Við þurfum sjálf að hafa jákvæðan vinkil gagnvart veðrinu. Ekki dæma veðrið fyrir framan börnin því þeim er sama ef þau eru klædd eftir veðri og halda á sér hita. Ullin er besta flíkin þegar kalt er úti. Verum dugleg að hafa jákvæð orð um veðrið eins og til dæmis; Sólin þurfti frí í dag, það er rok úti og þá getum við fundið okkur skjól. Það er hollt fyrir börn að leika sér úti, jafnvel að leika sér í mold og að drullumalla. Þó að þau setji stundum upp í sig mold þá er það ekki hættulegt því í leiðinni eru þau að auðga magaflóruna. Að börn vilji fara út að leika sér er eitthvað sem við þurfum að styðja. Við fjölskyldan höfum haldið upp á afmæli barna okkar utandyra, í alls konar veðri. Þá höfum við kveikt varðeld og brennt snúrubrauð og hitað kakó. Þetta eru líka skemmtileg afmæli,“ segir Pálína.

– Útivist um helgar

„Um helgar er gaman að skipuleggja fjallgöngu með börnunum eða einhverja ferð út í buskann með þeim, gönguferð frá heimilinu eða annað sem ykkur dettur í hug. Náttúran verður aldrei uppiskroppa og gefur okkur óþrjótandi möguleika. Okkur leiðist aldrei úti ef við erum rétt klædd. Gefa sér tíma í útivistinni, ekki að flýta sér heim. Sumum finnst gott að hafa nesti með og heitt kakó á brúsa á veturna. Gefum fjölskyldunni góða upplifun utandyra og látum ráðast hversu lengi er gengið og hvar er staldrað við á leiðinni. Svona erum við að skapa góðar minningar. Tjaldútilega á sumrin og gönguferðir að vetri. Nota náttúruna í kringum ykkur. Þetta þarf ekki að vera flókið. Foreldrar eru fyrirmyndir og ráða því hvernig þeir móta börnin sín, sem eru svo tilbúin að læra. Fullorðnir verða að muna það. Ef ykkur langar að prófa eitthvað öðruvísi utandyra, þá eru til bækur á íslensku um þetta efni og einnig erlendar. Svo er gaman að spyrja börnin hvað þau vilja sjálf gera, leyfa þeim að undirbúa með ykkur. Erfiðasti áfanginn er að fara yfir þröskuldinn heima. Hættum að nota endalausar afsakanir og förum út að leika,“ segir Pálína Ósk Hraundal.

Ingibjörg Jónsdóttir, leikskólastjóri:

Bíðum spennt eftir að nota Töfraborg, útisvæðið okkar!

„Útivist barna er okkur svo mikið hjartans mál hér í Gefnarborg. Þetta námskeið núna með foreldrum var hugsað sem framhald af námskeiði sem Pálína, ásamt samstarfsfélaga sínum, henni Önnu Lind Björnsdóttur, héldu fyrir starfsfólk Gefnarborgar í september síðastliðnum. En saman erum við, börnin, starfsfólkið og foreldrarnir, að byggja upp og efla Töfraborg sem er útisvæði leikskólans, þar sem áhersla er lögð á að viðhalda stórum hluta lóðarinnar sem ósnortinni náttúru. Vegna stækkunar leikskólans fyrir ári síðan hafa börnin í Gefnarborg ekki getað notað nema lítinn hluta af leikskólalóð sinni í allan vetur, sem þó stóð til að yrði tilbúin við upphaf nýs skólaárs í september síðastliðnum en bæjaryfirvöld ætluðu að sjá um það. Þykir okkur þetta mjög leitt því börnin hafa ekki geta nýtt sér allt það sem foreldrarnir, börnin og starfsfólkið lagði á sig að vinna saman síðastliðið sumar við að smíða útieldhús, kofa, kraftbraut og fleira úr verðlausum efnivið. Við bíðum spennt eftir að fá lóðina lagfærða sem allra fyrst. Það var virkilega gaman að fá þetta góða erindi núna með foreldrunum og gefur okkur byr undir báða vængi um nauðsyn þess að vera meira úti að leika.“

Ásta Guðný Ragnarsdóttir og Valdimar Oddur Jensson:

Gaman að vera úti

„Þetta var mjög fræðandi og sniðugar hugmyndir sem Pálína gaf okkur um útivist. Það þarf ekki að taka mikinn tíma að fara út til dæmis eftir leikskóla yngsta barnsins þegar allir eru þreyttir. Mér datt í hug að það væri hægt að taka nesti með út,“ segir Ásta Guðný.

„Útivist á veturna og á sumrin eru eins og svart og hvítt á Íslandi. Við eigum þrjú börn á aldrinum þriggja, ellefu og þrettán ára og erum dugleg að fara út með þau. Það eru margir leikvellir í Garðinum og nágrenni. Fyrir aftan húsið okkar er mói og þar hafa börnin okkar oft leikið sér. Þau hafa dundað sér í móanum með skóflur og fleira. Um daginn voru þau öll þrjú úti í garðinum okkar að búa til snjóhús,“ segir Valdimar Oddur.

„Þau hafa alltaf nýtt móann sjálf. Við höfum líka farið út með þeim og það hefur verið gaman að uppgötva hvað það er gaman að labba í móanum í snjó því það er meiri áskorun þegar þú sekkur ofan í snjóinn á milli þúfna. Með aldrinum breytast leikirnir hjá þeim og leikföngin en náttúran fer aldrei úr gildi. Þar geta þau alltaf fundið sér eitthvað að gera. Útivera er stór partur af lífi okkar með krökkunum,“ segir Ásta Guðný.

„Á veturna höfum við aðgang að hestunum hans pabba á Mánagrund. Allir krakkarnir okkar hafa gaman af því að koma inn í hesthús, hvort sem þau eru að kemba hestunum, hoppa í heyinu eða fara á bak. Okkur leiðist aldrei þegar við erum úti saman. Það er bæði hollt og svo þurfa krakkarnir að hugsa stundum og ákveða hvað þau vilja gera úti,“ segir Valdimar Oddur.