HSS
HSS

Íþróttir

Thelma Dís snýr heim í Keflavík – Sverrir Þór tekur við liðinu
Frá undirritun samninga: Anna Lára, Thelma Dís, Sverrir Þór og Agnes María. Mynd og frétt af Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Keflavíkur
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 21. maí 2023 kl. 21:14

Thelma Dís snýr heim í Keflavík – Sverrir Þór tekur við liðinu

Agnes María og Anna Lára framlengja

Sverrir Þór Sverrisson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna í Keflavík og Thelma Dís Ágústdóttir snýr aftur heim í Keflavík eftir góðan tíma í bandaríska háskólaboltanum.

Sverrir þekkir Keflavíkurliðið vel enda gerði hann liðið að Íslandsmeisturum tímabilið 2016/2017 og var valinn þjálfari ársins í Domino's-deild kvenna það sama tímabil.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég er mjög spenntur að fá að vinna með þennan öfluga hóp sem Keflavík hefur á að skipa, fimm ár frá því að ég þjálfaði mjög ungt Keflavíkurlið sem gerði góða hluti og í dag eru nokkrar af þeim leikmönnum þær reynslumestu í liðinu. Ég hef fulla trú á að við getum gert góða hluti í vetur,“ er haft eftir Sverri Þór á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Keflavíkur í dag.

Thelma Dís Ágústdóttir snýr aftur heim í Keflavík!

Thelma var lykilleikmaður í Íslandsmeistaraliði Keflavíkur tímabilið 2016/2017 og var valinn leikmaður ársins í Domino's-deild kvenna það sama ár. Thelma hefur stundað nám í Bandaríkjunum undanfarin ár við góðan orðstír.

„Ég er bara ótrúlega spennt að vera komin heim í Keflavík. Mér líst mjög vel á liðið enda eru þetta flestar stelpur sem ég spilaði með áður en ég fór út. Sverrir var náttúrulega líka að þjálfa okkur þá þannig að ég er spennt að spila fyrir hann aftur og vonandi vinna einhverja titla fyrir Keflavík,“ sagði Thelma Dís fyrr í dag.

Keflavík Íslandsmeistarar kvenna árið 2017.

Agnes María Svansdóttir og Anna Lára Vignisdóttir hafa skrifað undir framlengingu við Keflavík og leika því með liðinu áfram.

Agnes spilaði 34 leiki fyrir Keflavík í vetur. Var með 6,9 stig að meðaltali í leik og 2,3 fráköst.

Anna Lára spilaði 35 leiki í vetur og skoraði í þeim 3,4 stig í leik og tók 2,1 frákast.