Íþróttir

Toppliðið vann nauman sigur í Keflavík
Keflvíkingar mega ganga sáttir frá borði eftir frammistöðu sína en þessi vafasami vítaspyrnudómur setur leiðinlegan blett á annars stórskemmtilegan knattspyrnuleik tveggja góðra liða. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 17. júlí 2022 kl. 22:54

Toppliðið vann nauman sigur í Keflavík

Það var boðið upp á stórskemmtilegan fótboltaleik í kvöld þegar Keflavík tók á móti Breiðabliki, toppliði Bestu deildar karla í knattspyrnu. Liðin skiptust á forystu í hörkuleik sem endaði á sigurmarki Blika eftir vafasaman vítaspyrnudóm.

Keflavík - Breiðablik 2:3

Það voru gestirnir sem voru sprækari í byrjun og þeir komust yfir á 10. mínútu. Markið skoruðu þeir úr skyndisókn eftir að sókn Keflvíkinga rann út í sandinn.

Eftir markið tóku heimamenn við sér og komust betur inn í leikinn. Þeir aukaspyrnu á stórhættulegum stað, rétt utan teigs Blika, sem Patrik Johannesen tók en markvörður Blika varði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Rúnar Þór átti fínan leik, var sterkur í vörninni og fljótur í sóknina.

Á 27. mínútu tók Rúnar Þór Sigurgeirsson langt innkast frá vinstri inn í markteig gestanna, þar stökk Magnús Þór Magnússon, fyrirliði Keflvíkinga, manna hæst en náði ekki til boltans. Boltinn barst áfram inn að marki Blika, þar skallaði Kian Williams boltann áfram á Adam Árna Róbertsson sem skoraði.

Kian Williams framlengir boltann á Adam Árna Róbertsson sem jafnar leikinn í 1:1.

Keflavík hélt áfram að ógna marki gestanna og Frans Elvarsson var hársbreidd frá því að skora þegar um fimm mínútur voru til leikhlés. Hann fékk þá sendingu frá Adami Árna en skotið fór naumlega framhjá stönginni og staðan því jöfn í hálfleik.

Keflvíkingar hófu seinni hálfleik af miklum krafti og það var ekki langt liðið á hálfleikinn þegar Adam Árni vann boltann á vallarhelmingi Blika, geystist upp völlinn og gaf á Johannesen sem kláraði vel án þess að markvörður Blika kæmi vörnum við (48'). Heimamenn komnir yfir, 2:1.

Adam Árni vinnur boltann og rýkur upp völlinn, gefur svo á Patrik Johannesen sem kom heimamönnum í 2:1.

Við það að komast yfir færðist aukinn kraftur í gestina og Keflavík datt aftar á völlinn. Blikar náðu þó ekki að skapa sér góð færi en heimamenn voru skeinuhættir í skyndisóknum sínum. Gestirnir bættu stöðugt í sóknina en þeim gekk illa að finna glufur á sterkri vörn Keflvíkinga en á 81. mínútu náði sóknarmaður Blika stórgóðu skoti utan teigs, Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflvíkinga, kastaði sér en átti ekki möguleika í boltann og glæsilegt mark jafnaði leikinn í 2:2.

Sindri með heiðarlega tilraun til að verja en skotið hnitmiðað og fast.

Það var svo komið í uppbótartíma þegar Blikar sækja, sóknarmaður þeirra fellur við í teignum eftir samskipti við Ernir Bjarnason og vafasamt víti dæmt. Mjög strangur dómur en gestirnir skoruðu sigurmarkið úr vítaspyrnunni (90'+1).

Vörn Keflvíkinga var þétt í kvöld. Hér nær Finninn Dani Hatakka að bægja hættunni frá.

Keflvíkingar mega ganga sáttir frá borði eftir frammistöðu sína en þessi vafasami vítaspyrnudóJóhannmur setur leiðinlegan blett á annars stórskemmtilegan knattspyrnuleik tveggja góðra liða.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og má sjá myndasafn neðst á síðunni.

Keflavík - Breiðablik (2:3) | Besta deild karla 17. júlí 2022