„Hljómar ógnvekjandi en ég segi bara Go for it!“
Keflavíkurmærin Jana Falsdóttir stendur körfuboltavaktina í Big West deildinni í Kaliforníu í Bandaríkjunum
Jana Falsdóttir er 19 ára, fædd og uppalin í Keflavík, og hefur frá unga aldri spilað körfubolta. Hún lagði leið sína til Bandaríkjana í háskólaboltann og tekst á við nýjar áskoranir og spennandi tækifæri af miklum metnaði. Ég talaði við Jönu í myndsímtali síðdegis einn rigningardag heima á Íslandi, en hún sat á bekk fyrir utan skólann í morgunsólinni með fuglasöng í bakgrunninum.

Jana spilar körfubolta í Kaliforníuháskóla í Big-West deildinni. Háskólinn er í Orange sýslu í Fullerton, sem er á suðvesturströnd Bandaríkjanna. Hún er að klára fyrsta árið og hefur gengið mjög vel í skólanum. Það er ekki einföld ákvörðun að fara út í krefjandi háskólabolta en Jana hefur staðið sig með prýði og sér þetta allt saman sem dýrmætan lærdóm, bæði innan og utan vallar. Hún hefur þurft að aðlagast nýju umhverfi, krefjandi leikstíl og aukinni samkeppni, en sér það sem dýrmæt tækifæri til að vaxa sem leikmaður og persóna.
Tækifæri til að bæta sig og koma sterkari heim
„Ég lít á þetta þannig að ég er að bæta mig ótrúlega mikið sem einstaklingur hérna úti og get þá komið heim með hæfileikana héðan og blandað þeim við þá sem ég læri heima,“ segir Jana.
Hún hefur fengið að spila mikið miðað við að vera á fyrsta ári og gengið ágætlega en liðinu gekk ekkert sérlega vel á þessu tímabili. „Það eru bara nokkrar stelpur eftir í liðinu og margar nýjar að koma inn og nýr þjálfari þannig það verða miklar breytingar framundan,“ segir Jana. Reglurnar í leiknum eru aðeins öðruvísi úti heldur en hér heima og tók það Jönu smá tíma að venjast því. Hún segir að á Íslandi sé spilaður meiri liðskörfubolti en úti sé meiri áhersla á einstaklingsframtakið og leikmenn þurfi að hugsa miklu meira um sjálfan sig en að leyfa boltanum að fljóta með liðinu. En Jana lítur á það sem tækifæri til að bæta sig sem leikmaður og þá getur hún komið heim með færnina sem hún lærði úti og blanda henni við það sem hún lærir hér.
Stærsta ákvörðunin, skrefið til Bandaríkjanna
Jana hefur átt áhugaverða vegferð í sínu lífi og starfi sem körfuboltakona. Hún byrjaði að spila körfubolta aðeins sex ára gömul og sýndi strax mikla hæfileika og ákefð, hún lék með yngri flokkum Keflavíkur og skaraði fram úr, en eftir alla yngri flokka þá fór hún í Stjörnuna í 10. flokki vegna þess að mamma hennar byrjaði að þjálfa þar.
„Eftir það fór ég beint yfir í Hauka og spilaði með Haukum fyrstu tvö árin mín í framhaldsskóla og síðasta árið mitt spilaði ég með Njarðvík, sem var sem sagt í fyrra,“ segir Jana.
Stærsta ákvörðunin sem Jana hefur tekið er líklega að fara til Bandaríkjanna að spila körfubolta, þetta var samt sem áður ekki eins erfið ákvörðun og Jana hélt. „Ég fór á fund með þjálfurunum á mánudegi og ég ákvað að fara í þennan skóla á miðvikudegi.“ Jana ætlaði ekki að fara út í fyrra en síðan kom þetta tækifæri og ákvað hún að hoppa á það. „Þetta er samt alveg frekar stór ákvörðun þar sem ég er að fara frá öllum sem ég þekki og það eru átta klukkustundir í flugvél frá fjölskyldunni,“ bætir Jana við.
Aðlögunin að bandarísku lífi
„Það er alveg smá sjokk að búa hérna. Ég hef komið hingað áður en að búa hérna er svo öðruvísi. Ég held að það sem sé svo mikið öðruvísi frá Íslandi sé ábyggilega þetta „small talk“. Bandaríkjamenn byrja bara að spjalla og spyrja mjög persónulegra spurninga og ég veit ekkert hver þetta er,“ segir Jana og hlær. Foreldrar Jönu hjálpuðu henni að flytja út og fannst henni það vera mikil hjálp að hafa þau hjá sér í byrjun, en það tók Jönu ekki langan tíma að aðlagast Bandaríkjunum. „Ég var alveg með smá heimþrá en ég var bara svo heppin með stelpurnar hérna og þær eru búnar að passa upp á að ég hafi eitthvað skemmtilegt að gera,“ segir Jana.
