The Retreat Hotel og Kerlingarfjöll Highland Base fá MICHELIN-lykla
Þann 8. október síðastliðinn fengu bæði The Retreat Hotel við Bláa Lónið og Kerlingarfjöll Highland Base einn MICHELIN lykil hvort og eru í hópi 34 gististaða á Norðurlöndunum sem The MICHELIN Guide heiðrar í ár. Þar er mælt með um 7.000 gististöðum um allan heim, sem hljóta frá einum og upp í þrjá lykla út frá mati byggðu á fimm breytum sem skipta ferðalanga máli.
MICHELIN stjörnur hafa verið veittar veitingastöðum í yfir hundrað ár og eru þær ein eftirsóttasta viðurkenning sem veitingastöðum getur hlotnast. The MICHELIN Key er af sama meiði og veitir hótelum og gististöðum sem standast strangar gæðakröfur viðurkenningar sem kallast lyklar. MICHELIN lyklar eru því sambærilegir MICHELIN stjörnunum sem matgæðingar þekkja af góðu einu.
Í tilkynningu MICHELIN segir:
“Gististaðir sem hljóta einn lykil eru einstakir á alla mælikvarða. Þar er hugsað út fyrir kassann, áhersla á óvenjulegar eða sjaldgæfar upplifanir og staðirnir í sérflokki hvað varðar gæði og aðbúnað. Þjónustan er alltaf framúrskarandi og fer dvöl á staðnum langt fram úr væntingum miðað við aðra í sama verðflokki.”
„Við höfum frá upphafi einsett okkur að skapa upplifanir á heimsmælikvarða, og höfum ekkert slegið af þeim kröfum við þróun nýrra áfangastaða. Viðurkenning frá MICHELIN Guide er því dýrmæt fyrir okkar vegferð og hvatning til áframhaldandi góðra verka.“ segir Grímur Sæmundsen, stofnandi og eigandi Bláa Lónsins.
Paulina Henriksdotter Hoffman, hótelstjóri The Retreat, var viðstödd afhendingarathöfnina og tók á móti viðurkenningunni fyrir hönd The Retreat. Nýafstaðin afhendingarathöfn markar fyrsta skiptið sem MICHELIN lyklar eru sérstaklega veittir hótelum og gististöðum á Norðurlöndunum, en áður höfðu flokkarnir talið Norður-Ameríku, Evrópu og Asíu.
“Þetta eru sérstaklega ánægjulegar viðurkenningar fyrir okkur, þar sem við höfum lagt mikinn metnað í uppbyggingu gæðagistiaðstöðu á síðustu árum. Áherslur okkar á sjálfbærni, hönnun, þjónustu og upplifanir hafa skilað sér í ánægðum viðskiptavinum hvaðanæva að úr heiminum,” segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa Lóninu.
The Retreat by Blue Lagoon Iceland og Kerlingarfjöll Highland Base eru í eigu Bláa Lónsins h.f., sem stendur einnig fyrir uppbyggingu á fjölbreyttri aðstöðu og afþreyingu í Þjórsárdal.