Mannlíf

Frístundin: Hvatvísi kemur manni langt
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
laugardaginn 13. ágúst 2022 kl. 11:00

Frístundin: Hvatvísi kemur manni langt

Elva Rún Ævarsdóttir

Nafn: Elva Rún Ævarsdóttir.
Aldur: 24 ára.
Búseta: Búsett með maka og hundinum sínum í Njarðvík.
Starf: Vinnur hjá Airport Associates sem umsjónarmaður í farþegaþjónustu.
Frístundir: Stundar líkamsrækt, elskar að fara út að labba með hundinn sinn og hekla töskur og veski.
Elva Rún byrjaði að hekla í júní en það hefur heldur betur undið upp á sig og nú er hún að selja töskur sem hún heklar sjálf.

Elva lærði að hekla eftir að hún sá tösku sem veitti henni innblástur. „Ég sá mynd af tösku á netinu sem heillaði mig og velti fyrir mér hvort ég gæti gert auðveldari útgáfu af henni – þar sem ég kunni engan veginn að hekla. Ég stekk út í búð að kaupa garn í dálítilli hvatvísi og kem auga á þykkt garn sem mér leist vel á,“ segir Elva. Aðspurð hvernig hún fór frá því að kunna ekki að hekla í að selja töskur á rúmum mánuði segir hún: „Ég reyndi að fylgja leiðbeiningum sem ég fann en fannst þær bara óskiljanlegar fyrir byrjanda eins og mig. Ég reyndi ýmislegt og prófaði mig endalaust áfram með þó nokkrum mistökum. Þar til ég fór að verða ánægð og fyrsta heklaða taskan mín leit dagsins ljós.“

Hefur aldrei haft neinn sérstakan áhuga á handavinnu

Elva segir handavinnu eins og þessa vera róandi í amstri dagsins og það vera gefandi og gaman að sjá afraksturinn. Elva hefur komið sjálfri sér og sínum nánustu á óvart með þessu nýja áhugamáli sínu. „Ég hef aldrei haft neinn sérstakan áhuga á handavinnu sem slíkri. Ótrúlegt en satt fór ég ekki eftir uppskriftum heldur vann mig áfram eftir myndum og getu. Ég er enn þá að prófa mig áfram og læra ýmsar aðferðir og er spennt að sjá hvernig þetta þróast hjá mér. Það tók mig smá tíma að læra þetta almennilega þar sem ég á það til að vera alls ekki sú færasta í höndunum, eins og mitt nánasta fólk veit.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Töskur frá @byelvadesign
Aldrei að vita hvað framtíðin ber með sér

Elva byrjaði að deila myndum og myndböndum af veskjum og töskum sem hún hafði heklað á netinu. Hún segir fólk hafa sýnt mikinn áhuga á því sem hún var að föndra og því stofnaði hún reikninginn @byelvadesign. „Ég ákvað því að búa til Instagram-síðu til þess að leyfa fólki að fylgjast með og jafn vel panta ef áhugi væri fyrir því,“ segir Elva. Hún segir það hafa komið henni á óvart að fólk hafi áhuga á þessu „litla áhugamáli“ sínu. „Ég er svo þakklát fyrir þá sem hafa áhuga á að senda inn pöntun. Ég er líka hrikalega heppin með fólkið í kringum mig sem hefur hvatt mig áfram.“ Aðspurð hvort hún vilji gera eitthvað við þetta áhugamál í framtíðinni segir hún: „Ég hef hugsað að ef þetta mun ganga vel og ef eftirspurnin mun vera til staðar að ég sjái fyrir mér að halda áfram og gera eitthvað meira. Það er aldrei að vita hvað framtíðin ber með sér.“

Veski frá @byelvadesign