Max Norhern Light
Max Norhern Light

Mannlíf

Fólk syngur sig í hamingjugírinn
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 24. nóvember 2019 kl. 08:17

Fólk syngur sig í hamingjugírinn

Söngfélagið Uppsigling er hópur karla og kvenna, á öllum aldri, sem hittist og syngur saman annan hvern föstudag yfir veturinn. Ekki er krafist neinnar söngkunnáttu heldur að fólk hafi gaman af söng því í þessu söngfélagi syngur hver með sínu nefi.

Vildu syngja með fleirum

Þeir fyrrum kennararnir við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Ólafur Sigurðsson og Þorvaldur Árnason, byrjuðu á þessum félagsskap árið 1995 þegar þeir kenndu saman við FS. Báðir spila þeir á gítar og hafa gaman af söng. Þorvaldur og Heiða, konan hans, höfðu verið í svipuðum félagsskap í Reykjavík áður.

„Okkur Þorvaldi þykir gaman að spila og syngja en Þorvaldur kann ógrynni af lögum, það má segja að hann kunni allt. Við vorum fyrst að syngja með samkennurum okkar í partýjum og svona en svo langaði okkur að búa til félagsskap í kringum þetta og létum orðið berast,“ segir Ólafur.

„Já, ég kom inn í þennan sönghóp ári seinna, þegar við Óli kynntumst,“ segir Elín Jakobsdóttir, eiginkona Ólafs.

„Svo auglýstum við stundum í Víkurfréttum í upphafi, þegar við vorum að byrja. Nafnið, Uppsigling, kom ósjálfrátt því nýr sönghópur var í uppsiglingu með þessu framtaki okkar,“ segir Ólafur.

Allir velkomnir að vera með

„Ég kom inn í þennan félagsskap árið 1998 en ég hafði verið að spila með Grænum vinum og átti stóra söngmöppu þar sem öllu er raðað, í röð og reglu með blaðsíðutali og gítargripi með hverju lagi. Það er mikil vinna að setja saman svona söngmöppu með blaðsíðutali í einn pakka. Svanhildur Pálmadóttir, konan mín, hjálpaði til við uppsetninguna því hún er íslenskumanneskjan í hópnum. Allt eru þetta textar á íslensku merktir höfundum. Við erum búin að setja upp 160 blaðsíður með 500 sönglögum. Mappan er aldrei fullskrifuð. Við erum með eina stóra almenna möppu, sérstaka jólamöppu og einnig heimsóknarmöppu sem við notum þegar við förum í heimsóknir á stofnanir til dæmis,“ segir Sigurður Ámundason.

„Við hittumst tvisvar í mánuði, annað hvert föstudagskvöld klukkan átta og yfirleitt í Skátaheimilinu við Hringbraut í Keflavík. Þá höfum við farið á sjúkrahúsið og Hlévang, í Vogana og Grindavík til að syngja fyrir eldri borgara. Í Vogum höfum við sungið saman á kránni Jóa sterka,“ segir Elín.

„Fyrirkomulagið er þannig þegar við hittumst að hver og einn velur sér lag úr möppunni til að syngja með hópnum. Við syngjum þessi lög fyrir hlé og þá er pása, kaffi og eitthvað með því. Það er líka nauðsynlegt að fá að spjalla saman og kynnast betur. Stundum er meira kruðerí og stundum minna með kaffinu, það fer eftir því hvort einhver bakaði köku eða ekki. Umfram allt er þetta heilbrigð söngstund án áfengis,“ segir Þorvaldur.

„Þetta er rosa gaman. Hljóðfærin eru allskonar, sumir koma með gítar, aðrir mandólín eða trommu, harmonikku og þá eru einnig hristur. Það er mikið fjör þegar fólk kemur saman og syngur. Við förum stundum í ferðalag saman og síðastliðið sumar fórum við í söngferðalag vestur í Ísafjarðardjúp. Þá hefði Ásgeir Ingvarsson, söngvaskáld, orðið 100 ára en hann var af Snæfjallaströnd. Þar sungum við meðal annars um tuttugu lög og texta eftir Ásgeir í Dalbæ,“ segir Elín.

Gott fyrir sálina að syngja

„Það er gaman að syngja. Þetta er geðlyfið okkar og gleðipilla. Aldurinn hefur hækkað í hópnum, því eðlilega eldumst við sem stofnuðum söngfélagið, en samt er sá yngsti sem syngur og spilar með okkur 22 ára. Sumir gamlir félagar eru horfnir á braut en við höfum sungið í jarðarförum gömlum félögum til heiðurs,“ segir Ólafur.

„Við erum á öllum aldri. Það er engin söngprófaður heldur eru allir velkomnir að vera með í Uppsiglingu. Málið er að syngja saman. Svo gott að mæta í þennan hóp á föstudagskvöldi, finna hvernig þreytan líður úr manni eftir söngstundina,“ segir Sigurður.

„Já, maður kemst í hamingjugírinn við að syngja,“ segir Elín.

Allt í einu brestur hópurinn í söng og stofan lifnar við heima hjá Ellu og Óla, sem buðu blaðakonu á þennan kynningarfund. Frábært að hlusta á fólkið syngja.