Kalka
Kalka

Íþróttir

Við erum að taka skref upp á við
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 24. ágúst 2022 kl. 13:08

Við erum að taka skref upp á við

– segir Elvar Már Friðriksson, landsliðs- og atvinnumaður í körfuknattleik, sem er genginn til liðs við Rytas, meistara síðasta árs í Litháen.

Elvar Már snýr aftur í lithásku deildina eftir að hafa leikið eitt tímabil með Antwerp Giants í Belgíu og svo stutt stopp á Ítalíu fyrr á þessu ári. Elvar þekkir ágætlega til í Litháen en hann átti frábært tímabil með Siauliai í lithásku LKL-deildinni tímabilið 2020/2021 þar sem hann var að lokum valinn besti leikmaður deildarinnar. Nú hefur Elvar Már gengið til liðs við Rytas Vilnius sem urðu meistarar á síðustu leiktíð. Víkurfréttir settust niður með kappanum og ræddu við hann um atvinnumannaferilinn.

Þú kunnir vel við þig þegar þú varst í Litháen, er það ekki?

„Ég var í einhverju tíu mánuði þar í hitteðfyrra og það var svolítið litað af því að það var „lockdown“ þarna út af Covid, það var allt lokað í einhverja sex mánuði sem ég var þarna og þar af héld ég að ég hafi verið í tvo mánuði í einangrun þar sem leikmenn í liðinu voru að smitast enda voru strangar reglur í gildi,“ segir Elvar. „Þannig að ég fékk ekki fulla upplifun af Litháen en því sem ég kynntist var mjög fínt fólk, góðir veitingastaðir og barnvænt og gott að vera þarna. Ég á einn lítinn strák og fjölskyldan ætlar að koma með mér og vera meira og minna þarna. Við fórum einmitt í helgarfrí til Vilnius og okkur leist hrikalega vel á borgina. Hún er mjög vestræn og ólík mörgum öðrun borgum í Litháen sem eru frekar gamaldags og ekki nýmóðins – austur-evrópskt í rauninni. Þótt það sé mjög gaman að kynnast þeirri menningu líka þá er Vilnius blanda hvoru tveggja.“

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk

Elvar Már átti frábært tímabil með Siauliai í Litháen 2020/2021. Mynd af Facebook-síðu Siauliai


Vinnan er að skila sér

Þér hefur gengið vel í atvinnumennsku og okkur finnst þér hafa farið mikið fram. Hvað segirðu um það?

„Já, alla vega hafa síðustu þrjú ár verið mjög góð hjá mér. Eftir að ég fór úr Njarðvík og í atvinnumennsku þá hef ég gert mjög vel, hef tekið þetta í svona tröppugangi. Ég byrjaði í Svíþjóð, við urðum meistarar þar og ég var valinn leikstjórnandi ársins í þeirri deild og tók þá eitt skref upp á við og fór til Litháen. Þar var ég í minna liði en ég fer til núna og var valinn besti leikmaður deildarinnar. Svo fór ég til Belgíu og tók þátt í Evrópukeppni þar og var með flestar stoðsendingar í leik í þeirri deild. Þannig að þetta hefur farið svona skref fyrir skref hjá mér og ég, í samstarfi við umboðsmann minn, hef reynt að taka réttu körfuboltalegu skrefin fyrir mig og svo er ég bara kominn í frábært lið núna – og það verður mesta áskorunin hingað til.“

Elvar segir að skipti hans til Rytas hafi mikla þýðingu fyrir sig, hans draumur hefur verið að komast eins langt og hann gæti í atvinnumennsku en hann hafi kannski ekki átt von á að komast í svona stórt lið.

„Einhvern veginn gerist það bara þannig að maður hugsar alltaf ár fram í tímann, núna er ég kominn þangað og planið núna er að komast eitt skref upp á við. Þannig að þetta hefur mikla þýðingu fyrir mig og góð hvatning, vinnan er að skila sér,“ segir Elvar Már.

