Leikfélag Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur

Íþróttir

Pálmi er í markinu hjá Úlfunum
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 22. febrúar 2020 kl. 07:51

Pálmi er í markinu hjá Úlfunum

Ungur Njarðvíkurmarkvörður er í skemmtilegum málum í enska boltanum

„Þetta er mikið ævintýri að komast að hjá efstudeildarliði í Englandi. Stóri draumurinn er svo að fara alla leið hjá Wolves og landsliði Íslands,“ segir Njarðvíkingurinn Pálmi Rafn Arinbjörnsson, fimmtán ára markvörður sem skrifaði nýlega undir fjögurra ára atvinnumannasamning við Úlfana sem leika í efstu deild í ensku knattspyrnunni.

Pálmi Rafn hefur stundað knattspyrnu hjá Njarðvík frá því hann var ungur strákur og hefur undanfarin ár verið valin í yngri landslið Íslands. Nú nýlega var hann í U17 landsliðinu en hann á að baki ellefu landsleiki með yngri landsliðum Íslands.

Public deli
Public deli

Pálmi skrifaði undir samning við Wolves á afmælisdaginn sinn.

Mamma hringdi

Hann segir að hann hafi vakið athygli í landsleik og í framhaldi fór ferli af stað í gegnum umboðsmanninn hans, Bjarka Gunnlaugsson, fyrrverandi atvinnumann í knattspyrnu.

„Ég man ennþá eftir símtalinu frá mömmu þegar þetta gerðist. Ég var í sumarvinnu hjá Njarðvík á þeim tíma og var ég að slá Njarðtaksvöllinn þegar mamma hringdi og sagði mér að umboðsmaður hafi hringt í hana til að segja henni að Wolves hafði áhuga á mér. Á þeim tíma var liðið nýkomið upp í efstu deild í Englandi. Síðan buðu þeir mér að koma út á reynslu í viku og mér gekk það vel að þeir vildu fá mig á samning. Þá var ég fjórtán ára en það mátti ekki gera samning við mig fyrr en ég yrði fimmtán ára. Á þeim tíma fór ég aftur á æfingar í viku hjá þeim og fór síðan með liðinu til Spánar í tíu daga æfingaferð. Ég flutti svo út 8. september 2019 og skrifaði síðan undir samning á afmælisdaginn minn, þann 29. nóvember.“

Geturðu sagt okkur eitthvað frá samningnum?

„Ég skrifaði undir fjögurra ára samning, þar sem fyrsta  árið er svokallaður „scholar“ og þegar ég verð sautján ára dettur inn „pro contract“ og gildir hann í þrjú ár.“

Pálmi með Sævari markmannsþjálfara sínum úr Njarðvík.

Góður stuðningur

Hvernig er svo tilveran þarna úti, hvernig er t.d. venjulegur dagur hjá þér?

„Þetta er mikið ævintýri en á sama tíma mikil vinna. Ég er mjög heppinn með það að fjölskyldan styður vel við bakið á mér og flutti mamma mín og litli bróðir minn út með mér. Vegna vinnu og skóla restin af fjölskyldunni komst ekki með en þau koma reglulega út til okkar. Dagarnir mínir eru mjög misjafnir en byggjast allir á tveimur til þremur æfingum á dag, ásamt skóla. Er oftast frá átta til fimm, fer ég á æfingu um tíuleytið, borða hádegismat, fer síðan í ræktina, þaðan á markmannsæfingu og eftir það fer ég á seinustu æfingu dagsins. Ég æfi mest með U18 en fer stundum á æfingar með U16 en ég keppi með þeim. Ég hef átt góðar æfingar með U18 og í kjölfarið fengið að fara á æfingar með U23 nokkrum sinnum. Það er geggjað því þar eru margir sem spila og æfa með meistaraflokknum hjá Wolves.“

Hvernig eru framtíðardraumar þínir í boltanum?

Wolves er frábær klúbbur og stóri draumurinn í dag er að komast í meistaraflokkinn hjá þeim. Einnig vill ég halda áfram að vera valinn í landsliðshópa og komast í A-landsliðið.“

„Sá þjálfari sem hefur gert mig að þeim leikmanni sem ég er í dag er markmannsþjálfarinn minn, hann Sævar Júlíusson“

Af hverju varðstu markvörður?

„Ástæðan fyrir því að ég byrjaði í fótbolta var vegna þess að Njarðvík vantaði markmann í C-liðið í 5. flokki. Ég var búinn að vera leika mér í marki í frímínútum í skólanum og hafði gaman að því að vera í marki. Strákarnir sögðu mér að kíkja á æfingu og ég hef ekki hætt síðan. Algjör tilviljum þannig séð, því ég æfði fótbolta þegar ég var yngri sem útileikmaður.“

Atvinnumennska fjarlægur draumur

Hvað geturðu sagt okkur frá knattspyrnuuppeldi þínu í Njarðvík?

„Tíminn minn hjá Njarðvík hefur verið mjög góður. Ég er búinn að vera heppinn með þjálfara frá upphafi. Guðni Erlendsson var með mig þegar ég byrjaði og hjálpaði hann mér rosalega mikið á þeim tíma. Þórir Rafn Hauksson gaf mér það tækifæri að spila minn fyrsta leik með 3. flokki, þegar ég var á yngra ári í 4. flokki, og hefur hann verið að þjálfa mig í yngri flokkunum alveg síðan.

Síðastliðin ár hef ég verið í þjálfun hjá Rafni Markúsi og Snorra Má, tveir góðir þjálfarar sem höfðu mikla trú á mér hjá Njarðvík. En sá þjálfari sem hefur gert mig að þeim leikmanni sem ég er í dag er markmannsþjálfarinn minn, hann Sævar Júlíusson. Ég byrjaði í þjálfun hjá honum aðeins tólf ára gamall og á þeim tíma var ég ekkert svakalega góður ef satt skal segja. Atvinnumennska var fjarlægur draumur þá en Sævar sá efnið í mér og tók mig í þjálfun. Ég lærði eitthvað nýtt í hvert einasta skipti sem ég hitti hann, öll sú tækni sem ég kann í dag er frá Sævari. Ég væri ekki þar sem ég er í dag án Sævars, það er bara þannig. Ég get svo sannarlega sagt að tíminn minn hjá Njarðvík hefur verið fullur af áskorunum, að sjálfsögðu hefur gengið upp og niður eins og sagt er en það er bara partur af þessu öllu. Ég get alla vega sagt að ég er stoltur Njarðvíkingur,“ sagði Pálmi Rafn.

Pálmi og Ingvar Jónsson markvörður sem hefur leikið fjölda landsleikja.