Mannlíf

Atvinnumiðlarinn hefur útvegað yfir áttatíu störf
Sigurgestur Guðlaugsson og Aðalheiður Hilmarsdóttir.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 20. nóvember 2021 kl. 07:53

Atvinnumiðlarinn hefur útvegað yfir áttatíu störf

Heiða með símann að vopni aðstoðar fólk í atvinnuleit og horfir oft út fyrir boxið

„Lykillinn er að tala við fólk. Ekki senda tölvupóst,“ segir Aðalheiður Hilmarsdóttir hjá Reykjanesbæ. Aðalheiður eða Heiða var ráðin til Reykjanesbæjar í gegnum úrræðið „Hefjum störf“ með það í huga að hún myndi vinna með þetta sama úrræði til að útvega langtímaatvinnulausum vinnu. Hún er því nokkurs konar atvinnumiðlari og á örfáum mánuðum hefur Heiða fengið vinnu fyrir yfir áttatíu einstaklinga sem höfðu verið án vinnu í tvö ár eða lengur. Það er Súlan verkefnastofa, sem heyrir undir menningar- og atvinnuráð, sem réð Heiðu til starfa en vinnur einnig náið með velferðarþjónustu Reykjanesbæjar og Vinnumálastofnun í sínum verkefnum.

Heiða leggur mikla áherslu á að hún vilji eiga samtal við fólk í gegnum síma og tölvupósturinn sé ekki notaður fyrr en fólk sé komið í vinnu. „Við erum að vinna með manneskjur en ekki tölur á blaði. Fyrsta tenging mín við fyrirtæki er því með símtali. Þar kynni ég þá möguleika sem eru í boði og hvort við getum ekki átt eitthvað samstarf. Þegar fólk hefur fengið atvinnu hafa bæði atvinnurekandi og launþegi aðgang að mér ef þeir þurfa á að halda. Þetta vinnst svona ef við erum öll saman í þessu,“ segir Heiða um nýja starfið hennar hjá Reykjanesbæ, sem hefur gengið svona ljómandi vel að eftir er tekið langt út fyrir bæjarmörkin. Það staðfestir Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar hjá Súlunni. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og víðar hafa verið í sambandi og spurst fyrir um framkvæmdina hjá „atvinnumiðlaranum“ sem hefur komið öllu þessu fólki í vinnu. „Það geta ekki allir talað eins og frú Aðalheiður og ég get örugglega selt alla aðra en sjálfa mig,“ segir Heiða þegar hún leggur áherslu á samtalið og hvað það virki mikið betur en póstsendingar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

En hvernig varð þetta verkefni til?

„Alla jafna er í gangi úrræði hjá Vinnumálastofnun sem kallast „ráðningarstyrkur“ sem er byggt þannig upp að þú getur fengið með einstaklingi af atvinnuleysisskrá andvirði venjulegra atvinnuleysisbóta til að ráða starfsmann í tímabundna vinnu sem virkar þá sem tækifæri fyrir fyrirtæki til að prófa starfsmann af atvinnuleysisskrá og skapa tækifæri því undir venjulegum kringumstæðum líta margir svo á að sá sem hefur verið lengi á skrá sé þar af einhverjum ástæðum sem séu kannski ekki til þess fallnar fyrir lítil fyrirtæki að taka sénsinn á að ráða viðkomandi í starf. Þegar við lendum í krísum eins og núna byrja menn að setja áherslu á að nýta svona úrræði miklu meira,“ segir Sigurgestur og bætir við: „Um leið og Covid skall á byrjuðum við að ýta við Vinnumálastofnun til að fá þetta úrræði útvíkkað því fram að Covid þá þurfti fólk að hafa verið atvinnulaust í eitt ár eða lengur til að falla undir þetta verkefni að fá greitt með sér ígildi atvinnuleysisbóta til ákveðins tíma. Vinnumálastofnun og Félagsmálaráðuneytið skoðuðu málið og reglugerð var breytt þannig að ef eitt svæði eða landið allt væri með 6% atvinnuleysi eða meira, þá virki þetta úrræði strax frá fyrsta mánuði, sem er alveg frábært. Þetta gerði það að verkum að þeir sem voru búnir að vera lengi á skrá voru jafnvígir þeim sem höfðu verið stuttan tíma, þ.e. það skipti ekki hversu lengi fólk hafi verið án vinnu að það var hægt að ráða það til fyrirtækja með ráðningarstyrk. Til að gera langa sögu stutta var ráðist í annað átak sem nefnist „Hefjum störf“ og því var þá sérstaklega beint að þeim sem höfðu verið lengi á atvinnuleysisskrá og með þeim eru greiddar hámarks tekjutengdu atvinnuleysisbæturnar. Þetta fannst okkur frábært en við þekktum það að það var meira en að segja það að nýta þessi úrræði. Það er eitt að þau séu til en annað að þau séu nýtt. Það er mikil vinna að halda utan um það og koma áfram. Þegar „Hefjum störf“ átakið varð til þá byrjuðum við á því að ráða til okkar starfsmann til að sjá um þetta. Við nýttum úrræðið til að búa til starf til að vinna með úrræðið. Þar kemur Heiða til sögunnar. Hún var ekki langtímaatvinnulaus en við gátum notað ráðningarstyrk til að búa til þetta tímabundna verkefni með henni sem hún hefur síðan tekið og gert að sínu,“ segir Sigurgestur um tilurð verkefnisins hjá Reykjanesbæ. Hann vonast til að verkefnið sem Heiða var ráðin til verði ekki tímabundið, heldur varanlegt, því það sé nauðsynlegt að halda áfram þessu góða starfi.