Elvar segir að uppskeran sé blanda af uppsafnaðri reynslu og því sem maður leggur á sig. „Ég hef alltaf lagt mikið á mig og undanfarin ár hef ég einfaldað svolítið vinnuna, reynt að einbeita mér að undirstöðuatriðum. Svo eykst bara sjálfstraustið þegar maður spilar í þessum deildum og maður verður betri fyrir vikið. Þetta verður einhvern veginn auðveldara.“

Hvernig upplifir þú atvinnumennskuna? Er þetta eins og þú varst búinn að sjá fyrir þér? Var eitthvað sem kom þér á óvart?

„Það sem kemur mér svolítið á óvart er frítíminn sem maður hefur. Maður fer stundum bara á eina æfingu á dag, sem tekur tvo tíma, svo ertu bara að hvíla það sem eftir er af deginum. Þetta getur verið mjög einhæft og einmanalegt, sérstaklega þegar fjölskyldan er ekki hjá manni. Þá er maður eiginlega bara að bíða eftir næsta degi. Maður hafði kannski ekki hugsað út í þann hluta og maður þarf að finna sér eitthvað að gera með körfuboltanum til þess að drepa tímann í rauninni.

Þegar fjölskyldan er með mér þá fæ ég hins vegar mikinn tíma með henni. Við getum þá gert ýmislegt saman, bara við þrjú, og ég fengið að kynnast litla stráknum mínum og fengið að fylgjast með honum vaxa. Það er stór kostur við þetta.“

Elvar með fallegu fjölskyldunni sinni á ferðalagi í Hrísey. Mynd af Instagram-reikningi Elvars


Uppgangur hjá landsliðinu

Elvar hefur verið einn af lykilmönnum íslenska landsliðsins og það hefur verið góður gangur hjá því að undanförnu.

„Já, klárlega. Við höfum verið að fara upp á við eftir smá lægð síðustu þriggja ára eftir kynslóðaskipti í liðinu. Við höfum verið að finna taktinn saman og þetta hefur gengið ótrúlega vel síðustu tvö ár allavega, erum komnir í dauðafæri á að komast inn á heimsmeistaramótið – sem var kannski fjarlægt okkur fyrir tveimur árum þegar við vorum að berjast um hvort við fengjum að spila við þessi bestu lið eða vera áfram meðal smáþjóðanna. Við unnum risasigur í vetur á Ítölum og tvisvar Hollendinga, sem eru að fara á Eurobasket núna.“

Er ekki skemmtilegt að spila með landsliðinu?

„Jú, ég neita því ekki. Bara umhverfið sem maður er í, með öllum sínum bestu vinum. Þetta er eitthvað svo náttúrulegt fyrir manni, þarf ekkert að leggja á sig að kynnast mönnum. Við erum allir vel tengdir. Þótt undirbúningur hefur ekki alltaf verið mikill erum við alltaf vel stilltir saman og erum fljótir að spila okkur í góðan takt.“

Það verður rosa ævintýri ef þið komist á HM.

„Það yrði bara draumur, eitthvað sem maður hefði aldrei getað ímyndað sér en svo er það allt í einu orðinn möguleiki núna. Ef svo yrði þá verður það bara fáránlegt fyrir svona litla þjóð.“

Við eigum orðið fleiri atvinnumenn. Gæðin á íslenskum leikmönnum hafa verið að þróast í rétta átt, myndir þú ekki segja það?

„Jú, klárlega. Það hjálpar til þegar fleiri fara út í atvinnumennsku, því hærri verður standardinn myndi ég segja. Þar er meira æft og menn eru ekki að vinna með körfuboltanum í atvinnumennsku, þannig að fókusinn verður meiri á körfuboltann og menn verða betri fyrir vikið. Maður finnur það alveg að við erum að taka skref upp á við,“ segir Elvar að lokum en viðtalið við hann má sjá á vef Víkurfrétta.