Íþróttir

Njarðvík náði ekki að landa titlinum á heimavelli
Njarðvíkingar lentu í ógöngum sóknarlega í kvöld. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 28. apríl 2022 kl. 23:09

Njarðvík náði ekki að landa titlinum á heimavelli

Fjórði leikur Njarðvíkinga og Hauka í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn varð aldrei rishár, hvorugt lið var sannfærandi í sínum leik en það má segja að með afleitum kafla í byrjun seinni hálfleik hafi Njarðvíkingar kastað frá sér sigrinum. Haukar höfðu betur, 51:60 og því þarf oddaleik til að knýja fram úrslit milli liðanna sem verður leikinn í Ólafssal á sunnudag.

Njarðvík - Haukar 51:60

(8:14, 24:18, 5:17, 14:11)

Það mátti vel greina taugaspennu hjá báðum liðum í byrjun leiks en Haukar byrjuðu þó betur og tóku forystu. Sóknin gekk illa hjá Njarðvík sem gerðu ekki nema átta stig í fyrsta leikhluta og voru sex stigum á eftir Haukum (8:14). Annar leikhluti var meira í átt við það sem maður á að venjast. Hraðinn jókst og Njarðvíkingar virtust vera búnar að finna taktinn og hrista af sér stressið. Þegar komið var að hálfleik var allt orðið jafnt og virtist blása með Njarðvík (32:32).

Meðbyrinn breyttist snarlega í mótvind og þriðji leikhluti var lítið augnayndi og ekkert gekk hjá Njarðvík, aðeins fimm stig Njarðvíkinga í þriðja leikhluta og með því misstu þær Hauka fram úr sér (37:49) sem kláruðu leikinn.

Leikur Njarðvíkinga var mjög slakur og allt of margir leikmenn léku langt undir getu. Andleysi, þróttleysi og agaleysi var uppskriftin en það er einn leikur eftir og í viðtali við Víkurfréttir eftir leik sagði Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, að Njarðvík verði Íslandsmeistarar á útivelli í ár.  Viðtalið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Það var kominn pirringur í leikmenn í lokin.

Njarðvík: Aliyah A'taeya Collier 27/20 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 8/8 fráköst, Helena  Rafnsdóttir  6, Diane Diéné Oumou 5/4 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 5, Krista Gló Magnúsdóttir 0, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 0, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Þuríður Birna Björnsdóttir Debes 0, Jóhanna Lilja Pálsdóttir 0, Vilborg Jonsdottir 0/5 fráköst, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók meðfylgjandi myndir.

Njarðvík - Haukar (51:60) | Úrslit Subway-deildar kvenna 28. apríl 2022

Tengdar fréttir