Hagnast vel á hamförum
Hagnaður öryggisfyrirtækisins Sigmanna ehf. jókst um 732% milli ára
Hagnaður öryggisfyrirtækisins Sigmanna ehf. jókst um 732% milli ára og velta þess um 146%, samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Fyrirtækið, sem hefur sinnt öryggisþjónustu í Grindavík frá rýmingu bæjarins eftir náttúruhamfarirnar 10. nóvember 2023, hefur fengið greiddar samtals 191 milljónir króna frá Ríkislögreglustjóra vegna verkefnisins. Eigendur fyrirtækisins eru öryggisstjóri Grindavíkur og eiginkona hans.
Fyrirtækið Sigmenn ehf., sem hefur verið með starfsemi í Grindavík síðan snemma á síðasta ári vegna öryggisþjónustu, hefur birt ársreikning fyrir árið 2024. Fróðlegt er að bera saman tölur á milli ára en velta fyrirtækisins jókst um 146% og hagnaðurinn um 732% milli áranna 2023 og 2024.
Öryggisstjóri á vegum fyrirtækisins var settur á í Grindavík af Ríkislögreglustjóra snemma á síðasta ári. Eins og Víkurfréttir fjölluðu um fyrr á þessu ári hafði fyrirtækið rukkað Ríkislögreglustjóra um 191 milljón frá þeim tíma. Bara á þessu ári um 60 milljónir fram til 30. júní. Eftir að Víkurfréttir fjölluðu um málið lækkaði mánaðarlegur reikningur fyrirtækisins úr u.þ.b. tíu milljónum á mánuði, í sex milljónir í lok júlí og rúmar fjórar milljónir í ágúst.
Samkvæmt ársreikningi félagsins voru rekstrartekjur árið 2023 rúmar 58 milljónir en ári síðar, eftir að starfsemi hófst í Grindavík, rúmar 143 milljónir. Hagnaður ársins 2023 var rúmar 5 milljónir en hækkaði upp í rúmar 46 milljónir árið 2024.
Samkvæmt skýrslu stjórnar í ársreikningnum kemur fram að eigendur fyrirtækisins eru Öryggisstjóri Grindavíkur og eiginkona hans. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður til eigenda félagsins að upphæð 55 milljónir.