Íþróttir

Njarðvíkingar unnu í Valsbúningum
Ari Már Andrésson jafnar leikinn með góðu skallamarki. Mynd: Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 18. ágúst 2022 kl. 09:25

Njarðvíkingar unnu í Valsbúningum

Það sköpuðust óvæntar aðstæður á leik Hauka og Njarðvíkur í 2. deild karla í knattspyrnu í gær. Í fyrsta lagi var leikið á Valsvellinum á Hlíðarenda þar sem verið er að skipta um gervigras á Haukavellinum og í öðru lagi þá léku Njarðvíkingar í varabúningum Vals. Eins og flestir vita leika Njarðvíkingar í grænum treyjum og Haukar í rauðum en dómari leiksins er litblindur og getur ekki gert greinarmun á grænum og rauðum litum, því brugðu Njarðvíkingar á það ráð að fá lánaða varabúninga Vals. Það kom þó ekki að sök því Njarðvíkingar höfðu betur og unnu með tveimur mörkum gegn einu í leik þar sem gekk á ýmsu en Kenneth Hogg, leikmaður Njarðvíkur, meiddist illa í leiknum og verður líklega frá út tímabilið. Á sama tíma tóku Reynismenn á móti ÍR úr Breiðholti í í jafnteflisleik þar sem ekkert mark var skorað, Reynismenn þurfa enn tvo sigra hið minnsta til að komast úr fallsæti en þeir eru sex stigum á eftir Víkingi Ólafsvík sem gerði líka jafntefli í gær.

Haukar - Njarðvík 1:2

Leikur Hauka og Njarðvíkinga hófst með miklum hvelli. Snemma í leiknum braut markvörður Hauka á Kenny Hogg og vítaspyrna dæmd (10'), Oumar Diouck tók vítið en markvörður Hauka fór í rétt horn og varði vel. Þá var komið að Haukum að setja pressu á Njarðvík og skömmu síðar fengu þeir dæmt víti, Robert Blakala tókst ekki að verja vítið og Haukar því komnir í forystu (14').

Njarðvíkingar jöfnuðu leikinn fyrir leikhlé og var Ari Már Andrésson þar að verki eftir hornspyrnu. Ari stökk manna hæst í teignum og skallaði boltann laglega í fjærhornið (37').

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

Í seinni hálfleik urðu Njarðvíkingar fyri áfalli þegar Kenny Hogg meiddist illilega. Hogg virtist slasast alvarlega og var m.a. leitað eftir lækni í stúkunni, hann var svo borinn af velli og yfirgaf leikvanginn með sjúkrabíl. Eftir rannsóknir kom í ljós að hnéskelin hafði færst úr stað og var henni kippt í liðinn en líklega verður hann frá út tímabilið, frekari rannsóknir koma væntanlega til með að leiða alvarleika meiðslanna í ljós á næstu dögum.

Sölvi Björnsson kom inn á í stað Hogg og þrettán mínútum síðar skoraði hann sigurmark Njarðvíkinga eftir sendingu frá Hreggviði Hermannssyni (73') og Njarðvíkingar höfðu því sigur.

Njarðvík hefur nú sjö stiga forskot á Þrótt Reykjavík á toppi deildarinnar og eru ellefu stig í Völsung sem er í þriðja sæti, það má því eiginlega bóka það að Njarðvíkingar komi til með að leika í Lengjudeildinni að ári.

Hogg borinn af velli illa meiddur. Mynd: Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net

Reynir - ÍR 0:0

Fátt markvert gerðist í leik Reynis og ÍR sem endaði með markalausu jafntefli. Reynismenn eru í fallsæti, sex stigum á eftir Víkingi Ólafsvík og með talsvert lakara markahlutfall. Þeir þurfa því á stigum að halda ætli þeir sér að halda sæti sínu í 2. deild en nú eru aðeins fimm umferðir eftir af Íslandsmótinu.