Samfylkingin
Samfylkingin

Mannlíf

„Ef illa fer, þá ert þú  skilinn eftir með allt“
Laugardagur 13. febrúar 2021 kl. 09:03

„Ef illa fer, þá ert þú skilinn eftir með allt“

Árni Björn Ólafsson sagði lesendum Víkurfrétta frá baráttu sinni við krabbamein í síðustu viku. Hann greindist með krabbamein við ristil og í endaþarmi síðasta haust og fór í aðgerð þar sem 30 sentimetar af ristli og þörmum voru skornir í burtu og 39 eitlar voru einnig fjarlægðir. Árni Björn er núna hálfnaður í lyfjameðferð við krabbameininu og hann tekur lífinu með bjartsýni. Hann heldur úti síðu á Facebook, Lífið er núna, þar sem hann segir frá verkefninu sem hann og fjölskyldan eru að takast á við þessar vikurnar. Árni Björn á eiginkonu og tvö börn sem hafa staðið með honum eins og klettar í öllu ferlinu. Karen Rúnarsdóttir, eiginkona Árna, sagði okkur frá hlið aðstandenda í stuttu viðtali sem við tókum samhliða viðtalinu við Árna Björn, sem birt var í síðasta tölublaði Víkurfrétta. Í stafrænni útgáfu blaðsins má einnig horfa á sjónvarpsviðtal við Árna sem var í Suðurnesja-magasíni í síðustu viku.

Áfallið oft erfiðara fyrir aðstandendur

„Þetta er rosalegt sjokk til að byrja með og ég held að áfallið verði oft erfiðara fyrir aðstandendur að fá svona fréttir því þú verð að hugsa að þú sért sá sem er skilinn eftir. Maður upplifir svolítið að ef illa fer, þá ert þú skilinn eftir með allt, alla ábyrgð, börnin, sorgina og allt það. Þetta var áfall fyrir mig fyrst en svo fór ég að horfa á þetta sem verkefni sem við þurfum að fara í gegnum. Við getum ekkert breytt þessu, við fengum bara þetta verkefni og það er ekki í boði að setja sængina yfir höfðið og gefast upp. Það er líka auðveldara að vinna þetta svona, því hann er svo jákvæður og það hefur hjálpað mér í gegnum þetta,“ segir Karen Rúnarsdóttir, eiginkona Árna Björns.

„Hann á vin sem hann hringir í og það eru eiginlega allir búnir að setja okkur í bómull. Við fáum mikið af hringingum og hvatningu. Það er gott þegar fólk er til staðar. Þá erum við í Krafti og ég hef farið á einn fund fyrir aðstandendur. Svo erum við einnig í ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins og þar er hjúkrunarfræðingur sem hittir okkur þar sem farið er yfir stöðuna og átt gott spjall. Það hefur einnig hjálpað mjöf mikið.“

Hefur forritað ryksuguna fjórum sinnum

- Hvað ert þú að gera svo hann hafi nóg fyrir stafni? Þú stundar þína vinnu og skilur hann eftir heima.

„Ég get alveg viðurkennt að mér finnst það vera svolítið erfitt. Ég fæ alveg samviskubit yfir því að fara bara í vinnuna og skilja hann einan eftir heima. En hann er búinn að forrita ryksuguna svona fjórum sinnum, þannig að hann finnur sér alltaf eitthvað að gera. Ryksuguróbótinn er endalaust forritaður og fer alltaf nýjar leiðir um húsið,“ segir Karen og hlær og bætir við að kannski séu þetta merki um að Árna Birni leiðist heima.

Karen hefur reynt að halda sínu striki varðandi vinnu en hún starfar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hún hefur þó einnig reynt að taka sér frí til að vera heima með eiginmanninum í þessu verkefni sem krabbameinsmeðferðin er.

Passa vel upp á pabba sinn

- Hvernig hafa börnin ykkar verið að takast á við þetta?

„Við létum drenginn okkar, sem er sautján ára, fara til sálfræðings. Dóttur okkar, sem er eldri, stóð einnig til boða að ræða við sálfræðing um málið en hún vildi ekki nýta sér það og ætlar að takast á við þetta sjálf.“

Karen segir að börnin passi vel upp á föður sinn og haldi honum vel við efnið. Árni Björn sér einnig um að koma syni sínum í skólann en hann er nemandi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

„Það var fyrst svolítið skrítið að ég væri að keyra framhjá skólanum á minni leið til vinnu en þetta er gott fyrir Árna að vakna á morgnana og hafa eitthvað fyrir stafni. Það er ekki gott fyrir geðheilsuna að sofa fram undir hádegi. Það er góð rútína að skutla og sækja í skólann. Þeir hafa báðir gott af þessu, held ég,“ segir Karen.

Viðtal Víkurfrétta við Árna Björn er í spilaranum hér að neðan.