1. maí 2024
1. maí 2024

Íþróttir

Nýtt íþróttahús tekið í notkun í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 5. nóvember 2023 kl. 06:24

Nýtt íþróttahús tekið í notkun í Grindavík

Gamli íþróttasalurinn við grunnskólann var reistur árið 1947. Mikil bylting árið 1985 að komast í salinn sem í dag er sá eldri. Fyrst átti að stækka eldri salinn en þeirri ákvörðun var snúið.
Skólaslit í gamla leikfimissalnum í maí 1972. Kennarar og nemendur hlusta á erindi Friðbjörns Gunnlaugssonar, skólastjóra.

„Fyrsta keppnin í körfuknattleik var milli grunnskólanna í Grindavík og Garði,“ segir Halldór Ingvason sem á einn stærsta þáttinn í að körfuknattleikur ruddi sér til rúms í Grindavík. Á upphafsárunum var leikið í sal sem var litlu stærri en badmintonvöllur en árið 1985 reis stærra íþróttahús í Grindavík og á dögunum var nýtt og enn stærra hús tekið í notkun.

Halldór Ingvason.

Það er ekki djúpt í árina tekið að kalla Halldór Ingvason einn af guðfeðrum körfuknattleiks í Grindavík. „Gamli salurinn var tekinn í notkun árið 1947 en þá var ég nýfluttur í Grindavík. Þessi íþróttasalur var sextán metrar að lengd og átta metrar á breidd, svona rúmlega badmintonkeppnisvöllur. Ég flutti síðan frá Grindavík til að mennta mig sem kennari og þegar ég sneri til baka árið 1962 hafði ekki verið íþróttakennsla í Grindavík í nokkur ár því Bogi Hallgrímsson, sem hafði sinnt íþróttakennslunni, hætti um tíma og vann á Keflavíkurflugvelli. Bogi hafði smíðað körfur og lét setja upp í salnum ásamt þáverandi skólastjóra, Guðmundi Sigurðssyni, sem leysti Einar Kr. Einarsson af í eitt ár. Ég hafði kynnst körfubolta lítillega á Núpi í Dýrafirði og í námi mínu við Kennaraskólann og Íþróttakennaraskólann á Laugavatni, þar lærði ég undirstöðuatriðin og gat boðað fagnaðarerindi körfuboltans í Grindavík. Þennan fyrsta vetur var ég einn því Helga konan mín flutti ekki strax til Grindavíkur og því var ég öll kvöld að leika mér í körfubolta í þessum litla sal. Ég þekkti Finnboga Björnsson sem var farinn að kenna í Garðinum og við komum á keppni á milli skólanna, það er fyrsta keppnin sem fram fer í körfuknattleik í Grindavík. Þarna stigu sín fyrstu körfuboltaskref leikmenn eins og Kristinn Gamalíelsson, Bragi Ingvason, Jakob Eyfjörð, ég og fleiri og svo komu fljótlega elstu strákarnir úr unglingadeildinni í skólanum inn í liðið, t.d. bræðurnir Sigurður og Ægir Ágútssynir.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Ólafur Rúnar, ljósmyndari og kennari, spilar fyrir áhugasama nemendur í gamla  leikfimissalnum í febrúar 1986.

Landsliðið kemur til Grindavíkur

Halldór hafði kynnst mörgum innan körfuboltahreyfingarinnar á Íslandi í námi sínu og fékk aldeilis flotta heimsókn. „Ég þekkti Einar Bollason sæmilega og orðaði við hann að gaman yrði að fá nokkra körfuboltamenn suður til Grindavíkur til að sýna hvernig körfuknattleikur væri leikinn. Einar tók mig heldur betur á orðinu og bauðst til að fá hluta af landsliðinu til að hafa sýningu í Grindavík. Ég sótti þá á gamla skólabílnum og vakti þetta mikla athygli. Þeir gátu auðvitað lítið spilað, til þess var salurinn of lítill, en þeir sýndu troðslur og ýmislegt annað. Þetta kveikti greinilega áhuga en þarna voru guttar eins og Eyjólfur Guðlaugsson og Ólafur Jóhannsson sem síðar áttu eftir að gera garðinn frægan í liðum Grindvíkinga sem kepptu á Íslandsmótum. Á þessum árum gátu krakkar í Grindavík ekki klárað grunnskólanámið í Grindavík og þurftu að fara út á land, flestir fóru í Reykholtsskóla eða á Laugarvatn þar sem mikil hefð var fyrir körfuknattleik. Þetta voru strákar sem lærðu undirstöðuatriði í körfubolta í Grindavíkurskóla og sögðust þeir hafa fengið þar  góðan grunn, þeir komust fljótt í skólaliðin og uxu og þroskuðust ennþá meira í körfuboltafræðunum. Þegar þeir sneru svo til baka til Grindavíkur urðu þeir leiðandi í fyrstu liðum Grindvíkinga á Íslandsmótum í körfubolta,“ segir Halldór.

