ísbúð garðarbæjar
ísbúð garðarbæjar

Íþróttir

Yfirspilaðar á heimavelli
Grindvíkingar voru ekki sáttar við frammistöðu sína í fyrsta markinu. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 9. júní 2022 kl. 10:03

Yfirspilaðar á heimavelli

Grindvíkingar tóku í gær á móti Augnabliki í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu. Liðin eru á svipuðum slóðum í deildinni, í sjötta og sjöunda sæti, en það voru gestirnir sem réðu lögum og lofum á vellinum og endaði leikurinn með þriggja marka tapi Grindvíkinga, 1:4.
Júlía Rut með glæsilegt skot sem hafnaði í þverslánni og Mimi Eiden var hársbreidd frá því að ná frákastinu fyrir framan markið.

Hlutverk Grindvíkinga í leiknum í gær var að liggja til baka á meðan Augnablik lét boltann ganga sín á milli. Af og til sýndu þær gulklæddu þó ágætis sóknartilburði og voru þær Júlía Rut Thasaphong og Sigríður Emma F. Jónsdóttir ógnandi framarlega á vellinum. Þegar langt var liðið á fyrri hálfleik kom fyrsta markið (45'+1) og það var af ódýrari gerðinni, boltinn lak þá einhvern veginn í gegnum þéttan pakka fyrir framan mark Grindvíkinga og í netið. Annað markið kom skömmu seinna, einnig í uppbótartíma (45'+4). Þá varði Lauren Houghton, markvörður Grindvíkinga, vel en boltinn hrökk fyrir fætur sóknarmanns Augnabliks sem fylgdi skotinu vel eftir.

Caitlin Rogers nálægt því að skora í leiknum í gær en henni tókst ætlunarverk sitt á lokamínútu leiksins.

Seinni hálfleikur fór ekki vel af stað og lentu Grindvíkingar þremur mörkum undir á 49. mínútu. Til að reyna að hressa upp á leik sinna manna gerði Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari Grindvíkinga, fjórfalda breytingu – það skilaði ekki árangri því aðeins tveimur mínútm síðar lenti Grindavík fjórum mörkum undir (62'). Caitlin Rogers klóraði í bakkann á lokamínútu leiksins (89') og skoraði eina mark Grindvíkinga sem eru áfram í sjötta sæti en Augnablik er nú aðeins einu stigi á eftir þeim.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Grindavíkurvelli í gær og tók meðfylgjandi myndir.

Grindavík - Augnablik (1:4) | Lengjudeild kvenna 8. júní 2022