Jana býr á háskólasvæðinu ásamt herbergisfélaganum sínum Mary sem er líka í körfuboltanum og er einu ári yngri. „Það eru samt bara „freshman“ sem þurfa að vera í sameiginlegum herbergjum þannig að á næsta ári verð ég með mitt eigið herbergi.“

Jafnvægi milli náms og íþrótta með góðum stuðningi
Jana er á fyrsta ári og er að læra Studio Art sem er svipað og almenn listabraut en hún stefnir á grafíska hönnun. Jana segir að henni gangi mjög vel í skólanum vegna þess að hún var vel undirbúin frá því að vera í Verslunarskólanum. „Mér líður eins og ég sé ennþá í Verzló, hvernig heimavinnan og allt er en þetta er ekki erfitt eins og staðan er núna en þetta verður örugglega erfiðara.“
Skólinn hjálpar nemendunum mikið með námið áður en þeir fara að spá í íþróttinni sem þeir stunda. „Ég hitti svona „Academic advisor“, sem er eins og námsráðgjafi, einu sinni í viku og við förum yfir einkunnirnar mínar og öll verkefni sem ég þarf að skila í vikunni.“ Kennararnir vita að nemendurnir séu í íþróttum þannig að ef þeir missa af tímum þá eru kennararnir mjög hjálpsamir. „Það er líka mjög auðvelt að taka þátt í félagslífinu þegar maður er í íþrótt, ég þekki alla sem eru í íþróttum og við stelpurnar erum alltaf að gera eitthvað saman. Tímabilið kláraðist fyrir tveim vikum og við erum samt búnar að vera allar saman í íþróttahúsinu á fullu.“
Finnst þér þú hafa áhrif á annað fólk?
„Sko, það er alveg skrítið að segja það en já, ég myndi segja að ég hafi áhrif, sérstaklega eftir að hafa spilað með Njarðvík. Það voru margar stelpur sem töluðu oft við mig eftir leiki og vildu vita í hvaða skóla ég væri og hvert ég væri að fara út og svo eru margar að fylgja mér á Instagram.“
Jana segir einnig að hún hafi verið með svokallað „take over“ á Instagramminu hjá Anca Athletics einn daginn og margar stelpur hafi viljað vita meira um hana. „Ég held líka að allar stelpur sem hafa komið út í háskóla hafi mikil áhrif á stelpurnar heima.“ Jana segir einnig að sínar fyrirmyndir í körfuboltanum væru „Sue Bird sem spilaði í WNBA fyrir Seattle Storm og Jenny Boucek sem spilaði einu sinni í Keflavík og er núna að þjálfa NBA-lið. Jenny er önnur konan til að þjálfa NBA-lið og er ótrúlega mikil fyrirmynd.“
En þegar allt kemur til alls eru mamma hennar og pabbi helstu fyrirmyndir í lífinu. „Þau eru bæði í körfu ég væri ekki hérna úti ef það væri ekki fyrir þau.“ bætir Jana við.
Partýmenningin í Bandaríkjunum
Partýmenning í Bandaríkjunum er allt önnur en hér á landi. „Partýmenningin er ólík vegna þess að flestir eru að fara að heiman í fyrsta skiptið og tapa sér stundum í gleðinni,“ segir Jana, en partýin klárast alltaf þegar löggan mætir á svæðið. „Það er eiginlega búið að banna öllum að halda partý þannig að þetta eru meira bara svona litlir hittingar með vinum heldur en einhver stór partý, en oftast er enginn tími fyrir partý því að skólinn og körfuboltinn eru tímafrek,“ bætir hún við.
Þegar Jana er ekki á æfingum eða að keppa þá er hún oftast með liðsfélögum sínum. „Ég var mjög heppin með liðsfélaga og þær eru bara orðnar bestu vinkonur mínar þannig við gerum allt saman,“ segir Jana. Ein vinkona hennar á bát á einni strönd og fara þær oft þangað að hanga á ströndinni, „en ef ég er ekki þar þá er ég líka bara í mollinu eða einhvers staðar að borða, við borðum mjög mikið,“ bætir Jana við og hlær.
Jana sér sig eftir fimm ár að spila heima og vinna í einhverju tengdu grafískri hönnun að námi loknu í Bandaríkjunum. „eða vera í Danmörku og fara í framhaldsnám og spila körfubolta þar, eða Svíþjóð. Ég veit að það eru íslenskir leikmenn að fara til Danmerkur eða Svíþjóðar að spila og vera í námi á sama tíma, mér líst mjög vel á þá hugmynd,“ segir Jana.
Hvetur aðra til að elta drauma sína
Jana vill ráðleggja ungu íþróttafólki að stressa sig ekki of mikið. „Ég átti það alveg til þegar ég var í Njarðvík að vera alveg ógeðslega stressuð yfir leikjum en var svo bara standa mig mjög vel.“
Jana myndi ráðleggja öllum að taka hugleiðsluæfingar til að læra að virkja stressið rétt. Hún hvetur einnig aðra krakka til að fara út í skóla. „Þetta hljómar mjög ógnvekjandi að fara út og fara frá allri fjölskyldunni þinni en ef einhverjum býðst þetta tækifæri að fara út í skóla, þá myndi ég alltaf segja „go for it.“ Þetta verður erfitt fyrstu dagana en a.m.k. að prófa þetta og ef það virkar ekki þá er ekkert mál að koma aftur heim því það er enginn að fara að dæma þig,“ segir Jana að lokum.