Handboltaleikur í gamla leikfimissalnum 10. mars 1979. Handboltalið kvenna í Grindavík var í fjáröflunarverkefni og spilaði handbolta í einn sólarhring 10. mars 1979.  Frá vinstri: Sjöfn Ágústsdóttir, Guðbjörg Pétursdóttir, Rut Óskarsdóttir í markinu, Hildur Gunnarsdóttir, Ólafía K. Jensdóttir, Sigríður J. Jóndóttur,  Berglindi Demusdóttur, Ingunn Jónsdóttir, Hulda Guðjónsdóttir.

UMFG stofnað árið 1963

Íþróttafélag Grindavíkur var stofnað árið 1935 en eftir 1955 dró mjög úr starfi félagsins af ýmsum ástæðum og þegar Halldór byrjaði að kenna í Grindavík lá öll starfsemi niðri. Jón Leósson, sem var nýfluttur til Grindavíkur frá Akranesi, kom að máli við Halldór árið 1963 og orðaði við hann hvort Halldór væri tilbúinn að stofna með honum íþróttafélag. Þeir fengu til liðs við sig Braga Guðráðarson, Borgfirðing að ætt, og ákváðu að stofna nýtt félag og skildi það vera ungmennafélag. Þeir söfnuðu að sér nokkrum hópi af ungu fólki og í október 1963 var Ungmennafélag Grindavíkur stofnað sem tók við af Íþróttafélagi Grindavíkur. „Vegna ruglings vil ég sérstaklega árétta að fyrir 1963 var ekkert ungmennafélag starfandi í Grindavík. Þar sem Jón Leósson var góður knattspyrnumaður tók hann að sér að leiða knattspyrnuiðkun á vegum félagsins en ég tók að mér að koma körfuboltanum áfram. Helga kona mín kenndi svo stúlkum handbolta. Fljótlega eftir að drengirnir sem ég hafði kennt undirstöðuatriði körfuboltans komu úr héraðsskólunum má segja að körfuboltatímabilið hefjist fyrir alvöru í Grindavík, líklega tímabilið 1967/1968. Við fengum að æfa í Njarðvík og uppi á velli og við lékum heimaleikina í íþróttahúsi Njarðvíkur allt þar til nýja íþróttahúsið var tekið í notkun árið 1985. Mér líst vel á nýja salinn sem var nýlega vígður, það er gaman að sjá þessa gulu og bláu liti. Mér er minnisstætt þegar við vorum að búa til fyrsta liðið sem keppti úti í Garði, fengum við eiginkonur og mæður leikmanna til að sauma búningana, eitthvað réði því að buxurnar voru gular og treyjurnar bláar, þessir litir hafa haldist alla tíð síðan,“ sagði Halldór.

Nýja íþróttahúsið í Grindavík tekið í notkun 20. október 1985. Þá fór fram leikur í 1. deild körfuboltans á milli UMFG og Reynis í Sandgerði.

Áhorfendur fylgjast vel með við hliðarlínuna.

Fyrsti unglingalandsliðsmaður Grindvíkinga

Eyjólfur Guðlaugsson var fyrsti unglingalandsliðsmaður Grindvíkinga og man vel eftir gamla salnum. „Ég man vel eftir mér sem gutti, við vörðum öllum stundum í salnum og spiluðum körfu-, fót- og handbolta. Það voru ekki beint neinar æfingar byrjaðar á þessum tíma og ég byrjaði ekki að æfa körfuknattleik fyrr en ég fór í héraðsskólann á Laugarvatni. Mestan hluta míns ferils æfði ég í þessum gamla sal og á þaðan góðar minningar en það var mikil bylting að komast í nýja salinn árið 1985, sem nú er orðinn gamli salurinn. Mér líst mjög vel á þennan nýja sal en það er gaman frá því að segja að tveimur árum eftir að við fengum hinn salinn vorum við komnir upp í efstu deild. Hver veit nema eitthvað gott gerist eftir tvö ár í þessum nýja og glæsilega sal, sagði Eyjólfur.

Leikið í nýja íþróttasalnum.

Fyrsti A-landsliðsmaður Grindvíkinga

Guðmundur Bragason var fyrsti A-landsliðsmaður Grindvíkinga og sleit sínum barnskóm sömuleiðis í gamla salnum við skólann. „Það var alltaf talað um okkur í Grindavík, að við hittum illa af köntunum en værum góðir að skjóta beint á körfuna, völlurinn var svo mjór. Ég var tólf, þrettán ára þegar ég byrjaði að æfa í gamla salnum við skólann og man vel hversu gaman það var að komast í salinn árið 1985 sem var nýr þá. Sem betur fer var ákveðið að byggja nýtt hús en fyrst átti að stækka gamla salinn, það hefði verið glapræði að mínu mati. Framtíð körfunnar í Grindavík er mjög björt með tilkomu þessa salar, það hefði auðvitað verið gaman að hafa salinn eins og Haukahúsið þar sem áhorfendur geta verið allan hringinn en það verður bara þröngt á þingi, þá myndast oft besta stemmningin,“ sagði Guðmundur.

Nýi íþróttasalurinn.