Íþróttir

Toppliðið steinlá fyrir sterkum Grindvíkingum
Deandre Kane hitti aðeins einu af níu þriggjastigaskotum sínum í kvöld en skilaði samt tuttugu stigum.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 15. mars 2024 kl. 21:50

Toppliðið steinlá fyrir sterkum Grindvíkingum

Grindvíkingar unnu góðan sigur á toppliði Vals í kvöld í Subway-deild karla í körfuknattleik. Grindvíkingar hafa verið á miklu skriði undanfarið og leikurinn í kvöld var sá tíundi í röð í deildinni sem liðið vinnur. Grindavík er í fjórða sæti deildarinnar með þrettán sigra eftir nítján leiki, einum sigri á eftir Njarðvík og Keflavík en Keflvíkingar hafa leikið tuttugu leiki.

Grindavík - Valur 98:67

Grindvíkingar voru sannfærandi í leiknum í kvöld og höfðu betur í öllum leikfjórðungum.

Optical Studio
Optical Studio

Eftir fyrsta leikhluta voru Grindvíkingar komnir með þriggja stiga forskot (22:19) og  þeir juku muninn í átta stig í hálfleik (48:40).

Þeir gulklæddu gerðu svo út um leikinn í þriðja leikhluta sem var algerlega þeirra eign og Grindvíkingar bættu þrettán stigum við forystuna (77:56). Valsmenn lögðu árar í bát og skoruðu einungis ellefu stig í síðasta leikhlutanum og rúmlega þrjátíu stiga sigur Grindvíkinga verðskuldaður (98:67).

Dedrick Basile fór fyrir Grindvíkingum með 24 stig, þá voru Deandre Kane með tuttugu stig og Julio De Asisse nítján.


Sigurbjörn Daði Dagbjartsson, fréttamaður Víkurfrétta, var á leiknum og ræddi við leikmenn og þjálfara eftir leik. Viðtölin má sjá í spilurum hér að neðan.