Heiða, hvaða aðferðum ert þú að beita? Þú ert búin að koma tugum einstaklinga í vinnu frá því þú byrjaðir.

„Þetta eru áttatíu og einn sem hefur fengið starf frá því ég byrjaði mitt verkefni. Þetta eru engar töfralausnir. Ég tek bara upp símann og hringi í fólk og fyrirtæki.“

Hvaða störf hefur þú verið að útvega?

„Þetta eru alls konar störf, öll flóran og þetta eru störf á öllum Suðurnesjum og einnig á höfuðborgarsvæðinu eins og í Hafnarfirði, Reykjavík og Mosfellsbæ.“

„Heiða hugsar út fyrir boxið. Við sáum öll fyrir okkur að þetta væru verkefni sem Reykjanesbær gæti útvegað en Heiða sá bara fólk sem þurfti að fá aðstoð við að fá vinnu, sama hvar þá vinnu væri að fá og þess vegna er hún að ná þessum árangri,“ segir Sigurgestur.

Enginn talað um að þetta séu bara störf til sex mánaða 

Hvernig hafa svo atvinnurekendur verið að bregðast við?

„Bara mjög vel. Þetta er hugsað þannig að fyrirtæki eru að fá greitt með starfsmönnum í sex mánuði. Ef fólk er að standa sig þá vonandi vilja atvinnurekendur hafa starfsfólkið áfram í vinnu. Þetta er góð byrjun fyrir fyrirtæki til að sjá hvort það sé að fá þann starfsmann sem það vill. Það hefur enginn talað um það við mig að þeir séu eingöngu að bjóða starf í þessa sex mánuði,“ segir Heiða.

Starf Heiðu er þannig að hún vinnur bæði með Vinnumálastofnun og Velferðarsviði Reykjanesbæjar. Hún fær lista frá Vinnumálastofnun með nöfnum einstaklinga sem hafa verið skráðir atvinnulausir í tvö ár eða lengur. Heiða hringir svo í fólkið á listanum. Því miður eru margir sem svara ekki þrátt fyrir ítrekuð símtöl, en þeir sem svara fá samtal í þar sem rætt er við þá um hvar viðkomandi hafi sótt um atvinnu og þá einföldu spurningu hvort þeir vilji aðstoð við það að sækja um vinnu.

„Ég fæ upplýsingar frá fólkinu hvar það hafi verið að sækja um störf og hringi svo í þau fyrirtæki og sel þeim hugmyndina um að ráða í starf með stuðningi frá Vinnumálastofnun,“ segir Heiða. 

Hún er eingöngu að vinna með þá einstaklinga sem hafa verið tvö ár eða lengur án atvinnu. Árangurinn er farinn að spyrjast út og fólk sem hefur verið atvinnulaust í skemmri tíma hefur haft samband við þjónustuver Reykjanesbæjar til að hafa uppi á „konunni sem er að redda öllum vinnu“ og Heiða segist ekki láta það stoppa sig að draga línuna við þessi tvö ár. Ef hún geti útvegað vinnu, þá sé það látið gerast. „Ef ég get hjálpað, þá hjálpa ég,“ segir hún.

Aðspurð hvað verði um þá sem ekki svara ítrekuðum símtölum, segir Heiða að sá listi fari bara áfram til Vinnumálastofnunar til úrvinnslu og sé ekki lengur á hennar borði.

„Leyfið mér að prófa hvað ég get“

Hvernig er fólk í atvinnuleit að bregðast við því þegar þú hringir?

„Það er allskonar. Fólk spyr mig hvað ég haldi að ég geti gert og ég segi á móti, leyfið mér að prófa hvað ég get,“ segir Heiða og Sigurgestur bætir við: „Það gleymist stundum að fólk sem er búið að vera lengi atvinnulaust er jafnvel búið að fá 300 sinnum nei.“

„Ekki einu sinni nei, stundum er fólki ekki einu sinni svarað,“ bætir Heiða við. „Fólk situr bara heima og er jafnvel búið að upplifa algjört vonleysi. En þetta verkefni hefur gengið alveg ótrúlega vel. Þetta er ekki bara þannig að ég hringi og fái vinnu fyrir fólk, því ég er einnig með eftirfylgni fyrir viðkomandi og fylgi fólki eftir fyrstu skrefin á nýjum vinnustað og leysi úr vandamálum ef þau koma upp. Þetta byggist allt á góðri samvinnu,“ segir Heiða.

