Samfylkingin
Samfylkingin

Mannlíf

Að kafna næstum úr hlátri á bak við grímuna
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 11. febrúar 2021 kl. 13:50

Að kafna næstum úr hlátri á bak við grímuna

Mikið svakalega er gott að kúpla sig út úr hversdagslegu amstri eina kvöldstund og skella sér í leikhús. Við Suðurnesjamenn erum líka svo heppin að eiga eitt flottasta áhugaleikfélag landsins, Leikfélag Keflavíkur, sem á undanförnum árum hefur unnið hvern leiksigurinn á fætur öðrum í uppfærslum sínum. Félaginu hefur tekist vel upp í vali sínu á leikverkum og þar hafa gamanleikir verið hvað vinsælastir. Frumsamdar revíur og svo þekktir farsar þar sem allt er einn misskilningur og tóm lygi.

Frumleikhúsið er líka frábær umgjörð utan um starfsemi Leikfélags Keflavíkur og Jóel Sæmundsson, leikstjóri, sagði í samtali við Víkurfréttir á dögunum að það væru mikil forréttindi fyrir félag eins og Leikfélag Keflavíkur að hafa Frumleikhúsið. Jóel leikstýrir farsanum Beint í æð sem frumsýndur var um nýliðna helgi. Æfingaferlið var langt en síðasta haust var lagt upp í þá vegferð að setja Beint í æð á svið. Þá kom önnur bylgja kórónuveirunnar og svo þriðja bylgjan og allir draumar um leiksýningar voru lagðir á hilluna en farsinn æfður áfram á Zoom. Það er jú allt hægt á netinu í dag. Þegar það var ljóst að hundrað gestir mættu vera á leiksýningu var allt sett á fulla ferð og farsanum komið á svið.

Leikfélagi Keflavíkur tekst virkilega vel upp með þessu verki. Beint í æð er eftir Ray Cooney og í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar. Leikstjóri er Jóel Sæmundsson eins og áður segir en hann hefur áður leikstýrt söngleiknum Mystery Boy sem hlaut titilinn athyglisverðasta áhugaleiksýningin árið 2018 og fór á fjalir Þjóðleikhússins.

„Hvað gerir taugaskurðlæknir þegar gömul hjásvæfa hans mætir, óumbeðinn, rétt áður en hann á að flytja mikilvægasta fyrirlestur ferilsins og tilkynnir honum að hann eigi fullvaxta son? Af hverju er löggan komin í málið? Af hverju grettir Grettir Sig sig? Hvað ætli Súsanna, konan hans, segi? Hvað er Páll Óskar að gera þarna? Hver er Loftur? Hvað er málið með Mannfreð og Gróu? Hvar er yfirdeildarhjúkrunarfræðingurinn?,“ segir í auglýsingu fyrir farsann og segir allt sem segja þarf. Það er góður hraði í sýningunni og lygavefurinn og misskilningurinn vex hratt.

Það var stemmning í loftinu og gestir á frumsýningu sprungu úr hlátri hvað eftir annað. Það er hreinlega hægt að komast í það ástand að kafna næstum úr hlátri, því það er jú grímuskylda í leikhúsinu og allt flæðandi í spritti.

Það er einvala lið leikara á sviðinu sem margir hverjir eru með áralanga reynslu í Frumleikhúsinu. Öll stóðu sig með mikilli prýði. Það getur jú verið erfitt að halda andliti á sviði þegar salurinn skellihlær að uppátækjum þínum.

Það er full ástæða til að hverja fólk til að skella sér í leikhús á Beint í æð. Hláturtaugarnar munu ekki sjá eftir því. Það er svo hressandi að geta hlegið hraustlega eina kvöldstund.

Næstu sýningar eru næstu fimmtudaga, föstudaga og sunnudaga. Nánar um sýningartíma og miðasölu á tix.is.

Takk fyrir frábæra kvöldstund í Frumleikhúsinu.

DVK,
Hilmar Bragi Bárðarson.