Milljón ástæður að vera án vinnu

„Mér finnst þetta verkefni Heiðu hafa gengið alveg ótrúlega vel og hún er sjálf dæmi um þá getu sem er þarna úti. Hún var sjálf búin að vera án atvinnu í smá tíma, einhverja sjö mánuði. Hún er besta dæmið sjálf um hversu mikill mannauður er þarna úti og það eru margar ástæður fyrir því að fólk lendir á þeim stað að vera án vinnu. Heiða er gott dæmi um það að fá verkefni í hendurnar sem hún hafði örugglega aldrei látið sér detta í hug áður en það kom til. Hún hafði áður verið í rekstri fyrirtækja og slíku en ekki að vinna við hlið velferðarráðgjafa okkar,“ segir Sigurgestur.

Og Heiða bætir við: „Ég held að ég geti sagt það fyrir hönd 99% þeirra sem eru atvinnulausir að það er staða sem fólk vill ekki vera í.“ 

Vill ekki aftur á upphafsreit

Nú er stundum sagt að það sé í raun ekkert atvinnuleysi og allir sem vilja vinnu geti fengið vinnu.

„Fólk sem missir vinnuna eftir langan tíma á vinnumarkaði gerir kröfu til sjálfs síns um að það hafi farið ákveðinn veg og vill þá ekki fara aftur á upphafsreit, heldur fá starf sem hæfir starfsreynslu,“ segir Heiða.

 Sigurgestur bendir á að það sé nauðsynlegt að horfa út fyrir kassann og bendir á það starf sem Heiða stundar í dag. Hún hafi aldrei látið sér detta í hug að sækja sjálf um starf hjá velferðarsviði bæjarins og var að horfa í allt aðra átt. Þegar bæjarfélagið leitaði til hennar með starf vinnumiðlarans, þá var að strax ljóst að starfið hentaði henni. Það á einnig við um marga aðra og Heiða hefur útvegað mörgum störf sem það hefur aldrei unnið áður en hentar viðkomandi. Jafnvel störf sem viðkomandi hefði aldrei dottið í hug að takast á hendur. „Ég heyri á fólki að það skoðar atvinnuauglýsingar og setur fyrir sig þær kröfur sem eru settar þar fram og slær því starfið út af borðinu án þess að reyna,“ segir Heiða.

Landið fyrst að rísa nú eftir fall WOW

„Þeir sem hafa verið lengst á atvinnuleysisskrá misstu vinnuna þegar WOW féll og það er í raun ekki fyrr en fyrst núna frá falli flugfélagsins sem atvinnuleysi er að ganga til baka á Suðurnesjum. Heilt yfir var samdráttur í samfélaginu alveg þar til Covid kom og þá kom frekari samdráttur ofan í það. Það hefur líka verið tilhneiging hjá fyrirtækjum að þegar þau hafa tækifæri til að ráða fólk að nýju, þá ráða þau þann sem þau sögðu síðast upp og þannig situr sá eftir sem fyrst missti vinnuna og hafði kannski minnstu starfsreynsluna. Þetta úrræði sem nú er verið að vinna með í að koma þeim sem hafa verið lengst á atvinnuleysisskrá er því mikilvægt til að koma því fólki aftur til virkni. Það er svo auðvelt að festast í þessu fari og ráða ekki við það lengur,“ segir Sigurgestur.

Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur minnkað á nokkrum mánuðum úr 24% niður í 10% sem skýrist meðal annars af því að flugvöllurinn er farinn að ráða til sín fólk að nýju. Þá hefur stærsti hluti þeirra einstaklinga sem Heiða hefur komið í störf haldið í störfin. Sjö einstaklingar af áttatíu og einum eru ekki í vinnu í dag og segir Heiða að ýmsar ástæður liggi þar að baki. Það að þiggja tímabundið starf í gegnum hefjum störf eða ráðningarstyrk fyrirgerir ekki rétti til atvinnuleysisbóta. Viðkomandi heldur sömu réttindum þegar ráðningu lýkur, það er að segja ef hann fær ekki áframhaldandi ráðningu.

Fyrirtæki geta leitað til Heiðu

Reykjanesbær getur beitt sér á annan hátt en einkafyrirtæki þegar kemur að því að vinna með lista yfir fólk í atvinnuleit. „Hér er gætt að persónuvernd og listum yfir fólk án atvinnu er ekki flaggað. Fyrirtæki geta ekki fengið þennan lista til að handvelja fólk,“ segir Sigurgestur. 

Fyrirtæki geta hins vegar leitað beint til Heiðu t.d. með því að senda henni tölvupóst á póstfangið [email protected] og hún hefur þá símasamband um hæl með það í huga að útvega fólki atvinnu við hæfi.